Speki Salómons 1 - Biblían (2007)

Réttlætið leiðir til ódauðleika

1Elskið réttlætið, þér sem drottnið á jörðu.

Hugsið til Drottins af alúð

og leitið hans af einlægu hjarta.

2Hann lætur þá finna sig sem freista hans ekki

og hann birtist þeim sem vantreysta honum ekki.

3Rangar hugsanir fjarlægja menn Guði

og máttur hans afhjúpar heimsku þeirra sem freista hans.

4Spekin kemst ekki inn í þá sál sem illt smíðar

og tekur sér ekki bústað í líkama sem ofurseldur er synd.

5Því að heilagur andi, sem menntar, flýr svik

og forðast ráðabrugg fávísra;

þegar ranglætið nálgast afhjúpar hann sig.

Guð heyrir orð vor

6Spekin er andi sem elskar menn

og lætur orðum lastarans ekki óhegnt.

Guð er vitni þess sem bærist með manninum,

vakir yfir hjarta hans

og hlýðir á það sem hann mælir.

7Andi Drottins fyllir alla heimsbyggðina,

hann heldur öllu í skorðum og nemur hvert hljóð.

8Þess vegna getur enginn dulist sem fer með ranglátt mál

né vikist undan réttlætisdómi hans.

9Vélráð hins óguðlega munu rannsökuð,

orð hans munu berast Drottni

og sanna misgjörðir hans.

10Því að Drottinn hlustar eftir öllu með vandlæti,

minnsti kurr fer ekki fram hjá honum.

11Varist því ónytsamt mögl

og gætið þess að mæla ekki öðrum á bak.

Það sem sagt er í leyndum dregur dilk á eftir sér

og lyginn munnur tortímir sálinni.

Guð er ekki valdur að dauðanum

12Sækist ekki eftir dauðanum með ráðleysi

og leiðið ekki yfir yður glötun með handaverkum yðar.

13Guð er ekki valdur að dauðanum

og gleðst ekki yfir að líf deyr.

14Guð skapaði allt til þess að það lifði.

Allt sem skapað er í heiminum er heilnæmt

og í því er ekkert banvænt eitur

né heldur ríkir Hel á jörðu.

15Réttlætið er ódauðlegt.

Viðhorf hinna guðlausu

16En guðlausir kalla dauðann yfir sig með orðum og verkum

og telja hann eftirsóknarverðan vin.

Þeir gera sáttmála við hann

og eru maklegir þess að ganga honum í greipar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help