Speki Salómons 15 - Biblían (2007)

Fánýti skurðgoða

1En þú, Guð, ert góður og sannur, þolinmóður og stjórnar öllu með miskunnsemi.

2Þótt vér syndgum erum vér þínir því að vér þekkjum mátt þinn. En vér munum ekki syndga þar sem vér vitum að vér teljumst þín eign.

3Að þekkja þig er fullkomið réttlæti, að þekkja mátt þinn upphaf ódauðleika.

4Lævísar uppáfinningar manna hafa ekki leitt oss afvega né gagnslaust strit málara, marglitar eftirlíkingar

5sem kveikja girnd í brjósti hinna fávísu þegar þeir sjá þær svo að þeir fá ofurást á líflausu sköpulagi dauðrar myndar.

6Jafnt þeir sem myndirnar skapa og hinir sem þrá þær og þeir sem tilbiðja þær, unna allir því sem er illt og verðskulda ekkert betra en að festa von sína á því.

7Leirkerasmiðurinn erfiðar við að hnoða mjúkan leirinn og mótar hvað eina oss til gagns. Úr sama efni myndar hann bæði ker sem notuð eru til hreinna verka og önnur til hins gagnstæða, öll með sama hætti. Smiðurinn ræður til hvers hvert og eitt verður notað.

8Hann var fyrir skömmu af jörðu kominn og úr sama leir og hann verður brátt á ný, þegar skuld lífsins verður af honum krafin, mótar hann í villu sinni einskisverðan guð.

9Samt er hann ekki að hugsa um það að hann eigi að deyja, né að líf hans sé stutt, heldur keppir hann við gullsmiði og silfursmiði, stælir eirsmiði og telur sér sæmd að því að líkja eftir verkum þeirra.

10Hjarta hans er aska, von hans vesælli en mold og líf hans engu verðmætara en leir.

11Því að hann þekkir ekki þann sem myndaði hann og blés honum lífsanda í brjóst og sál sem býr yfir sköpunarmætti.

12Þvert á móti telur hann ævi vora leik og lífið arðvænlega kaupstefnu. „Menn verða að græða,“ er viðkvæðið, „það er sama hvaðan gott kemur, jafnvel þótt af illu sé.“

13Hann veit manna best að hann syndgar þegar hann býr til brothætt ker og líkneski úr jarðarleir.

14Öllum heimskari og fávísari hverju barni eru þeir allir óvinir þjóðar þinnar sem undiroka hana.

15Þeir halda að öll skurðgoð heiðingjanna séu guðir. Þó hafa þau hvorki augu til að sjá með, nasir sem geta dregið anda né eyru sem heyra eða fingur á höndum til að þreifa með og fætur þeirra eru ónýtir til gangs.

16Þau eru af manni gerð og sá sem þegið hefur andann að láni myndaði þau. Enginn maður getur mótað Guð úr efni sem hann sjálfur er af.

17Sjálfur er hann dauðlegur maður og myndar dauða hluti með ófullkomnum höndum. Hann er fremri þeim hlutum sem hann tilbiður því að hann er lifandi en það hafa þeir aldrei verið.

18Þar að auki tilbiðja þeir viðurstyggilegustu dýr sem standa öðrum dýrum að baki að skynsemi

19og eru ekki einu sinni snotur og þekkileg eins og sumar skepnur, enda fóru þau á mis við blessun og velþóknun Guðs.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help