Viðaukar við Daníelsbók 13 - Biblían (2007)

SúsannaÞokki Súsönnu vekur girnd tveggja dómara

1Í Babýlon bjó maður nokkur, Jóakim að nafni.

2Gekk hann að eiga konu sem Súsanna hét og var Hilkíadóttir. Hún var forkunnarfögur og guðhrædd.

3Foreldrar hennar voru réttlátir og höfðu alið dóttur sína upp samkvæmt lögmáli Móse.

4Jóakim var vellauðugur. Við hús hans var lystigarður. Gyðingar komu gjarnan saman hjá honum enda var hann mikils virtur af þeim öllum.

5Þetta árið höfðu tveir af öldungum lýðsins verið skipaðir dómarar. Það var við þá sem Drottinn átti þegar hann sagði: „Lögleysi kom frá Babýlon frá öldungum og dómurum sem áttu að stjórna lýðnum.“

6Báðir tveir dvöldust í húsi Jóakims og til þeirra komu allir sem áttu í málaferlum.

7Um hádegisbil, er allir voru farnir, var Súsanna vön að fara inn í lystigarð manns síns og ganga þar um.

8Daglega sáu öldungarnir báðir hana koma inn í garðinn og ganga um og felldu þeir girndarhug til hennar.

9Urðu þeir svo haldnir af þessu að þeir hættu að hefja augu sín til himins og gleymdu rétti og réttlæti.

10Liðu þeir báðir kvalir hennar vegna en ekki sögðu þeir hvor öðrum frá þjáningu sinni

11því að þeir blygðuðust sín fyrir að gera uppskátt um losta sinn og löngun að liggja hana.

12En dag eftir dag biðu þeir hennar með eftirvæntingu.

13Dag nokkurn sögðu þeir hvor við annan: „Við skulum fara heim því að komið er að hádegisverði.“ Fóru þeir síðan út og hvor sína leið.

14Síðan sneru þeir báðir aftur og mættust á sama stað. Spurðu þeir hvor annan hvernig á þessu stæði og gengust þeir þá við girnd sinni. Komu þeir sér síðan saman um tiltekna stund er þeir gætu hitt Súsönnu eina.

Dómararnir reyna að tæla Súsönnu

15Á meðan dómararnir eigruðu um og biðu hentugs færis kom Súsanna þar að, gekk inn í garðinn eins og hún gerði jafnan og með henni voru aðeins tvær þjónustustúlkur. Heitt var í veðri og fékk hún löngun til að lauga sig í lystigarðinum.

16Þar voru engir nema öldungarnir tveir sem höfðu falið sig og lágu á gægjum.

17Súsanna sagði við stúlkurnar: „Sækið fyrir mig olíu og ilmsmyrsl og læsið garðhliðinu svo að ég geti baðað mig.“

18Þær gerðu eins og hún bað, lokuðu garðhliðinu og fóru inn um bakdyr til að sækja það sem þær voru beðnar um. Ekki sáu þær öldungana enda höfðu þeir falið sig.

19Þegar stúlkurnar voru farnar spruttu öldungarnir báðir upp, hlupu til Súsönnu

20og sögðu: „Garðhliðið er læst og enginn sér okkur. Við þráum þig. Láttu því að vilja okkar og leggstu með okkur.

21Annars munum við vitna það gegn þér að ungur maður hafi verið hjá þér og þess vegna hafir þú sent stúlkurnar burt.“

22Súsanna kveinaði og sagði: „Öll sund eru lokuð fyrir mér. Geri ég eins og þið viljið verður það minn bani. Geri ég það ekki mun ég samt ekki ganga ykkur úr greipum.

23En vænlegra er fyrir mig að gera þetta ekki og lenda á valdi ykkar en að syndga í augum Drottins.“

24Síðan hrópaði Súsanna hárri röddu og öldungarnir báðir kölluðu einnig hástöfum.

25Hljóp annar þeirra líka til og opnaði garðhliðið.

26Er fólkið, sem inni var, heyrði ópin í lystigarðinum þaut það út um bakdyrnar til að athuga hvað komið hefði fyrir Súsönnu.

27Öldungarnir sögðu sögu sína og urðu þjónarnir stórum miður sín því að aldrei fyrr hafði neitt þessu líkt heyrst um Súsönnu.

Vitnisburður dómaranna gegn Súsönnu

28Daginn eftir, þegar fólkið kom saman hjá Jóakim manni hennar, komu öldungarnir báðir staðfastir í þeim illa ásetningi sínum að fá Súsönnu dæmda til dauða. Þeir sögðu við fólkið:

29„Sendið eftir Súsönnu Hilkíadóttur, eiginkonu Jóakims.“ Hún var sótt.

30Kom hún, foreldrar hennar, börn og allir ættingjar hennar.

31Súsanna var mjög þokkafull og fögur ásýndum.

32Hún bar andlitsblæju og hrakmennin skipuðu að skýlan væri tekin af henni svo að þeir gætu notið fegurðar hennar.

33Vandamenn hennar grétu og allir aðrir er til sáu.

34Öldungarnir tveir tóku sér stöðu frammi fyrir fólkinu og lögðu hendur sínar á höfuð Súsönnu.

35Hún horfði tárvotum augum til himins því að hún treysti Drottni af öllu hjarta.

36Öldungarnir tóku til máls og sögðu: „Er við vorum einir á göngu í lystigarðinum kom þessi kona inn með tveimur þjónustustúlkum, lét læsa garðhliðinu og sendi stúlkurnar burt.

37Kom þá ungur maður til hennar úr felum og lagðist með henni.

38Við vorum í horninu á garðinum og er við sáum þessa óhæfu hlupum við til þeirra.

39Við sáum að þau voru í faðmlögum en manninum gátum við ekki haldið því að hann bar okkur ofurliði, opnaði hliðið og komst undan.

40En konu þessa gripum við og spurðum hana hver ungi maðurinn væri.

41Það vildi hún ekki segja okkur. Að þessu erum við vitni.“ Öll samkoman trúði þeim, enda áttu öldungar og dómarar lýðsins í hlut, og dæmdi Súsönnu til dauða.

Daníel bjargar Súsönnu

42Þá hrópaði Súsanna hárri röddu og sagði: „Eilífi Guð! Þú sem þekkir allt sem hulið er og veist allt áður en það verður.

43Þú veist að þessir menn báru ljúgvitni gegn mér. Nú verð ég að deyja án þess að hafa drýgt nokkuð það sem þessi illmenni lugu á mig.“

44Drottinn heyrði ákall hennar.

45Einmitt þegar hún var leidd burt til aftöku vakti Guð heilagan anda í ungum dreng sem hét Daníel.

46Hann hrópaði hárri röddu: „Saklaus er ég af blóði þessarar konu!“

47Allt fólkið sneri sér að honum og spurði: „Hvað áttu eiginlega við?“

48Hann tók sér stöðu mitt á meðal þess og sagði: „Hvílíkir bjálfar eruð þið, Ísraelsmenn. Þið hafið dæmt ísraelska konu til dauða án rannsóknar og án þess að kynna ykkur málavöxtu.

49Farið aftur í réttarsalinn. Þessir menn hafa borið ljúgvitni gegn konunni.“

50Allir sneru þá aftur í skyndi og öldungarnir sögðu við hann: „Komdu og sestu meðal okkar og gerðu grein fyrir máli þínu. Guð hefur gefið þér öldungsvit.“

51Daníel sagði við þá: „Skiljið mennina að og hafið langt á milli þeirra. Ég ætla að yfirheyra þá.“

52Þegar þeir höfðu verið aðskildir kallaði Daníel annan þeirra til sín og sagði við hann: „Gamli syndaselur. Nú koma þér í koll þær syndir sem þú hefur áður drýgt

53og ranglátir dómar þínir er þú dæmdir saklausa og sýknaðir seka. Þó hefur Drottinn sagt: Saklausan og réttlátan skalt þú ekki deyða.

54Hafir þú séð konu þessa, svaraðu þá: Undir hvaða tré sástu þau láta vel hvort að öðru?“ Hann svaraði: „Undir klofnu eikinni.“

55„Fallega laugstu. Fyrir það muntu lífinu týna,“ sagði Daníel. „Engill Guðs hefur þegar fengið skipun frá Guði að kljúfa þig í herðar niður.“

56Lét hann síðan fara með hann afsíðis og leiða hinn öldunginn fram og sagði við hann: „Af Kanaan ert þú kominn en ekki Júda. Fegurðin hefur ginnt þig og girndin leitt þig afvega.

57Þannig hafið þið leikið dætur Ísraels svo að þær hafa ekki þorað annað en láta að vilja ykkar. En þessi dóttir Júda þoldi ekki guðleysi ykkar.

58Seg þú mér nú: Undir hvaða tré stóðst þú þau að því að láta vel hvort að öðru?“ Hann svaraði: „Undir kvistóttu björkinni.“

59„Fallega laugstu,“ sagði Daníel. „Fyrir það munt þú líka lífinu týna. Engill Guðs er þess albúinn að kvista þig niður með sverði sínu. Hann mun tortíma ykkur báðum.“

60Öll samkundan hrópaði hárri röddu og lofaði Guð sem frelsar þá sem á hann vona.

61Þá sneri samkundan sér að öldungunum tveimur og þar sem Daníel hafði sannað með framburði þeirra sjálfra að þeir voru ljúgvitni voru þeir látnir líða hið sama og þeir höfðu í illsku sinni ætlað náunga sínum.

62Var farið með þá að lögmáli Móse og þeir teknir af lífi. Þannig var saklausu lífi bjargað daginn þann.

63Hilkía og kona hans lofuðu Guð fyrir að ekki sannaðist neitt ósæmilegt á dóttur þeirra. Undir það tóku Jóakim maður hennar og allir ættingjar þeirra.

64Frá þeim degi og æ síðan var Daníel í miklum metum hjá þjóðinni.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help