1Jósafat, konungur í Júda, sneri nú heill á húfi heim til Jerúsalem.
2Þá gekk sjáandinn Jehú Hananíson á móti honum og sagði við Jósafat konung: „Ber þér að hjálpa hinum guðlausa og vingast við þá sem hata Drottin? Vegna þess hvílir reiði Drottins á þér.
3Eigi að síður hefur ýmislegt gott fundist í fari þínu. Þannig hefur þú upprætt Asérustólpana úr landinu og einbeitt þér að því að leita Guðs.“
Réttarbót Jósafats4Jósafat bjó nú í Jerúsalem en fór aftur í leiðangur á meðal þjóðarinnar, frá Beerseba til Efraímsfjalla, til að snúa henni aftur til Drottins, Guðs feðra hennar.
5Hann skipaði einnig dómara í landinu, í sérhverri víggirtri borg í Júda.
6Hann gaf dómurunum svohljóðandi fyrirmæli: „Hafið gát á því sem þið gerið því að þið haldið ekki dómþing í umboði manna heldur í umboði Drottins. Hann er með ykkur þegar þið kveðið upp dóma.
7Látið nú lotningu fyrir Drottni stjórna gerðum ykkar. Gætið að því sem þið gerið því að hjá Drottni, Guði okkar, er hvorki til ranglæti, manngreinarálit né mútuþægni.“
8Í Jerúsalem skipaði Jósafat einnig nokkra af Levítunum, prestunum og ættarhöfðingjum Ísraels í dómstól Drottins vegna deilna meðal íbúanna í Jerúsalem.
9Hann gaf þeim svohljóðandi fyrirmæli: „Þetta skuluð þið gera af trúmennsku og heilum hug og lotningu fyrir Drottni:
10Þegar bræður ykkar, sem búa í heimabæjum sínum, skjóta til ykkar deilu skuluð þið vara þá við svo að þeir verði ekki sekir fyrir Drottni og reiði hans komi yfir ykkur og bræður ykkar. Þetta á við, hvort sem um er að ræða mun á blóðsektum eða mun á leiðsögn og fyrirmælum eða lögum og reglum. Framfylgið þessu svo að þið verðið ekki sekir.
11Amarja yfirprestur er yfir ykkur í öllum málefnum Drottins en Sebadja Ísmaelsson, höfðingi Júdaættar, er yfir ykkur í öllum málefnum konungs. Levítarnir munu verða embættismenn í þjónustu ykkar. Verið hughraustir. Drottinn sé með þeim sem breytir rétt.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.