Jesaja 41 - Biblían (2007)

Ísrael boðuð hjálp

1Verið hljóð og hlýðið á mig, eylönd,

þjóðir, bíðið kenningar minnar.

Gangi þær nær og tali síðan,

vér skulum eigast lög við.

2Hver vakti þann í austri

sem hlýtur sigur í hverju spori,

leggur undir sig þjóðir

og steypir konungum?

Sverð hans gerir þær að dufti

og bogi hans gerir þær sem strá í vindi.

3Hann rekur flótta þeirra og skaðast hvergi

og fætur hans snerta vart veginn.

4Hver hefur gert þetta og komið því til leiðar?

Sá sem í upphafi kallaði kynþættina fram,

ég, Drottinn, er hinn fyrsti

og með hinum síðustu er ég enn hinn sami.

5Eyjarnar sáu þetta og skelfdust,

endimörk jarðar skulfu.

Þeir nálguðust og komu.

6Einn hjálpar öðrum

og segir við félaga sinn: „Vertu hughraustur.“

7Handverksmaður hvetur gullsmið,

sá sem sléttir málminn hvetur þann sem steðjann slær

og segir um lóðninguna: „Hún er góð!“

Síðan festir hann skurðgoðið með nöglum

svo að það haggist ekki.

Útlagarnir hughreystir

8En þú, Ísrael, þjónn minn,

Jakob, sem ég hef útvalið,

niðji Abrahams, vinar míns.

9Ég sótti þig til endimarka jarðar,

kallaði þig frá ystu afkimum hennar.

Ég sagði við þig: „Þú ert þjónn minn,

ég útvaldi þig og hafnaði þér ekki.“

10Óttast eigi því að ég er með þér,

vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.

Ég styrki þig, ég hjálpa þér,

ég styð þig með sigrandi hendi minni.

11Smán og skömm komi yfir alla

sem fylltust heift gegn þér.

Þeir sem deildu við þig

verða að engu og farast.

12Þú munt leita þeirra

sem stóðu gegn þér

en ekki finna þá.

Þeir sem herjuðu á þig

verða að engu og tortímast.

13Því að ég, Drottinn, er Guð þinn,

ég held í hægri hönd þína

og segi við þig: „Óttast eigi,

ég bjarga þér.“

14Óttast eigi, ormurinn Jakob,

maðkurinn þinn Ísrael.

Ég hjálpa þér,

segir Drottinn,

Hinn heilagi Ísraels er lausnari þinn.

15Ég hef gert þig að nýjum þreskisleða

alsettum göddum.

Þú átt að þreskja fjöll og mylja þau

og gera hæðirnar að hálmi.

16Þú skalt sáldra þeim og vindurinn feykir þeim burt,

stormurinn tvístrar þeim

en þú skalt sjálfur fagna yfir Drottni

og gleðjast vegna Hins heilaga í Ísrael.

17Þegar umkomulausir og snauðir leita vatns

er ekkert vatn að finna,

tunga þeirra skrælnar af þorsta.

Ég, Drottinn, mun bænheyra þá,

Guð Ísraels hefur ekki yfirgefið þá.

18Ég læt ár spretta fram á gróðurvana hæðum

og vatnslindir í dölunum.

Ég geri eyðimörkina að tjörnum

og þurrlendið að uppsprettum.

19Ég gróðurset sedrustré í eyðimörkinni,

akasíur, myrtusvið og ólífutré,

í auðnina set ég kýprusvið

ásamt barrtrjám og platanviði

20svo að menn sjái og játi,

skynji og skilji

að hönd Drottins hefur gert þetta

og Hinn heilagi Ísraels hefur skapað það.

Guð deilir á hjáguðina

21Leggið mál yðar fyrir, segir Drottinn,

færið fram rök yðar, segir konungur Jakobs.

22Þeir gangi fram og kunngjöri oss hvað hefur gerst.

Hvað merkir hið liðna? Skýrið frá því

svo að vér getum lagt oss það á hjarta

og skilið til hvers það leiðir.

Eða kunngjörið oss hið ókomna

23og segið frá því sem verður

svo að oss verði ljóst að þér séuð guðir.

Gerið annaðhvort gott eða illt

svo að vér undrumst og skelfumst.

24Nei, þér eruð ekkert

og verk yðar alls ekki neitt,

sá sem yður kýs, kýs viðurstyggð.

25Ég vakti upp mann í norðri og hann kom,

frá austri kallaði ég hann með nafni.

Hann traðkar á þjóðhöfðingjum sem mold

eins og leirkerasmiður treður leir.

26Hver boðaði þetta frá upphafi

svo að vér vissum það,

frá öndverðu svo að vér gætum sagt:

„Þetta er rétt“?

Enginn boðaði þetta, enginn sagði það fyrir,

enginn heyrði yður segja neitt.

27Ég var sá fyrsti sem boðaði Síon:

Sjá, þar koma þeir,

ég sendi Jerúsalem fagnaðarboða.

28Ég litast um en hér er enginn,

enginn þeirra getur veitt ráð

né svarað ef ég spyr þá.

29Þeir eru allir blekking,

verk þeirra ekki neitt,

skurðgoðin vindur einn og hjóm.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help