Sálmarnir 49 - Biblían (2007)

1Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

2Heyrið þetta, allar þjóðir,

hlustið, allir heimsbúar,

3bæði háir og lágir,

jafnt ríkir sem fátækir.

4Munnur minn mælir speki

og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

5Ég hneigi eyra mitt að spakmæli,

ræð gátu mína við hörpuhljóm.

6Hví skyldi ég óttast á neyðartímum

þegar heift svikara ógnar úr öllum áttum?

7Þeir reiða sig á auð sinn

og stæra sig af ríkidæmi sínu.

8En enginn fær keypt bróður sinn lausan

eða greitt Guði lausnargjald fyrir hann,

9lausnargjaldið fyrir líf hans væri of hátt,

ekkert mundi nokkru sinni nægja

10til að hann fengi að lifa um aldur

og þyrfti aldrei að sjá gröfina.

11Nei, hann sér að vitrir menn deyja,

fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum

og láta öðrum eftir auð sinn.

12Grafir verða heimkynni þeirra um aldur,

bústaðir þeirra frá kyni til kyns

þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13Þrátt fyrir auð sinn er maðurinn dauðlegur,

eins og dýrin hlýtur hann að deyja.

14Svo fer þeim sem treysta sjálfum sér

og þeim sem fylgja þeim og þóknast tal þeirra. (Sela)

15Þeir stefna til heljar sem sauðahjörð,

dauðinn heldur þeim á beit.

Að morgni ríkja réttlátir yfir þeim

og mynd þeirra eyðist,

hel verður bústaður þeirra.

16En Guð mun leysa líf mitt úr greipum heljar

og hann mun taka við mér. (Sela)

17Óttastu ekki þegar einhver auðgast,

þegar velmegun eykst í húsi hans,

18því að hann tekur ekkert af því

með sér þegar hann deyr,

auður hans fylgir honum ekki til heljar.

19Hann kann að telja sig sælan meðan hann lifir,

− þér er hælt því að þér vegnar vel, −

20samt verður hann að safnast til feðra sinna

sem aldrei framar líta ljósið.

21Sá sem á auð en engan skilning

hlýtur að deyja eins og dýrin.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help