Jeremía 12 - Biblían (2007)

1Þú ert réttlátur, Drottinn, þegar ég deili við þig,

samt vil ég ræða við þig um dóma þína.

Hvers vegna njóta ranglátir velgengni,

af hverju lifa svikarar óhultir?

2Þú gróðursettir þá og þeir skjóta rótum,

dafna og bera ávöxt.

Þú ert nálægur vörum þeirra

en fjarlægur huga þeirra.

3Drottinn, þú þekkir mig og sérð mig,

þú hefur rannsakað hjarta mitt.

Flokkaðu þá eins og fé til slátrunar,

helgaðu þá aftökudeginum.

4Hve lengi á landið að syrgja

og allar jurtir merkurinnar að skrælna?

Búfé og fuglar farast

vegna illsku landsbúa

því að þeir hugsa: „Hann sér ekki afdrif vor.“

5Ef þú mæðist af kapphlaupi við fótgangandi menn,

hvernig ætlarðu þá að keppa við hesta?

Ef þú ert aðeins öruggur um þig í friðuðu landi,

hvernig ætlarðu þá að komast af í kjarrinu við Jórdan?

6Jafnvel bræður þínir og fjölskylda bregðast þér,

þeir kalla á eftir þér fullum hálsi.

Treystu þeim ekki þótt þeir tali hlýlega við þig.

Harmur Guðs yfir arfleifð sinni

7Ég hef yfirgefið hús mitt,

ég hef hafnað erfðahlut mínum,

ég hef ofurselt ástvin minn fjandmönnum sínum.

8Arfleifð mín er orðin eins og ljón í skógi,

hún öskrar gegn mér,

þess vegna hafna ég henni.

9Er arfleifð mín orðin að skrautlegum ránfugli

sem umkringdur er öðrum ránfuglum?

Komið, safnist hingað, öll villt dýr, komið og étið.

10Fjölmargir hjarðmenn hafa eytt víngarð minn,

fótum troðið akur minn,

þeir hafa gert fagra ekru mína að sviðinni eyðimörk.

11Þeir hafa gert hana að dapurlegri eyðimörk,

hún liggur auð frammi fyrir mér,

allt landið er eytt

en enginn skiptir sér af því.

12Eyðandi ræningjar hafa ruðst yfir hæðirnar í eyðimörkinni, sverð Drottins gleypir allt endanna á milli, enginn er óhultur.

13Þeir sáðu hveiti en skáru upp þyrna, erfiði þeirra var árangurslaust, uppskeran olli þeim vonbrigðum vegna brennandi reiði Drottins.

Drottinn og nágrannar Ísraels

14Svo segir Drottinn: Ég ríf upp alla vonda nágranna mína sem hafa snert erfðahlutinn sem ég fékk lýð mínum, Ísrael. Ég ríf einnig upp ætt Júda sem er mitt á meðal þeirra.

15En þegar ég hef rifið þá upp mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim, sérhvern til síns erfðahlutar og til síns héraðs.

16Ef þeir þá læra rækilega siði þjóðar minnar og sverja við nafn mitt: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“ eins og þeir kenndu þjóð minni áður að sverja við Baal verða þeir reistir við meðal þjóðar minnar.

17En hlýði þeir ekki slít ég þessa þjóð endanlega upp og eyði henni, segir Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help