Fyrri kroníkubók 23 - Biblían (2007)

Levítar og störf þeirra

1Þegar Davíð var orðinn gamall og saddur lífdaga gerði hann Salómon, son sinn, að konungi yfir Ísrael.

2Hann safnaði því saman öllum leiðtogum Ísraels, prestum og Levítum.

3Levítarnir, þrítugir og eldri, höfðu verið taldir. Var fjöldi þeirra þrjátíu og átta þúsund.

4Tuttugu og fjögur þúsund þeirra áttu að stjórna vinnunni í húsi Drottins, sex þúsund áttu að vera embættismenn og dómarar,

5fjögur þúsund hliðverðir og fjögur þúsund áttu að lofa Drottin með hljóðfærunum sem Davíð hafði látið gera til lofgjörðarinnar.

6Davíð skipti Levítunum í flokka eftir sonum Leví: Gerson, Kahat og Merarí.

7Til niðja Gersons töldust Laedan og Símeí.

8Jehíel var elstur af sonum Laedans, þá Setam og Jóel, alls þrír.

9Synir Jehíels voru Selómót, Hasíel og Haran, alls þrír. Þeir voru ættarhöfðingjar Laedans.

10Synir Símeí voru Jahat, Sína, Jeús og Bería. Þetta voru fjórir synir Símeí.

11Jahat var elstur og Sísa næstur. Jeús og Bería áttu aðeins fáa syni. Þeir mynduðu því aðeins eina fjölskyldu, einn þjónustuflokk.

12Synir Kahats voru Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, alls fjórir.

13Aron og Móse voru synir Amrams. Aron var sérstaklega valinn til þess að sjá ævinlega um hið háheilaga ásamt sonum sínum, brenna reykelsisfórn frammi fyrir augliti Drottins og þjóna honum og blessa í nafni hans um aldur.

14En synir guðsmannsins Móse töldust til ættbálks Leví.

15Synir Móse voru Gersóm og Elíeser.

16Sebúel var elstur af sonum Gersóms.

17Rehabja höfðingi var sonur Elíesers. Elíeser átti ekki aðra syni en synir Rehabja voru mjög margir.

18Selomít var elsti sonur Jísehars.

19Synir Hebrons voru Jería, sem var elstur, Amarja næstur, Jakasíel þriðji og Jekameam fjórði.

20Elsti sonur Ússíels var Míka og Jessía næstur honum.

21Synir Merarí voru Mahlí og Músí. Synir Mahlí voru Eleasar og Kís.

22Þegar Eleasar dó hafði hann ekki eignast neina syni, aðeins dætur. Synir Kíss, frændur þeirra, tóku þær sér fyrir konur.

23Synir Músí voru Mahlí, Eder og Jeremót, alls þrír.

Verkefni Levítanna

24Þetta voru niðjar Leví, flokkaðir eftir fjölskyldum sínum, ættarhöfðingjar þeirra eins og þeir voru skráðir með nafni og taldir hver um sig. Þeir sem voru tuttugu ára og eldri sáu um þjónustuna í húsi Drottins.

25Davíð hafði sagt: „Drottinn, Guð Ísraels, hefur veitt þjóð sinni frið og er sestur að í Jerúsalem um alla framtíð.

26Levítarnir þurfa því ekki lengur að bera tjaldið og öll áhöldin sem þarf til þjónustunnar þar,“

27því að samkvæmt síðustu fyrirmælum Davíðs voru Levítarnir taldir tuttugu ára og eldri.

28Þeir hlutu stöðu við hlið sona Arons við þjónustu í húsi Drottins, til að sjá um forgarðana og herbergin og hreinsun alls þess sem heilagt er. Einnig eiga þeir að þjóna í húsi Drottins,

29sjá um skoðunarbrauðin, fínmalað mjöl í kornfórnir og ósýrð brauð, pönnur og bakstur. Þeir skulu einnig sjá um vökvamál og lengdarmál.

30Þeim ber að taka sér stöðu kvölds og morgna til að þakka Drottni og lofa hann.

31Við allar brennifórnir, sem færðar eru Drottni á hvíldardögum, tunglkomudögum og hátíðum, skulu þeir jafnan þjóna allir frammi fyrir Drottni eins og þeim ber.

32Þeir skulu hafa á hendi þjónustu í opinberunartjaldinu, í helgidóminum og við syni Arons, embættisbræður sína, þegar þeir þjóna í húsi Drottins.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help