Síraksbók 39 - Biblían (2007)

1Því er á annan veg farið um þann

er sökkvir sér niður í íhugun lögmáls Hins hæsta.

Hann rannsakar speki hinna fornu manna,

leggur sig eftir spádómum.

2Hann safnar orðræðum víðkunnra manna

og kafar í dæmi orðskviðanna.

3Hann ræður rúnir spakmæla

og leysir gátur dæmisagna.

4Höfðingjar kveðja hann til þjónustu

og hann kemur fram fyrir þjóðhöfðingja.

Hann ferðast meðal framandi þjóða

og reynir menn að góðu og illu.

5Hann leggur sig fram um að vakna árla,

leita Drottins sem skapaði hann

og ákalla Hinn hæsta.

Hann lýkur upp munni sínum í bæn

og biður um fyrirgefningu synda.

6Sé það vilji hins volduga Drottins

fyllist hann anda skilnings.

Hann mun láta spekiorð sín streyma fram

og lofsyngja Drottni í bænum sínum.

7Hann fellir ráð sín og skilning í farveg

og ígrundar leynda dóma Drottins.

8Hann lætur það í ljós sem hann hefur lært

og fagnar yfir lögum og sáttmála Drottins.

9Margir hrósa hyggindum hans,

nafn hans mun eigi afmáð um aldur.

Orðstír hans deyr aldrei,

nafn hans mun lifa frá kyni til kyns.

10Hjá framandi þjóðum fer orð af speki hans

og söfnuðurinn mun kunngjöra orðstír hans.

11Lifi hann lengi mun hann mærður meir en þúsundir

en deyi hann er orðstír hans ærinn.

Lofgjörð til Guðs

12Enn hef ég fleiru frá að greina,

er þrunginn þekkingu eins og tungl í fyllingu.

13Hlýðið á mig, guðhrædd börn mín, og vaxið

eins og rósarunnar við læk.

14Þér munuð anga sem reykelsið,

blómstra liljum líkust.

Hefjið raust yðar og syngið lofsöng,

lofið Drottin fyrir öll hans verk.

15Miklið nafn hans stórum,

þakkið og lofsyngið honum

bæði með söngvum og hörpuleik,

flytjið lofgjörð þessum orðum:

16„Allt er gott sem gerði Drottinn,

allt sem hann býður verður á réttum tíma.“

17Eigi skal segja: „Hvað er þetta, til hvers er það?“

Svarið fæst þegar Drottinn metur hentast.

Með orði lét hann vatnið safnast efra,

eftir orði hans varð það að forðabúri.

18Að boði hans verður allt sem hann óskar,

enginn fær rýrt þá hjálp sem hann veitir.

19Verk allra manna eru honum augljós,

ekkert fær dulist augum hans.

20Hann hefur auga á öllu frá eilífð til eilífðar,

ekkert er honum undrunarefni.

21Eigi skal segja: „Hvað er þetta, til hvers er það?“

Sérhvað var skapað í ákveðnum tilgangi.

22Blessun Drottins streymir yfir sem fljót

sem vökvar þurrlendið þegar það flæðir.

23Þannig mun reiði hans koma yfir heiðingja

eins og þegar hann gerði vatnsauðugt land að saltsléttu.

24Vegir Drottins eru guðræknum greiðir

en ófærir illum mönnum.

25Í upphafi skapaði hann gott fyrir góða

en syndurum einnig hið illa.

26Frumþörf allra manna til viðurværis

er vatn og eldur, járn og salt,

hveitimjöl, mjólk og hunang,

vínþrúgudreyri, ólífuolía og klæði.

27Allt er þetta guðhræddum til góðs

en snýst illum til ófarnaðar.

28Til eru andar skapaðir til að hegna,

þeir ljósta sárt í ofsa sínum.

Þeir úthella heift á skuldadegi

uns skaparanum er runnin reiðin.

29Eldur og hagl, hungur og drepsótt,

allt þetta var skapað til að hegna,

30einnig gin óargadýra, sporðdrekar og slöngur

og hegningarsverð sem eyða guðlausum.

31Þeir fagna er þeir fá skipun hans

og búa sig til þjónustu á jörðu

og er stundin kemur breyta þeir í engu gegn orði hans.

32Allt frá upphafi styrktist sannfæring mín,

ég grundaði þetta og skráði það síðan:

33„Öll verk Drottins eru góð,

hann bætir úr allri þörf á hentugum tíma.“

34Enginn skal segja: „Þetta er hinu síðra.“

Allt mun reynast gott á sínum tíma.

35Syngið því lofsöng af öllu hjarta

og lofið nafn Drottins.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help