Síraksbók 34 - Biblían (2007)

Um fánýti drauma

1Vonir óhygginna manna eru fánýtar og tál,

draumar lyfta hugum einfaldra.

2Sá er reiðir sig á drauma er líkastur þeim

sem grípa vill skugga og eltir vind.

3Draumsýn er eftirlíking veruleikans

eins og ásjóna og mynd af ásjónu.

4Má nokkuð hreint úr óhreinu koma?

Hvaða sannleikur getur komið af lygi?

5Fánýtir eru spádómar, fyrirboðar og draumar,

eins og hugarórar jóðsjúkrar konu.

6Séu þeir eigi sendir þér sem vitjun frá Hinum hæsta

skalt þú eigi leggja þér þá á hjarta.

7Draumar ginntu marga á glapstigu

og ollu þeim vonbrigðum sem treystu á þá.

8Án blekkinga verður lögmálið uppfyllt

og spekin fullkomin í munni þess sem heldur það.

Um ferðalög

9Margt veit sá maður er víða fór,

viturlegar eru reynds manns ræður.

10Lítið veit sá sem reyndi fátt,

11víðförull maður safnar hyggindum.

12Fjölmargt sá ég á ferðum mínum,

ég veit fleira en ég greini frá.

13Tíðum lenti ég í lífshættu

en ég hlaut björgun sakir þess sem mér lærðist.

Um guðsótta

14Þeir sem óttast Drottin munu lifa,

15von þeirra byggist á honum sem getur frelsað þá.

16Ekkert hræðist sá sem óttast Drottin,

hann brestur aldrei kjark því að Drottinn er von hans.

17Sæll er sá sem óttast Drottin.

18Hverjum treystir hann? Hver er styrkur hans?

19Augu Drottins hvíla á þeim er elska hann,

hann er máttugur skjöldur og styrk stoð,

hann er hlíf í breyskju og forsæla um hádag,

vörn við hrösun og forðar frá falli.

20Hann hressir sálina og hýrgar augun,

veitir heilsu, líf og blessun.

Um fórnir

21Sá sem fórnar því sem illa var fengið

færir eigi flekklausa fórn,

22Drottni þóknast eigi gjafir ranglátra.

23Hinum hæsta geðjast ekki fórnir guðlausra

né fyrirgefur hann syndir sakir fjölda fórna.

24Að færa fórn af fé fátækra

er að deyða son fyrir föðuraugum.

25Brauð þurfamannsins er fátækum lífið sjálft,

sá er sviptir hann því hefur líf á samviskunni.

26Sá verður náunga sínum að bana sem tekur björg hans,

27sá úthellir blóði sem hefur laun af verkamanni.

28Ef einn byggir upp og annar rífur niður,

hvað bera þeir úr býtum nema erfiðið eitt?

29Ef einn biður og annar bölvar,

á hvorn mun Drottinn hlýða?

30Hvað stoðar þann þvottur

sem bjó um lík ef hann snertir það aftur?

Hvað gagnaðist þá þvotturinn honum?

31Svo fer þeim er syndgar aftur

að lokinni föstu fyrir syndir.

Hver mun hlusta á bænir slíks manns,

hvað mun það stoða hann að auðmýkja sig?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help