Fjórða Mósebók 35 - Biblían (2007)

Borgir Levíta og griðaborgir

1Drottinn talaði til Móse á gresjum Móabs við Jórdan gegnt Jeríkó og sagði:

2„Gefðu Ísraelsmönnum þau fyrirmæli að þeir framselji borgir á erfðalöndum sínum til Levíta svo að þeir setjist þar að. Þið skuluð einnig fá þeim beitilönd umhverfis borgirnar sem heyra þeim til.

3Þeir skulu setjast að í borgunum og beitilönd borganna eiga að vera fyrir búfé þeirra og allar skepnur sem þeir eiga.

4Beitilönd borganna, sem þið framseljið Levítum, eiga að vera umhverfis borgirnar og ná þúsund álnir út frá þeim.

5Utan við borgina skuluð þið mæla tvö þúsund álnir austan megin, tvö þúsund álnir vestan megin, tvö þúsund álnir norðan megin og tvö þúsund álnir sunnan megin, borgin sjálf á að vera í miðjunni. Þetta beitiland kringum borgirnar skulu Levítarnir fá.

6Borgirnar, sem þið framseljið Levítum, skulu vera þær sex griðaborgir sem þið látið af hendi svo að sá sem hefur vegið mann geti flúið þangað. Auk þeirra skuluð þið framselja fjörutíu og tvær borgir,

7alls skuluð þið fá Levítum fjörutíu og átta borgir ásamt beitilöndum þeirra.

8Borgirnar, sem þið framseljið af landareign Ísraelsmanna, skulu valdar þannig að þið takið margar frá stórum ættbálki en fáar frá litlum. Hver ættbálkur skal framselja nokkrar af borgum sínum til Levítanna eftir því hversu stórt erfðaland hann hefur fengið.“

9Drottinn sagði við Móse:

10„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Þegar þið eruð komnir yfir Jórdan og inn í Kanaansland

11skuluð þið velja nokkrar borgir sem eiga að verða griðaborgir ykkar. Sá sem óviljandi hefur orðið manni að bana skal geta flúið þangað.

12Þannig eiga borgirnar að veita ykkur grið fyrir hefnanda svo að vegandi þurfi ekki að deyja fyrr en hann hefur komið fyrir dóm safnaðarins.

13Sex borganna, sem þið eigið að framselja, skulu verða griðaborgir ykkar.

14Þrjár borganna, sem þið framseljið handan við Jórdan, og þrjár borganna, sem þið framseljið í Kanaanslandi, skulu verða griðaborgir ykkar.

15Þessar sex borgir skulu verða griðaborgir fyrir Ísraelsmenn, aðkomumenn og útlendinga á meðal þeirra. Sérhver, sem óviljandi hefur orðið manni að bana, skal geta flúið þangað.

16Slái maður annan með járntóli og hann hlýtur bana af er hann morðingi og morðingja skal lífláta.

17Slái maður annan með stein í hendi, sem hægt er að bana manni með, og hann hlýtur bana af er hann morðingi og morðingja skal lífláta.

18Slái maður annan með trétól í hendi, sem hægt er að bana manni með, og hann hlýtur bana af er hann morðingi og morðingja skal lífláta.

19Sá sem á blóðs að hefna skal bana morðingjanum ef hann mætir honum.

20Hrindi maður öðrum af hatri eða kasti einhverju á eftir honum með illt í huga og hann hlýtur bana af

21eða slái hann af illum ásetningi með hendinni og sá sem fyrir verður hlýtur bana af, skal sá sem sló tekinn af lífi. Hann er morðingi. Sá sem á blóðs að hefna skal bana morðingjanum ef hann mætir honum.

22Hrindi maður öðrum án fjandskapar eða kasti einhverju á eftir honum án ásetnings

23eða kasti steini, sem getur banað manni, og hann lendir óvart á einhverjum og hann hlýtur bana af og hann hafði hvorki verið fjandmaður hins né óskað honum ills,

24þá skal söfnuðurinn dæma á milli banamannsins og hefnandans eftir þessum reglum.

25Söfnuðurinn skal bjarga banamanninum úr greipum hefnandans og söfnuðurinn skal koma honum aftur til þeirrar griðaborgar sem hann hafði flúið til. Þar skal hann dveljast þar til æðsti presturinn, sem hafði verið smurður heilagri olíu, deyr.

26Yfirgefi banamaður landsvæði griðaborgarinnar sem hann hefur flúið til

27og hefnandinn finnur hann utan svæðisins, má hefnandinn deyða banamanninn án þess að baka sér blóðsekt.

28Því að banamaðurinn skal dveljast í griðaborginni þar til æðsti presturinn deyr. En eftir andlát æðsta prestsins getur banamaðurinn snúið aftur heim til jarðeignar sinnar.

29Þetta skal vera ákvæði í lögum ykkar, frá einni kynslóð til annarrar, alls staðar þar sem þið setjist að.

30Þegar einhver banar öðrum manni skal aðeins taka morðingjana af lífi eftir framburði vitna. En framburður eins vitnis nægir ekki til að nokkur maður verði líflátinn.

31Þið skuluð ekki taka lausnargjald fyrir líf morðingja sem er sekur og taka á af lífi. Hann skal líflátinn.

32Þið skuluð ekki heldur taka lausnargjald fyrir neinn sem hefur flúið til griðaborgar svo að hann geti snúið heim og búið á jörð sinni áður en æðsti presturinn deyr.

33Þið skuluð ekki vanhelga landið sem þið eruð í. Þar sem blóð vanhelgar landið verður ekki friðþægt fyrir blóðið sem úthellt var á því nema með blóði þess sem úthellti því.

34Þú skalt ekki saurga landið sem þið búið í þar sem ég bý sjálfur í því miðju því að ég, Drottinn, bý mitt á meðal Ísraelsmanna.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help