Tóbítsbók 7 - Biblían (2007)

Heima hjá Ragúel

1Þegar Tóbías var kominn inn í Ekbatana sagði hann: „Asaría, bróðir, fylgdu mér rakleiðis til Ragúels bróður okkar.“ Engillinn fylgdi honum að húsi Ragúels og fundu þeir hann sitjandi í garðhliðinu. Þeir heilsuðu honum fyrst og hann svaraði: „Heilir og sælir, bræður, og verið hjartanlega velkomnir.“ Hann bauð þeim inn í hús sitt

2og sagði við Ednu konu sína: „En hvað þessi unglingur er líkur Tóbít bróður mínum.“

3Edna sneri sér að þeim og spurði: „Hvaðan eruð þið, bræður?“ „Við erum af ætt Naftalí sem er herleidd í Níníve,“ svöruðu þeir.

4„Þekkið þið bróður okkar Tóbít?“ hélt hún áfram. „Já, við þekkjum hann,“ svöruðu þeir. „Hvernig heilsast honum?“ spurði hún,

5og þeir svöruðu: „Hann lifir við góða heilsu, og hann er faðir minn,“ bætti Tóbías við.

6Þá spratt Ragúel upp og kyssti hann grátandi

7og sagði: „Guð blessi þig, barn. Þú átt góðan og heiðvirðan föður. Hvílík ógæfa að svo réttlátur og góðgjörðasamur maður skuli hafa misst sjónina.“ Og hann faðmaði Tóbías bróður sinn og grét yfir Tóbít

8sem og Edna kona hans og Sara dóttir þeirra.

9Ragúel slátraði síðan einum hrúta sinna og fagnaði gestum sínum innilega.

Þegar þeir höfðu baðað sig og þvegið sér og voru sestir til borðs sagði Tóbías við Rafael: „Asaría, bróðir, biddu nú Ragúel að gefa mér Söru systur mína.“

10Ragúel heyrði þetta og sagði við unga manninn: „Et, drekk og ver glaður í kvöld. Engum manni ber fremur en þér, bróðir, að kvænast Söru dóttur minni og enga heimild hef ég heldur til að gefa hana neinum öðrum en þér þar sem þú ert nánasti ættingi minn. En ég verð að segja þér sannleikann, ungi maður.

11Sjö sinnum hef ég gift hana bræðrum okkar og allir dóu þeir um nóttina þegar þeir komu inn til hennar. En et nú og drekk, ungi maður. Drottinn mun annast ykkur bæði.“ „Hvorki mun ég eta neitt né drekka,“ sagði Tóbías, „fyrr en þú hefur gefið mér loforð þitt.“ „Það verður svo að vera,“ svaraði Ragúel. „Hér með gef ég þér hana samkvæmt ákvæðum Mósebókar. Það er ákvörðun himinsins að hún sé þér gefin. Tak systur þína til eignar. Upp frá þessu ert þú bróðir hennar og hún systir þín. Frá þessum degi og um eilífð er hún eign þín. Drottinn himinsins varðveiti ykkur í nótt, ungi maður, og veiti ykkur miskunn og frið.“

Sara og Tóbías ganga í hjónaband

12Því næst kallaði Ragúel á Söru dóttur sína og kom hún til hans. Hann tók hönd hennar og afhenti Tóbíasi hana með þessum orðum: „Tak hana þér til eignar samkvæmt lögmálinu og ákvæðum Mósebókar sem gefa þér hana að eiginkonu. Megir þú eiga hana og leiða heilu og höldnu til föður þíns. Himinsins Guð veiti ykkur farsæld og frið á för ykkar.“

13Þá kallaði hann á móður stúlkunnar og sagði henni að koma með skjal til að rita á hjúskaparsáttmála þess efnis að hann gæfi Tóbíasi Söru að eiginkonu samkvæmt ákvæðum Móselögmáls.

14Að svo búnu tóku þau að eta og drekka.

15Ragúel kallaði á Ednu konu sína og sagði: „Systir, búðu um í hinu herberginu og fylgdu Söru þangað.“

16Hún fór og bjó um í herberginu eins og henni hafði verið sagt og fór þangað með Söru og brast í grát hennar vegna. Síðan þerraði hún tárin og sagði:

17„Vertu hughraust, dóttir góð. Megi Drottinn himinsins veita þér fögnuð í stað hryggðar þinnar. Vertu hughraust, dóttir mín.“ Síðan fór hún út.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help