Jeremía 22 - Biblían (2007)

Konungar varaðir við

1Svo segir Drottinn: Farðu niður að höll Júdakonungs og segðu:

2Hlýddu á orð Drottins, Júdakonungur, sem situr í hásæti Davíðs, þú sjálfur, hirðmenn þínir og þjóð, þér sem gangið um þessi hlið.

3Svo segir Drottinn: Framfylgið rétti og réttlæti. Bjargið þeim sem rændur hefur verið úr greipum kúgarans. Hafið ekkert ranglega af aðkomumanni, munaðarleysingja eða ekkju. Kúgið engan. Úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað.

4Ef þér framfylgið þessu boði munu konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, fara um þetta hlið. Þeir sjálfir, hirðmenn þeirra og þjóð munu koma akandi í vögnum og ríðandi á hestum.

5En ef þér hlýðið ekki þessum orðum sver ég við sjálfan mig, segir Drottinn, að þessi höll verður lögð í rúst.

6Svo segir Drottinn um höll konungsins í Júda: Fyrir mér ertu sem Gíleað, sem tindur Líbanons, en ég sver að ég mun gera þig að auðn, að óbyggðri borg.

7Ég helga eyðendur gegn þér. Þeir munu höggva niður voldug sedrustré þín og varpa þeim á eld.

8Margar þjóðir munu fara fram hjá þessari borg. Þegar menn spyrja hverjir aðra: „Hvers vegna hefur Drottinn farið svona með þessa miklu borg?“

9verður svarað: „Af því að þeir sniðgengu sáttmálann við Drottin, Guð sinn, tilbáðu aðra guði og þjónuðu þeim.“

Sallúm

10Grátið ekki hinn dauða og syrgið hann ekki. Nei, grátið þann sem varð að fara því að hann snýr ekki heim, hann mun ekki sjá föðurland sitt aftur.

11Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason Júdakonung sem varð konungur eftir föður sinn en varð að yfirgefa þennan stað: Hann snýr ekki aftur hingað

12því að hann verður fluttur í útlegð og þar mun hann deyja. Þetta land mun hann aldrei framar líta.

Jójakím

13Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,

sali sína með rangindum

og lætur landa sinn þræla án launa

og greiðir honum ekkert.

14Hann segir: „Ég byggi mér stórt hús

og rúmgóðar vistarverur.“

Hann setur í það glugga, þiljar það sedrusviði

og málar það rautt.

15Ríkir þú sem konungur

af því að þú sýnir yfirburði í byggingum úr sedrusviði?

Át faðir þinn ekki líka og drakk?

En hann lagði stund á rétt og réttlæti

og honum vegnaði því vel.

16Hann rak réttar hinna umkomulausu og snauðu

og allt gekk vel.

Er það ekki að játa mig?

spyr Drottinn.

17En þú sérð hvorki né hugsar um annað

en eigin gróða,

að úthella saklausu blóði,

kúga og skattpína.

18Þess vegna segir Drottinn um Jójakím

son Jósía Júdakonungs:

Enginn mun syrgja hann og segja:

„Æ, bróðir minn, vei, systir mín.“

Enginn mun syrgja hann og segja:

„Æ, herra, vei, konungur.“

19Hann verður grafinn eins og asni,

hann verður dreginn burt og honum fleygt

fyrir utan borgarhlið Jerúsalem.

Fall Jerúsalem

20Gakktu upp á Líbanonsfjöll og hrópaðu,

hefðu upp raust þína í Basan,

hrópaðu frá Abarímfjöllum

því að allir elskhugar þínir eru sundurmolaðir.

21Ég talaði til þín þegar þú varst enn áhyggjulaus

en þú sagðir: „Ég vil ekki hlusta.“

Þannig var breytni þín frá æsku:

Þú hlýddir ekki boðum mínum.

22Stormurinn mun hirða alla hirða þína

og elskhugar þínir fara í útlegð.

Þá hlýtur þú smán og skömm

fyrir alla illsku þína.

23Þú sem býrð á Líbanon,

gerir þér hreiður í sedrustrjám,

hve mjög muntu stynja

þegar þú færð hríðir

og þjáist eins og jóðsjúk kona.

Jójakín

24Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, jafnvel þótt Konja Jójakímsson Júdakonungur væri innsiglishringur á hægri hendi minni mundi ég slíta þig þaðan.

25Ég sel þig í hendur þeim sem sækjast eftir lífi þínu, í hendur þeim sem þú óttast, í hendur Nebúkadresari konungi í Babýlon og í hendur Kaldeum.

26Ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, til annars lands þar sem þið fæddust ekki og þar munuð þið deyja.

27En þau munu aldrei snúa aftur heim til landsins sem þau þrá að hverfa aftur til.

28Er þessi maður, Konja, ónothæft ílát sem á að brjóta, er hann verðlaust ker? Hvers vegna hefur honum og niðjum hans verið fleygt í burtu og þeir hraktir til lands sem þeir þekkja ekki?

29Land, land, land, heyr orð Drottins.

30Svo segir Drottinn:

Skráið þennan mann barnlausan,

mann sem ekkert hefur orðið úr

því að engum niðja hans

mun takast að setjast í hásæti Davíðs

og ríkja framar yfir Júda.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help