Fjórða Mósebók 5 - Biblían (2007)

Brottrekstur óhreinna

1Drottinn talaði til Móse og sagði:

2„Gefðu Ísraelsmönnum fyrirmæli um að reka úr herbúðunum alla holdsveika, alla með útferð og alla sem hafa saurgast af líki.

3Þið skuluð reka burt bæði karla og konur. Þið skuluð reka þau út fyrir herbúðirnar svo að þau saurgi þær ekki því að ég bý mitt á meðal Ísraelsmanna.“

4Ísraelsmenn gerðu þetta og ráku fólkið út fyrir herbúðirnar. Ísraelsmenn gerðu það sem Drottinn bauð Móse.

Skaðabætur og gjöld til helgidómsins

5Drottinn talaði til Móse og sagði:

6„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Þegar karl eða kona drýgir einhverja þá synd sem menn drýgja og rjúfa með því trúnað við Drottin verður sá hinn sami sekur.

7Þau skulu þá játa syndina sem þau hafa drýgt. Hinn seki skal bæta fullu verði það tjón sem hann olli með broti sínu og bæta fimmtungi við.

8Eigi maðurinn engan lausnarmann sem hægt sé að greiða bæturnar renna þær til Drottins og falla til prestsins nema friðþægingarhrúturinn sem presturinn skal friðþægja fyrir hann með.

9Öll afgjöld, allar helgigjafir Ísraelsmanna, sem fengnar eru presti, verða eign hans.

10Helgigjafir hvers og eins eru eign hans en það sem maður kann að færa presti verður hans eign.“

Rannsókn vegna gruns um hjúskaparbrot

11Drottinn talaði til Móse og sagði:

12„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu

við þá: Nú tekur kona fram hjá eiginmanni sínum og gerist honum ótrú

13með því að annar maður liggur með henni og því er haldið leyndu fyrir eiginmanni hennar en brot hennar verður ekki upplýst þó að hún hafi saurgast því að engin vitni koma fram gegn henni og hún var ekki staðin að verki.

14Komi afbrýðisandi yfir eiginmanninn og hann verður hræddur um konu sína, sem hefur saurgað sig, eða hann verður afbrýðisamur þó að hún hafi ekki saurgast,

15skal maðurinn fara með konu sína til prests og taka með sér tíunda hluta efu af byggmjöli sem fórnargjöf fyrir hana. Hann skal hvorki hella yfir það olíu né strá á það reykelsi því að það er afbrýðisemiskornfórn, kornfórn til áminningar um sekt.

16Presturinn skal leiða konuna fram og láta hana taka sér stöðu fyrir augliti Drottins.

17Síðan skal presturinn setja vígt vatn í leirkrús og taka lítið eitt af moldinni af gólfi tjaldbúðarinnar og setja hana í vatnið.

18Þegar presturinn hefur leitt konuna fram fyrir auglit Drottins skal hann leysa hár hennar og fá henni í hendur kornfórnina til áminningar, það er afbrýðiskornfórnina, en vatnið sem veldur bölvun skal vera áfram í hendi prestsins.

19Því næst skal presturinn taka eið af konunni og segja: Ef enginn hefur legið með þér og þú ekki saurgast af því að taka fram hjá eiginmanni þínum með öðrum manni mun þetta beiska vatn, sem annars veldur bölvun, ekki skaða þig.

20En hafir þú tekið fram hjá eiginmanni þínum og saurgast af því vegna þess að annar maður en eiginmaður þinn hefur haft samræði við þig,

21− nú skal presturinn taka af konunni eið sem felur í sér bölvun hennar og segja við hana − Drottinn mun láta bölvun þína og eið verða víti til varnaðar meðal þjóðar þinnar með því að hann lætur mjaðmir þínar hjaðna og kvið þinn þrútna.

22Þetta vatn, sem veldur bölvun, skal fara inn í kvið þinn og láta hann þrútna og mjaðmir þínar hjaðna. Konan skal svara: Amen, amen.

23Nú skal presturinn skrifa þessa bölvun á blað og skola síðan letrið af því í beiska vatninu.

24Því næst skal hann láta konuna drekka beiska vatnið sem veldur bölvun svo að vatnið, sem veldur bölvun, fari ofan í hana og valdi beiskum kvölum.

25Síðan skal presturinn taka afbrýðiskornfórnina úr hendi konunnar og veifa henni fyrir augliti Drottins og færa hana fram á altarið.

26Presturinn skal taka hnefafylli af kornfórninni sem minningarhluta hennar og láta hana líða upp í reyk af altarinu.

27Þegar hann hefur látið konuna drekka vatnið sem veldur bölvun veldur það beiskri kvöl hafi hún saurgast af því að vera manni sínum ótrú. Vatnið fer þá ofan í hana, veldur beiskju og kviður hennar þrútnar og mjaðmir hennar hjaðna. Þannig verður bölvun konunnar víti til varnaðar á meðal þjóðar hennar.

28Hafi konan ekki saurgast er hún hrein og skal úrskurðuð sýkn saka. Skal hún ekki hljóta skaða af og getur alið börn.“

29Þetta eru lög um afbrýði. Taki kona fram hjá eiginmanni sínum og saurgist

30eða afbrýðisandi kemur yfir einhvern svo að hann verður afbrýðisamur vegna konu sinnar, skal hann láta konuna taka sér stöðu frammi fyrir augliti Drottins og prestur skal í einu og öllu fara að þessum lögum.

31Þá er maðurinn saklaus en konan skal bera sekt sína.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help