Jeremía 30 - Biblían (2007)

Bók huggunarinnar

1Orðið sem kom frá Drottni til Jeremía:

2Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Skráðu í bók öll þau orð sem ég hef flutt þér.

3Því að þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég sný við hag þjóðar minnar, Ísraels og Júda, segir Drottinn. Ég mun leiða þá aftur til landsins sem ég fékk feðrum þeirra og þeir tóku til eignar.

4Þetta eru orðin sem Drottinn flutti Ísrael og Júda.

Óttast ekki, ég er með þér

5Svo segir Drottinn:

Vér heyrum angistaróp

til marks um ótta en ekki frið.

6Spyrjið og gætið að:

Getur karl alið barn?

Hví eru allir karlmenn, sem ég sé,

með hendur á lendum eins og kona með jóðsótt?

Hví er hvert andlit nábleikt?

7Já, mikill er þessi dagur,

engum öðrum líkur.

Þetta er þrengingatíð fyrir Jakob

en honum verður bjargað.

8Þann dag, segir Drottinn hersveitanna, mun ég brjóta okið af hálsi hans og slíta hlekki hans. Þeir munu ekki lengur þræla fyrir framandi menn

9heldur þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, sem ég mun hefja upp þeirra vegna.

10Óttast ekki, þjónn minn, Jakob,

segir Drottinn,

og lát ekki hugfallast, Ísrael.

Ég mun sjálfur bjarga þér úr fjarlægu landi,

niðjum þínum úr landinu þar sem þeir eru útlagar.

Jakob mun snúa heim og næðis njóta.

Hann mun búa þar óhultur

og enginn ógna honum.

11Já, ég er með þér, segir Drottinn,

til að bjarga þér.

Ég mun eyða öllum þeim þjóðum

sem ég dreifði þér á meðal.

Þér einum mun ég aldrei eyða

en ég mun refsa þér við hæfi

og ekki láta þér með öllu óhegnt.

12Svo segir Drottinn:

Brot þitt verður ekki grætt,

sár þitt ekki læknað.

13Enginn leitar réttar þíns.

Meinið hefst illa við,

þú færð enga bót.

14Allir vinir þínir hafa gleymt þér,

þeir vitja þín ekki

því að ég laust þig sem fjandmann,

hirti þig harðlega

því að sekt þín var mikil,

syndir þínar margar.

15Hví hljóðar þú vegna áverka þíns,

vegna ólæknandi kvalar þinnar?

Vegna mikillar sektar þinnar

og fjölmargra synda

hef ég gert þér þetta.

16En allir sem gleyptu þig verða gleyptir

og allir sem kúguðu þig gerðir útlægir.

Þeir sem rændu þig verða rændir,

þá sem tóku af þér herfang geri ég að herfangi.

17Ég mun græða þig,

lækna sár þín,

segir Drottinn, því að þú varst nefnd „hin brottrekna“,

„Síon sem enginn spyr um“.

Endurreisn þjóðarinnar

18Svo segir Drottinn:

Ég sný við högum Jakobs tjalda

og sýni bústöðum hans miskunn.

Borgin skal endurreist á rústunum

og höllin standa þar sem hún hefur alltaf staðið.

19Þaðan skal hljóma lofsöngur og fögnuður.

Ég fjölga þeim, þeir verða ekki fáir,

ég veiti þeim virðingu, þeir verða ekki lítilsvirtir.

20Synir Jakobs verða sem forðum

og söfnuður hans verður stöðugur fyrir augliti mínu

en alla kúgara hans dreg ég til ábyrgðar.

21Afkomandi hans verður leiðtogi hans,

af ætt hans kemur drottnari hans.

Ég mun leyfa honum að ganga fram fyrir mig

svo að hann geti nálgast mig.

Hver annar mundi hætta lífi sínu

til að nálgast mig? segir Drottinn.

22Þér verðið mín þjóð

og ég verð yðar Guð.

23Já, stormur Drottins, reiði hans, brýst fram,

hvirfilvindur sem steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

24Bálandi reiði Drottins linnir ekki

fyrr en hann hefur að fullu

framkvæmt fyrirætlanir hjarta síns.

Síðar munuð þér skilja það.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help