Fimmta Mósebók 17 - Biblían (2007)

1Þú skalt ekki fórna Drottni, Guði þínum, nauti eða lambi sem hefur eitthvert lýti eða galla því að það er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.

2Finnist hjá þér í einhverri af borgunum, sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér, karl eða kona sem gerir það sem illt er í augum Drottins, Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmálann við hann,

3og fari og þjóni öðrum guðum gegn boðum mínum og sýni þeim lotningu, sólinni, tunglinu eða öllum himinsins her

4og þú verðir þessa vísari, skaltu rannsaka það gaumgæfilega. Reynist rétt vera að slík svívirða hafi verið framin í Ísrael

5skaltu leiða þann karl eða þá konu, sem hefur framið þetta ódæði, að borgarhliði þínu og grýta þar í hel, hvort sem það er karl eða kona.

6Eftir framburði tveggja eða þriggja vitna skal fullnægja dauðadómi. Enginn skal líflátinn vegna framburðar eins vitnis.

7Vitnin skulu vera fyrst til að leggja hönd á hinn dauðadæmda til að lífláta hann og síðan fólkið allt. Þú skalt uppræta hið illa sem finnst þín á meðal.

Æðsti dómstóllinn

8Reynist þér um megn að dæma eitthvert mál, hvort sem það er vegna blóðsúthellinga, persónulegra deilna eða líkamsárásar eða einhvers annars deilumáls sem upp kemur í heimaborg þinni, skaltu halda til staðarins sem Drottinn, Guð þinn, velur sér.

9Þú skalt ganga fyrir Levítaprestana og dómarann sem þá gegnir embætti og spyrja þá ráða. Þeir munu kveða upp dóm í málinu

10og þú skalt framfylgja dóminum sem þeir kveða upp á staðnum sem Drottinn velur. Þú skalt gæta þess að fara að öllu eftir leiðbeiningum þeirra.

11Þú skalt fara eftir fyrirmælunum, sem þeir gefa þér, og úrskurðinum, sem þeir fella, og hvorki víkja til hægri né vinstri frá þeim dómi sem þeir kveða upp fyrir þig.

12En sýni einhver þá ofdirfsku að hlusta hvorki á prestinn, sem stendur þarna til að þjóna Drottni, Guði þínum, né dómarann, skal hann deyja. Þú skalt eyða hinu illa úr Ísrael.

13Öll þjóðin skal frétta þetta svo að hún fyllist ótta og sýni ekki ofdirfsku framar.

Embætti konungs

14Þegar þú ert kominn inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, fær þér og hefur tekið það til eignar og komið þér þar fyrir og segir: „Ég vil taka mér konung eins og þjóðirnar umhverfis,“

15þá máttu svo sannarlega taka þér konung sem Drottinn, Guð þinn, velur. Þú mátt aðeins taka einhvern af bræðrum þínum til konungs. Þú mátt ekki setja yfir þig erlendan mann því að hann er ekki bróðir þinn.

16Samt má konungurinn ekki afla sér of margra hesta eða leiða þjóðina aftur til Egyptalands til að afla sér fleiri hesta því að Drottinn hefur sagt við ykkur: „Þið skuluð aldrei aftur snúa þessa leið.“

17Hann má ekki heldur taka sér of margar konur svo að hjarta hans víki ekki af réttri leið.

Hann má ekki heldur draga saman of mikið af gulli og silfri.

18Þegar hann er sestur í sitt konunglega hásæti skal hann láta gera afrit á bók af þessum lögum sem Levítaprestarnir varðveita.

19Bókin skal vera hjá honum og hann lesa hana alla ævidaga sína svo að hann læri að óttast Drottin, Guð sinn, og haldi öll fyrirmæli og ákvæði þessa lögmáls og breyti eftir þeim

20svo að hann ofmetnist ekki gagnvart ættbræðrum sínum og víki hvorki til hægri né vinstri frá boðinu og hann og synir hans ráði lengi ríkjum í Ísrael.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help