Fjórða Mósebók 25 - Biblían (2007)

Hjáguðadýrkun Ísraelsmanna í Móab

1Meðan Ísrael dvaldi í Sittím tók þjóðin að hórast með móabískum konum.

2Þær buðu fólkinu til fórnarmáltíða guða sinna og fólkið neytti og féll fram fyrir guðum þeirra.

3Þannig tengdist Ísrael Baal Peór. Þá blossaði reiði Drottins upp gegn Ísrael

4og Drottinn sagði við Móse: „Sæktu alla leiðtoga þjóðarinnar og hengdu þá upp frammi fyrir Drottni, gegnt sól svo að glóandi heift Drottins víki frá Ísrael.“

5Þá sagði Móse við dómara Ísraels: „Sérhver lífláti nú þá af mönnum sínum sem tengst hafa Baal Peór.“

6En einn Ísraelsmannanna kom til bræðra sinna og hafði með sér konu frá Midían. Hann leiddi hana fyrir Móse og allan söfnuð Ísraelsmanna þegar þeir grétu við inngang samfundatjaldsins.

7Þegar Pínehas prestur, sonur Eleasar Aronssonar, sá þetta reis hann upp mitt í söfnuðinum, þreif spjót,

8gekk á eftir Ísraelsmanninum inn í kvennatjaldið og rak þau bæði í gegn, Ísraelsmanninn og konuna frá Midían. Linnti þá plágunni meðal Ísraelsmanna.

9En tuttugu og fjögur þúsund manns höfðu dáið úr plágunni.

10Drottinn talaði til Móse og sagði:

11„Pínehas prestur, sonur Eleasar Aronssonar, bægði reiði minni frá Ísraelsmönnum með afbrýðisemi vegna mín mitt á meðal þeirra. Þess vegna hef ég ekki gereytt Ísraelsmönnum í vandlætingu minni.

12Því segi ég: Hér með gef ég honum friðarsáttmála minn.

13Honum og niðjum hans skal gefið fyrirheit um ævarandi prestdóm því að hann var afbrýðisamur vegna Guðs síns og friðþægði þannig fyrir Ísraelsmenn.“

14Ísraelsmaðurinn, sem var tekinn af lífi ásamt konunni frá Midían, hét Simrí Salúson. Hann var ættarhöfðingi meðal Símeoníta.

15Konan frá Midían, sem var líflátin, hét Kosbí Súrsdóttir. Faðir hennar var ættarhöfðingi meðal Midíaníta.

16Drottinn talaði til Móse og sagði:

17„Gerðu árás á Midíaníta og dreptu þá

18því að þeir réðust á ykkur með brögðum bæði í málinu vegna Baals Peór og löndu þeirra, Kosbí, sem var dóttir höfðingja í Midían. Hún var tekin af lífi daginn sem plágan vegna Peórs reið yfir.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help