Jesaja 3 - Biblían (2007)

Stjórnleysi í Jerúsalem

1Guð, Drottinn allsherjar,

sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu,

allri stoð matar

og allri stoð vatns,

2hetju og hermanni,

dómara og spámanni,

spásagnamanni og öldungi,

3liðsforingja og hirðmanni,

ráðgjafa, galdramanni og slóttugum seiðmanni.

4Ég geri drengi að höfðingjum þeirra

og kenjar munu stjórna þeim.

5Átök verða, maður gegn manni,

einn mun þrengja að öðrum,

unglingar ráðast gegn öldungum,

lítilsvirtir gegn háttvirtum.

6Þá þrífur maður jafnvel í bróður sinn

heima hjá föður sínum og segir:

„Þú átt yfirhöfn,

þú getur verið leiðtogi vor,

þessi rúst verður þá undir þinni stjórn.“

7En á þeim degi mun hann hrópa og svara:

„Ég kann ekki að binda um sár

og heima hjá mér

er hvorki fæði né klæði,

gerið mig ekki að leiðtoga þjóðarinnar.“

8Jerúsalem riðaði,

Júda féll

því að orð þeirra og athafnir voru andstæð Drottni,

uppreisn gegn dýrðaraugum hans.

9Andlitssvipur þeirra vitnar gegn þeim,

þeir bera synd sína á torg

eins og gert var í Sódómu,

þeir dylja hana ekki.

Vei þeim! Þeir hafa sjálfir bakað sér ógæfu.

10Heill hinum réttláta því að honum mun vegna vel

og hann nýtur ávaxta verka sinna.

11Vei hinum guðlausa því að honum vegnar illa,

honum verður það endurgoldið sem hann gerði öðrum.

Ákæra gegn leiðtogum þjóðarinnar

12Þjóð mín. Smábörn þjaka hana

og konur ríkja yfir henni.

Þjóð mín. Leiðtogar þínir leiða þig afvega,

gera veginn sem þú gengur að villigötum.

13Drottinn er staðinn upp í dóminum,

hefur tekið sér stöðu til að dæma þjóð sína.

14Drottinn kemur til réttarhalds

yfir öldungum og höfðingjum þjóðarinnar:

„Það eruð þér sem hafið etið upp víngarðinn,

þýfi frá fátækum er í húsum yðar.

15Hvað fékk yður til að traðka á þjóð minni,

merja sundur andlit snauðra?“

Þetta er orð Guðs, Drottins allsherjar.

Ákæra gegn dætrum Síonar

16Drottinn sagði:

Sökum þess að dætur Síonar eru stærilátar,

ganga hnakkakerrtar

og gjóa daðursaugum,

tipla á göngunni

með glamrandi ökklahringi,

17mun Drottinn gera hvirfil Síonardætra kláðugan

og afhjúpa koll þeirra.

18Á þeim degi mun Drottinn

taka af þeim skartgripi þeirra:

ökklahringi, smásólir og tungl,

19eyrnahringi, armbönd og klúta,

20ennisdjásn, ökklakeðjur og belti,

ilmbauka og verndargripi,

21fingurgull og nefhringi,

22viðhafnarklæði og möttla,

kjóla og undirkjóla,

23spegla og kyrtla,

vefjarhetti og slæður.

24Koma mun ódaunn fyrir ilm,

reipi fyrir belti,

skalli fyrir lokka,

hærusekkur í stað skrautklæða,

niðurlæging í stað fegurðar.

25Menn þínir munu falla fyrir sverði

og hetjur þínar í orrustu.

26Borgarhlið Síonar munu harma og kveina

og hún sitja yfirgefin á jörðinni.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help