Sálmarnir 48 - Biblían (2007)

1Ljóð. Kóraítasálmur.

2Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur

í borg Guðs vors.

3Hans heilaga fjall, sem gnæfir hátt og fagurt,

er allri jörðu gleði,

Síonarfjall yst í norðri,

borg hins mikla konungs.

4Guð hefur í höllum hennar

kunngjört sig sem vígi

5því að konungar söfnuðust saman,

sóttu fram allir sem einn.

6Þegar þeir litu upp urðu þeir agndofa,

skelfdust og flýðu.

7Þar greip þá felmtur

sem angist jóðsjúka konu.

8Með austanvindinum brýtur þú Tarsisskipin.

9Það sem vér áður heyrðum höfum vér nú séð

í borg Drottins hersveitanna, borg Guðs vors.

Guð lætur hana standa að eilífu. (Sela)

10Vér ígrundum, Guð, elsku þína

í musteri þínu.

11Eins og nafn þitt, Guð, hljómar lofgjörð um þig

allt til endimarka jarðar.

Hægri hönd þín er full réttlætis.

12Síonarfjall gleðst,

Júdadætur fagna

vegna dóma þinna.

13Gangið umhverfis Síon,

gangið kringum hana,

teljið turna hennar,

14skoðið borgarmúrana vandlega,

virðið fyrir yður virkin

svo að þér getið sagt komandi kynslóð

15að þannig sé Drottinn, Guð vor,

hann mun leiða oss um aldur og ævi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help