Esrabók 3 - Biblían (2007)

Endurreisn musterisins

1Í upphafi sjöunda mánaðarins, þegar Ísraelsmenn voru sestir að í borgum sínum, safnaðist öll þjóðin saman eins og einn maður í Jerúsalem.

2Þá hófu þeir Jesúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans að reisa altari Ísraels Guðs til þess að geta fært á því brennifórnir eins og fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse.

3Þeir reistu altarið þar sem það stóð áður þrátt fyrir hótanir fólksins á landsbyggðinni. Síðan færðu þeir Drottni brennifórnir á því, bæði kvölds og morgna.

4Þá héldu þeir laufskálahátíðina eins og fyrir er mælt og færðu á hverjum degi jafnmargar fórnir og færa ber dag hvern.

5Upp frá því færðu þeir einnig brennifórnina sem reglulega er færð, enn fremur fórnir á tunglkomudögum og á öllum þeim hátíðum sem helgaðar eru Drottni, og auk þess þær fórnir sem Drottni voru færðar af fúsum og frjálsum vilja.

6Þeir tóku að færa Drottni brennifórnir á fyrsta degi sjöunda mánaðarins en grunnur musteris Drottins hafði enn ekki verið lagður.

7Þeir guldu steinsmiðum og trésmiðum fé en greiddu Sídonsmönnum og Týrusmönnum með matvælum og drykkjarföngum og ólífuolíu fyrir að flytja sedrusviðarboli sjóleiðina til Jafó. Það var gert samkvæmt heimild sem Kýrus Persakonungur hafði veitt þeim.

8Í öðrum mánuði á öðru ári eftir komu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem hófust Serúbabel Sealtíelsson og Jesúa Jósadaksson handa ásamt öðrum bræðrum sínum, prestunum og Levítunum og öllum sem komnir voru aftur til Jerúsalem úr útlegðinni. Þeir settu nú Levítana, tuttugu ára og eldri, til að stjórna vinnunni við hús Drottins.

9Jesúa, synir hans og bræður, Kadmíel og synir hans, Binnuí og Hódavja, stóðu að því sem einn maður að stjórna þeim sem unnu að byggingu húss Guðs, og auk þeirra synir Henadads og synir þeirra og bræður sem voru Levítar.

10Þegar smiðirnir höfðu lagt grunn að musteri Drottins komu skrýddir prestarnir með lúðrana, einnig Levítarnir, niðjar Asafs, með málmgjöll til að lofa Drottin samkvæmt boði Davíðs, Ísraelskonungs.

11Þeir tóku að lofa Drottin og þakka honum: „Því að hann er góður og miskunn hans við Ísrael varir að eilífu.“ Allt fólkið laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin af því að grunnur hafði nú verið lagður að húsi Drottins.

12En margir af prestunum, Levítunum og ættarhöfðingjunum voru orðnir gamlir og höfðu séð hið fyrra hús. Þeir grétu hástöfum þegar grunnur að þessu húsi hafði verið lagður að þeim ásjáandi. Margir hrópuðu einnig hátt af gleði

13svo að ekki var unnt að greina að gleðiópin og gráthljóðin, því að fólkið laust upp slíku fagnaðarópi að heyra mátti langt að.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help