Sakaría 8 - Biblían (2007)

Fyrirheit um endurreisn Jerúsalem

1Orð Drottins allsherjar kom til mín:

2Svo segir Drottinn allsherjar:

Ég er gagntekinn af vandlæti vegna Síonar,

ég loga af vandlæti hennar vegna.

3Svo segir Drottinn:

Ég sný aftur til Síonar

og tek mér bólfestu í Jerúsalem.

Og Jerúsalem verður nefnd borg sannleikans

og fjall Drottins allsherjar

fjallið helga.

4Svo segir Drottinn allsherjar:

Enn munu öldungar og gamlar konur sitja

á torgum Jerúsalem,

háöldruð með staf í hendi,

5og á torgum borgarinnar verður krökkt

af drengjum og stúlkum að leik.

6Svo segir Drottinn allsherjar:

Þeim sem eftir verða á þeim dögum

kann að virðast það undarlegt

en verður það þá einnig undarlegt í mínum augum?

segir Drottinn allsherjar.

7Svo segir Drottinn allsherjar:

Ég mun frelsa lýð minn

úr landi sólarupprásarinnar

og landi sólsetursins.

8Ég flyt hann heim aftur

og hann mun búa í Jerúsalem

og vera minn lýður,

og ég verð Guð hans

í trúfesti og réttvísi.

9Svo segir Drottinn allsherjar: Herðið upp hugann, þið sem heyrið á þessum dögum orð af munni spámannanna sem uppi voru þegar grundvöllur var lagður að endurbyggingu musterisins, húss Drottins allsherjar.

10Fyrir þá daga höfðu menn engar tekjur af vinnu sinni og engan arð af búpeningi sínum. Enginn gat þá verið á ferli óhultur fyrir óvinum því að öllum mönnum hleypti ég upp, hverjum gegn öðrum.

11En nú mun ég ekki breyta við þá sem eftir lifa af þjóðinni eins og á fyrri dögum, segir Drottinn allsherjar,

12því að það sem þeir sá mun dafna. Vínviðurinn ber ávöxt, jörðin gefur gróða, himinninn sendir dögg sína. Þeir sem lifa af þjóðinni munu slá eign sinni á allt þetta.

13Og þið, ætt Júda og ætt Ísraels, sem eruð orðnar að bölvun meðal þjóðanna, ykkur hjálpa ég, nú verðið þið til blessunar. Óttist ekki, verið hughraustar.

14Ég ásetti mér að gera ykkur illt þegar forfeður yðar reittu mig til reiði, segir Drottinn allsherjar, og þess iðraði mig ekki.

15En nú á þessum dögum hef ég ákveðið að gera vel við Jerúsalem og Júda ætt. Óttist ekki.

16Þetta er það sem ykkur ber að gera:

Segið sannleikann hver við annan

og fellið dóma af sanngirni

og velvilja í hliðum yðar.

17Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu

og fellið yður ekki við meinsæri.

Allt slíkt hata ég,

segir Drottinn.

18Orð Drottins kom til mín:

19Svo segir Drottinn allsherjar: Fastan í fjórða mánuði, fastan í fimmta mánuði, fastan í sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda verða ætt Júda til fagnaðar og ánægju og að kærkomnum hátíðum. Elskið sannleika og frið.

20Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga.

21Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: „Förum strax til að blíðka Drottin og leita Drottins allsherjar. Ég fer líka.“

22Og margir ættflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og blíðka hann.

23Svo segir Drottinn allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af öllum þjóðtungum grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: „Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help