Jesaja 48 - Biblían (2007)

Drottinn boðar nýtt og hulið

1Hlýðið á þetta, Jakobsniðjar,

sem nefndir eruð nafni Ísraels

og komnir eruð af Júda,

þér sem sverjið við nafn Drottins

og lofið Guð Ísraels

en hvorki í einlægni né sannleika.

2Þeir kenna sig við hina helgu borg

og styðjast við Guð Ísraels,

nafn hans er Drottinn allsherjar.

3Fyrri atburði boðaði ég fyrir löngu,

munnur minn boðaði það

og ég gerði það heyrinkunnugt,

óvænt kom ég því til leiðar

og það varð.

4Þar sem ég vissi að þú ert þrjóskur

og sinin í hnakka þínum úr járni

og ennið úr eir

5boðaði ég þér þetta fyrir löngu,

lét þig heyra það áður en það varð

svo að þú gætir ekki sagt:

Skurðgoð mitt gerði það,

líkneski mitt og eirmynd mín gaf fyrirmælin.

6Þú hefur heyrt þetta, horfðu nú á það allt,

ætlarðu ekki að boða það öðrum?

Nú boða ég þér nýja hluti,

hulda hluti sem voru þér óþekktir.

7Nú fyrst verður það skapað

en ekki fyrir löngu.

Þú hefur ekki heyrt þetta fyrr en í dag

svo að þú getur ekki sagt: „Ég vissi það áður.“

8Þú hefur hvorki heyrt þetta áður né vitað um það,

fyrrum hafðir þú ekki opin eyrun

og ég vissi vel að þú ert svikull

og varst kallaður heitrofi frá fæðingu.

9Vegna nafns míns sefa ég reiði mína

og vegna sæmdar minnar þyrmi ég þér

svo að ég tortími þér ekki.

10Ég hreinsaði þig,

þó ekki sem silfur,

ég reyndi þig

í bræðsluofni þjáningarinnar.

11Mín vegna, sjálfs mín vegna, geri ég þetta,

ella vanhelgast nafn mitt.

Sæmd mína gef ég engum öðrum.

12Hlýð á mig, Jakob,

og Ísrael sem ég hef kallað:

Ég er hann, ég er hinn fyrsti

og ég er einnig hinn síðasti.

13Hönd mín grundvallaði jörðina

og hægri hönd mín þandi út himininn.

Kalli ég á þau bregðast þau við.

14Safnist allir saman og hlýðið á,

hver þeirra hefur sagt þetta fyrir?

Sá sem Drottinn elskar,

mun framkvæma vilja hans á Babýlon

og vera armur hans gegn Kaldeum.

15Það er ég, það er ég sem talaði og kallaði hann,

ég sótti hann og veitti honum brautargengi.

16Komið til mín og heyrið þetta:

Frá upphafi hef ég aldrei talað í leyndum

og frá því þetta varð hef ég verið hér.

Nú hefur Drottinn Guð sent mig og anda sinn.

17Svo segir Drottinn, lausnari þinn,

Hinn heilagi Ísraels:

Ég er Drottinn, Guð þinn,

sem kenni þér það sem gagnlegt er,

leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.

18Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum

væri hamingja þín sem fljót

og réttlæti þitt eins og öldur hafsins,

19niðjar þínir væru sem sandur

og börn þín eins og sandkorn.

Nafn þeirra væri hvorki afmáð

né því eytt fyrir augliti mínu.

Heimförin frá Babýlon

20Farið frá Babýlon, flýið frá Kaldeum.

Kunngjörið þetta með fagnaðarópi

og boðið það til endimarka jarðar,

hrópið: „Drottinn hefur frelsað þjón sinn, Jakob.“

21Þá þyrsti ekki þegar hann leiddi þá um auðnina,

hann lét vatn streyma úr kletti handa þeim

þegar hann klauf klöppina

og vatn vall fram.

22„Óguðlegir hljóta engan frið,“

segir Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help