Síðari konungabók 15 - Biblían (2007)

Asaría (Ússía) Júdakonungur

1Á tuttugasta og sjöunda stjórnarári Jeróbóams Ísraelskonungs varð Asaría konungur en hann var sonur Amasía Júdakonungs.

2Hann var sextán ára þegar hann varð konungur og ríkti fimmtíu og tvö ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.

3Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Amasía, faðir hans.

4Fórnarhæðirnar voru þó ekki aflagðar og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum.

5Drottinn laust þá konunginn svo að hann var holdsveikur allt til dauðadags og bjó í sérstöku húsi en Jótam, sonur konungs, varð hirðstjóri og ríkti yfir þjóðinni.

6Það sem ósagt er af sögu Asaría og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.

7Asaría var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Jótam, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Sakaría Ísraelskonungur

8Á þrítugasta og áttunda stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael og ríkti sex mánuði í Samaríu.

9Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja.

10Sallúm Jabesson gerði samsæri gegn honum, drap hann í Jibleam og varð konungur eftir hann.

11Það sem ósagt er af sögu Sakaría er skráð í annála Ísraelskonunga.

12Þar með rættist orð Drottins sem hann hafði flutt Jehú: „Synir þínir skulu sitja í hásæti Ísraels í fjóra ættliði.“

Sallúm Ísraelskonungur

13Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda stjórnarári Ússía, konungs í Júda, og ríkti mánaðartíma í Samaríu.

14En Menahem Gadíson hélt frá Tirsa og kom til Samaríu. Hann drap Sallúm Jabesson í Samaríu og varð konungur eftir hann.

15Það sem ósagt er af sögu Sallúms og samsærinu, sem hann gerði, er skráð í annála Ísraelskonunga.

16Á leið sinni frá Tirsa eyddi Menaham Tappúaborg og öllu sem í henni var af því að borgarhliðunum hafði ekki verið lokið upp. Hann lét rista allar þungaðar konur á kvið.

Menahem Ísraelskonungur

17Á þrítugasta og níunda stjórnarári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti tíu ár í Samaríu.

18Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum Jeróbóams Nebatssonar sem hann fékk Ísrael til að drýgja.

19Á stjórnartíma hans réðst Púl Assýríukonungur inn í landið. Menahem gaf honum þúsund talentur silfurs til þess að Púl tryggði konungdóm hans.

20Menahem jafnaði upphæðinni niður á alla auðmenn í Ísrael og skyldi hver þeirra um sig greiða Assýríukonungi fimmtíu sikla silfurs. Hélt þá Assýríukonungur á brott og hafði ekki lengri viðdvöl í landinu.

21Það sem ósagt er af sögu Menahems og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.

22Menahem var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Pekaja, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Pekaja Ísraelskonungur

23Á fimmtugasta stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael og ríkti tvö ár í Samaríu.

24Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja.

25Peka Remaljason, liðsforingi hans, gerði samsæri gegn honum og drap hann í íbúð konungs í höllinni í Samaríu. Peka hafði fimmtíu menn frá Gíleað með sér, drap Pekaja og varð konungur eftir hann.

26Það sem ósagt er af sögu Pekaja og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.

Peka Ísraelskonungur

27Á fimmtugasta og öðru stjórnarári Asaría, konungs í Júda, varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael og ríkti tuttugu ár í Samaríu.

28Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja.

29Í stjórnartíð Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kades, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og flutti íbúana í útlegð til Assýríu.

30Þá gerði Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og varð konungur eftir hann á tuttugasta stjórnarári Jótams Ússíasonar.

31Það sem ósagt er af sögu Peka og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.

Jótam Júdakonungur

32Á öðru stjórnarári Peka Remaljasonar varð Jótam Ússíason Júdakonungur.

33Hann var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti sextán ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa og var Sadóksdóttir.

34Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Ússía, faðir hans.

35Fórnarhæðirnar voru þó ekki aflagðar og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum. Það var Jótam sem lét reisa efra hliðið í musteri Drottins.

36Það sem ósagt er af sögu Jótams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.

37Um þetta leyti tók Drottinn að láta Resín, konung Arams, og Peka Remaljason ráðast á Júda.

38Jótam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs, forföður síns. Akas, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help