Síraksbók 6 - Biblían (2007)

1Þú skalt eigi gerast óvinur þess sem vinur þinn er.

Illur orðstír færir hneisu og ámæli

og hlotnast syndara sem mælir tungum tveim.

2Gefstu ei fýsnum þínum á vald,

þær munu tæta mátt þinn sem mannýgt naut.

3Þær munu eta upp blöð þín og eyða aldinum þínum

og þú stendur eftir eins og visið tré.

4Spillt ástríða tærir þann sem elur á henni

og hann verður athlægi óvina sinna.

Vinátta

5Fögur orð fjölga vinum

og ómþýtt mál vekur vinsemd fleiri.

6Kunningsskap við marga skaltu halda

en veit einum af þúsundi trúnað þinn allan.

7Vin skaltu reyna viljir þú vin eiga

og ver eigi fljótur til að veita honum trúnað.

8Margur er vinur þegar honum hentar

en er hvergi nærri þegar að sverfur.

9Aðrir eru þeir vinir sem í óvini breytast

og gera þér hneisu með því að ljóstra upp hvað olli.

10Margur er vinur er þú býður til veislu

en er hvergi nærri þegar að sverfur.

11Þegar þér vegnar vel er hann sem hugur þinn

og segir þjónum þínum til.

12En gerist þér mótdrægt snýst hann gegn þér

og fer í felur sjái hann þig nálgast.

13Hald þig fjarri fjandmönnum þínum

og vertu á varðbergi gagnvart vinum.

14Traustur vinur er örugg vörn,

finnir þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.

15Traustur vinur er verðmætari öllu,

á engan kvarða fæst gildi hans metið.

16Traustur vinur er sem ódáinsdrykkur,

sá sem Drottin óttast mun slíkan finna.

17Sá sem óttast Drottin vandar val vina,

hann heldur sér að slíkum sem honum sjálfum líkjast.

Áminnt um að læra af spekinni

18Barnið mitt, þýðstu leiðsögn þegar í æsku,

þá munt þú speki finna allt til elliára.

19Nálgastu spekina líkt og sá sem plægir og sáir,

þá máttu vænta að hún gefi góðan ávöxt.

Rækt við hana er skammvinn þraut

því að brátt muntu neyta af ávexti hennar.

20Spekin er erfið þeim er enga ögun hlaut

og heimskum hlotnast hún eigi.

21Hún reynist steinn er hann fær ei á stall komið,

hann hraðar sér að hverfa frá henni.

22Spekin ber nafn sitt með réttu,

hún liggur ei öllum í augum uppi.

23Hlýð á, barnið mitt, og tak tilsögn minni,

hafna þú eigi heilræðum mínum.

24Set haft spekinnar á fætur þér

og ok hennar þér á herðar.

25Lyft spekinni á bak þér og ber hana,

gremstu ei yfir fjötrum hennar.

26Leita þú hennar af allri sálu,

feta vegu hennar af öllum mætti.

27Kanna þú og leita og þá mun spekin birtast þér.

Slepp henni eigi er þú hefur höndlað hana.

28Að lokum finnur þú þann frið sem hún veitir,

spekin mun umbreytast þér í gleðigjafa.

29Fjötrar hennar verða þér sterk vörn,

aktygi hennar að tignarskrúða.

30Ok spekinnar verður þér djásn af gulli,

fjötrar hennar purpuraskrúði.

31Þú munt skrýðast henni sem tignarklæðum

og bera spekina sem heiðurskórónu á höfði.

32Ef þú vilt, sonur minn, þá muntu fræðast

og verða hygginn ef þú leggur þig fram.

33Sértu fús til að hlusta muntu fræðast

og verður hygginn ef þú leggur við hlustir.

34Vertu þar gjarnan sem gamlir eru

og legg á minnið speki þeirra.

35Hlýð fúslega á hverja háleita samræðu,

lát ekkert spakmæli fram hjá þér fara.

36Finnir þú hygginn mann, gakk árla á fund hans,

núðu upp þröskuld hans með fótum þínum.

37Grunda fyrirmæli Drottins,

íhuga stöðugt boðorð hans.

Hann mun veita hjarta þínu staðfestu

og gefa þér þá speki sem þú þráir.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help