Jeremía 19 - Biblían (2007)

Fall Jerúsalem sagt fyrir

1Svo sagði Drottinn: Farðu og kauptu leirkrús og hafðu með þér nokkra af öldungum þjóðarinnar og nokkra helstu prestana.

2Gakktu síðan út í Hinnomssonardal sem er við Leirbrotahliðið. Þar skaltu kunngjöra þau orð sem ég flyt þér

3og segja: Heyrið orð Drottins, Júdakonungar og Jerúsalembúar. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Nú sendi ég þvílíkt böl yfir þennan stað að gjalla mun í eyrum allra þeirra sem um það heyra.

4Þetta geri ég af því að þér hafið svikið mig og gert mér þennan stað framandi með því að færa þar reykelsisfórnir öðrum guðum sem hvorki þér sjálfir, feður yðar né Júdakonungar höfðu áður þekkt. Þeir hafa fyllt þennan stað af saklausu blóði.

5Þeir byggðu fórnarhæðir til að færa Baal þar syni sína að brennifórn. Það hef ég aldrei boðið og aldrei nefnt, það hefur aldrei komið mér í hug.

6Því skulu þeir dagar koma, segir Drottinn, að þessi staður verður ekki lengur nefndur Tófet eða Hinnomssonardalur heldur Drápsdalur.

7Ég mun spilla ráðagerð Júdamanna og Jerúsalembúa á þessum stað. Ég mun fella þá með sverði frammi fyrir fjandmönnum sínum, með hendi þeirra sem sitja um líf þeirra. Ég mun gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar lík þeirra að æti.

8Ég mun gera þessa borg að stað sem menn hryllir við og þeir hæðast að. Hvern sem á leið um hana mun hrylla við og hann hæðast að henni vegna allra þeirra áfalla sem hún hefur orðið fyrir.

9Ég mun láta þá eta hold sona sinna og dætra. Þeir munu eta hold hver annars í þeirri neyð og þrengingu sem fjandmenn þeirra og þeir sem sitja um líf þeirra munu valda þeim.

10Síðan skaltu brjóta krúsina fyrir augum þeirra sem fara með þér

11og segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna: Ég brýt þessa þjóð og þessa borg eins og þegar leirker er brotið svo að það verði ekki gert heilt aftur. Í Tófet verða svo margir jarðaðir að ekkert rúm verður þar til að grafa fleiri.

12Þannig mun ég fara með þennan stað og íbúa hans, segir Drottinn, svo að þessi borg verði eins og Tófet.

13Húsin í Jerúsalem og hús Júdakonunga skulu verða óhrein eins og þessi staður, Tófet, öll húsin þar sem öllum himinsins her hafa verið færðar reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir.

14Þegar Jeremía kom frá Tófet þangað sem Drottinn hafði sent hann til að flytja boðskap sinn tók hann sér stöðu í forgarði húss Drottins og ávarpaði allan söfnuðinn:

15Svo segir Drottinn hersveitanna, Ísraels Guð: Ég sendi alla þá ógæfu, sem ég hef hótað, yfir þessa borg og borgirnar, sem henni heyra til, vegna þess að íbúarnir hafa þverskallast við og ekki hlýtt á orð mín.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help