Orðskviðirnir 7 - Biblían (2007)

1Sonur minn, varðveittu orð mín

og hugfestu fyrirmæli mín.

2Varðveittu fyrirmæli mín, því að þá munt þú lifa,

og leiðsögn mína eins og sjáaldur auga þíns.

3Bind þau á fingur þína

og skráðu þau á spjald hjarta þíns.

4Segðu við spekina: „Þú ert systir mín,“

og kallaðu skynsemina vinkonu

5svo að þær varðveiti þig fyrir hinni framandi konu,

hinni blíðmálgu konu.

6Út um gluggann á húsi mínu

skimaði ég milli rimlanna

7og sá þar meðal sveinanna

ungan og vitstola mann.

8Hann kom að götuhorni

og fetaði leiðina að húsi hennar,

9í rökkrinu, að kvöldi dags,

um miðja nótt og í niðdimmu.

10Kona gekk til móts við hann,

klædd sem skækja og undirförul í hjarta,

11eirðarlaus óhemja er hún

og hefst aldrei við heima,

12hún er ýmist á götunum eða á torgunum

og liggur í leyni við hvert horn,

13þrífur í hann og kyssir hann

og segir í blygðunarleysi:

14„Ég átti að færa heillafórn,

í dag hef ég goldið heit mitt.

15Þess vegna fór ég út að finna þig

til þess að leita þín, og hef nú fundið þig.

16Ég hef búið rúm mitt ábreiðum,

marglitum ábreiðum úr egypsku líni.

17Myrru, alóe og kanel

hef ég stökkt á hvílu mína.

18Komdu, við drekkum okkur ástdrukkin,

njótum ásta fram á morgun.

19Maðurinn minn er að heiman,

hann er farinn í langferð.

20Peningapyngjuna tók hann með sér,

hann kemur ekki heim fyrr en í tunglfyllingu.“

21Hún tælir hann með fortölum

og ginnir hann með blíðmælgi.

22Hann fer rakleiðis á eftir henni

eins og naut á leið til slátrunar,

eins og hjörtur sem anar í netið

23uns örin smýgur gegnum lifur hans,

eins og fuglinn hraðar sér í snöruna

og veit ekki að líf hans er í veði.

24Þér yngismenn, hlýðið því á mig

og gefið gaum að orðum mínum.

25Láttu ekki hjartað tælast á leið hennar,

villstu ekki inn á götur hennar.

26Marga hefur hún sært ólífissári

og fórnarlömb hennar eru óteljandi.

27Hús hennar er helvegur

niður til heimkynna dauðans.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help