Síraksbók 50 - Biblían (2007)

Símon Óníasson

1Æðsti presturinn Símon Óníasson

lét endurbæta helgidóminn meðan hann lifði

og styrkti musterið um sína daga.

2Hann lagði grundvöll að hækkun salarins

og háum stoðveggjum um musterið.

3Á dögum hans var grafin vatnsþró,

vatnsgeymir líkur hafsjó að ummáli.

4Hann lét sér umhugað um að vernda þjóð

sína fyrir ógæfu

og styrkti borgarvarnir gegn umsátri.

5Hve undursamlegur var hann er hann

gekk um helgidóminn

og sté út úr hinu allra helgasta að baki fortjaldsins.

6Hann var sem morgunstjarna í skýjarofi,

máninn í fyllingu á hátíðum.

7Hann var sem röðull er roðar musteri Hins hæsta,

líkur regnboga er ljómar í björtum skýjum.

8Hann var sem útsprungin rós á vordegi,

liljur við lindaruppsprettu,

skrúð Líbanonsskóga á sumardögum.

9Hann var sem logandi reykelsi á eldfatinu,

ker af slegnu gulli

sem prýtt er margs kyns eðalsteinum.

10Hann var sem ólífutré sem svignar undan ávöxtum,

kýprusviður sem teygist til skýja.

11Þannig var hann er hann skrýddist tignarskrúða,

bjóst fullum skrúða vegsemdar sinnar.

Er hann gekk upp að hinu heilaga altari

lagði ljóma hans um forgarð musterisins.

12Þegar hann tók við fórnarhlutunum úr höndum prestanna

stóð hann sjálfur við altarisköstinn

en bræður hans stóðu umhverfis líkt og sveigur.

Hann var sem sedrustré á Líbanon,

umlukt pálmatrjám.

13Allir Aronssynir stóðu þar í dýrð sinni

með fórnargjafir til Drottins í höndum

andspænis öllum söfnuði Ísraelsmanna.

14Er Símon hafði síðan lokið altarisþjónustu

fullkomnaði hann fórnina til Hins hæsta,

Hins almáttuga,

15og rétti út hendur eftir fórnarkaleiknum,

hellti af honum þrúgnadreyra

og stökkti honum á undirstöður altarisins

til þekkilegs ilms hinum hæsta konungi alls.

16Þá hrópuðu synir Arons upp

og þeyttu síðan silfurlúðra,

létu þá gjalla miklum hljómi

til áminningar frammi fyrir Hinum hæsta.

17Jafnskjótt lét allt fólkið sig falla

til jarðar á ásjónur sínar

til að tilbiðja Drottin sinn,

hinn almáttuga æðsta Guð.

18Og söngvarar hófu upp lofsöng sinn,

sterklega ómaði hið ljúfa lag.

19En fólkið ákallaði hinn æðsta Drottin,

bað frammi fyrir hinum miskunnsama

uns lokið var helgri þjónustu við Drottin

og gjörvöll guðsþjónustan til lykta leidd.

20Þá gekk æðsti presturinn ofan og hóf upp hendur

yfir allan söfnuð Ísraelsmanna

til að veita þeim blessun Drottins með vörum sínum

og mæla fram nafn Drottins með fögnuði.

21Og öðru sinni féll fólkið fram

til að taka við blessun frá Hinum hæsta.

22Nú skuluð þér lofa Guð alheims,

hann sem hvarvetna gerir máttarverk

og veitir oss vegsemd alla ævi frá fæðingu

og breytir við oss samkvæmt miskunn sinni.

23Gefi hann oss gleði í hjarta

og veiti Ísrael frið um vora daga

eins og var fyrir örófi alda.

24Megi miskunn hans stöðug vera með oss

og megi hann frelsa oss um vora daga.

25Á tveim þjóðum hef ég andstyggð

og hin þriðja er óþjóð.

26Það eru þær sem búa í Seírfjöllum og Filistear

og vitvana þjóðin sem á heima í Síkem.

Niðurlagsorð höfundar

27Fræðsla, sem veitir skilning og þekking,

er skráð á þessa bók

af Jesú Eleasarssyni Sírakssonar frá Jerúsalem

sem úthellti speki úr hjarta sínu.

28Sæll er sá sem bókinni gerist handgenginn

og leggur sér orð hennar á hjarta, hann mun verða vitur.

29Því að sá sem breytir eftir henni mun megna allt

og hann gengur í guðsótta.

Hann gefur guðhræddum speki,

lofaður sé Drottinn um aldir alda,

megi svo verða, megi svo verða.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help