Hósea 7 - Biblían (2007)

1Þegar ég lækna Ísrael

kemur misgjörð Efraíms í ljós

og illskuverk Samaríu.

Þeir hafa svikið:

Þjófur brýst inn

og úti á strætinu herja ránsflokkar

2en þeir leiða ekki hugann að því

að ég man eftir öllum illskuverkum þeirra.

Nú umkringja þá eigin verk,

þeir koma fyrir auglit mitt.

3Þeir glöddu konung með illsku sinni

og höfðingja með svikum sínum.

4Allir eru þeir hórkarlar,

þeir eru sem glóandi ofn

sem bakari þarf ekki að kynda

á meðan deig er hnoðað þar til það hefur súrnað.

5Á degi konungs vors

urðu hermenn sjúkir af svalli,

vínið sveif á gárunga.

6En þeir nálgast á laun,

hjarta þeirra er sem glóandi ofn.

Alla nóttina blundar heift þeirra,

að morgni blossar hún upp eins og eldslogi.

7Allir eru þeir glóandi sem ofn,

þeir gleypa stjórnendur sína,

allir konungar þeirra féllu,

enginn þeirra ákallar mig.

8Efraím blandaðist framandi þjóðum.

Efraím er kaka,

bökuð öðrum megin,

9útlendingar gleyptu kraft hans

án þess að hann skildi það,

hár hans varð grátt

án þess að hann skildi það.

10Hroki Ísraels vitnar gegn honum sjálfum

og Ísraelsmenn hverfa ekki aftur til Drottins, Guðs síns,

leita hans ekki þrátt fyrir allt þetta.

11Efraím líkist dúfu,

einfaldri og skilningslausri.

Þeir hrópa á hjálp frá Egyptalandi,

fara til Assýríumanna.

12Þegar þeir fara kasta ég yfir þá neti,

dreg þá niður eins og fugla himins,

gríp þá strax og ég heyri í flokki þeirra.

13Vei þeim, þeir hafa flúið mig,

þeir deyi, þeir hafa brugðist mér.

Ég ætlaði að leysa þá en þeir fóru með lygar um mig

14og hrópuðu ekki til mín í hjarta sínu

þegar þeir kveinuðu í hvílum sínum.

Vegna korns og víns ristu þeir á sig skinnsprettur,

þeir hafa snúist gegn mér.

15Ég sjálfur styrkti þá og jók mátt þeirra

en þeir vildu mér illt.

16Þeir sneru sér að því sem fánýtt er,

urðu sem svikull bogi.

Höfðingjar þeirra skulu falla fyrir sverði

vegna formælinga tungu sinnar.

Því verða þeir hafðir að spotti í Egyptalandi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help