1Spekin er bók boðorða Guðs,
lögmálið sem varir að eilífu.
Allir sem halda sér fast við hana munu lifa,
hinir sem yfirgefa hana munu deyja.
2Snú við, Jakob, og gríp hana,
gakk inn í ljómann sem leggur af ljósi hennar.
3Gef engum öðrum sæmd þína
né framandi þjóð það sem þér er til heilla.
4Sælir erum vér, Ísraelsmenn,
því að vér vitum hvað Guði er þóknanlegt.
Huggun Jerúsalem til handa5Ver hughraust, þjóð mín,
sem heldur minningu Ísraels við lýði.
6Þér voruð seldir heiðingjunum
en það var ekki til þess að þér glötuðust.
Þér voruð ofurseldir óvinum
sakir þess að þér vöktuð reiði Guðs.
7Þér vöktuð gremju Guðs sem skapaði yður
er þér færðuð illum öndum fórnir en ekki honum.
8Þér gleymduð eilífum Guði, sem ól önn fyrir yður,
og olluð sorg Jerúsalem sem fóstraði yður.
9Hún sá hegningu Guðs koma yfir yður
og sagði: „Heyrið, grannkonur Síonar,
Guð hefur látið mikla hryggð koma yfir mig.
10Því að ég hef séð herleiðingu sona minna og dætra
sem hinn eilífi leiddi yfir þau.
11Ég ól þau upp með fögnuði
en lét þau með gráti og harmi frá mér fara.
12Enginn hlakki yfir mér, ekkjunni,
sem mátt hefur sjá svo mörgum á bak.
Ég er yfirgefin því að börn mín syndguðu
og viku frá lögmáli Guðs.
13Þau virtu ekki réttlætiskröfur hans,
fylgdu ekki boðorðum Guðs
og fóru ekki þann veg
sem réttlæti hans benti þeim.
14Komið, grannkonur Síonar.
Minnist herleiðingar sona minna og dætra
sem Hinn eilífi leiddi yfir þau.
15Hann stefndi gegn þeim þjóð úr fjarska,
blygðunarlausum lýð sem talar annarlega tungu,
virðir aldraða einskis
og miskunnar ekki barni.
16Þeir höfðu brott með sér elskaða syni ekkjunnar
og sviptu einmana konuna dætrum sínum.
17Hvernig ætti ég að geta hjálpað yður?
18Hann einn, sem leiddi ógæfuna yfir yður,
getur frelsað yður úr höndum óvina yðar.
19Farið, börn mín, farið
því að ég er auð og yfirgefin.
20Ég hef afklæðst velsældarskikkju
og íklæðst hærusekk mínum til bænarákalls.
Ég mun hrópa til Hins eilífa alla daga mína.
21Verið hughraust, börnin mín, ákallið Drottin,
hann mun frelsa yður undan ofbeldi
og úr höndum óvinanna.
22Von mín er að Hinn eilífi frelsi yður
og að mér hlotnist fögnuður frá Hinum heilaga
vegna miskunnarinnar sem hann mun brátt auðsýna yður,
hann, eilífur frelsari yðar.
23Ég lét yður frá mér með sorg og kveini
en Guð mun gefa mér yður aftur
með gleði og fögnuði sem varir að eilífu.
24Eins og grannkonur Síonar sáu herleiðingu yðar
munu þær brátt sjá frelsun yðar frá Guði
sem mun koma til yðar með mikilli dýrð og ljóma Hins eilífa.
25Börnin mín, berið þolgóð reiði Guðs sem er yfir yður komin.
Óvinur þinn ofsótti þig
en brátt muntu sjá tortímingu hans
og setja fótinn á háls honum.
26Börnin mín, sem ég dekraði, urðu að ganga grýttar brautir,
þau voru hrifin burt eins og búfé sem óvinir ræna.
27Verið hugrökk, börnin mín, og ákallið Guð.
Hann sem leiddi ógæfuna yfir yður hefur ekki gleymt yður.
28Því að eins og þér hneigðust til að villast frá Guði
skuluð þér nú snúa við og leita hans tífalt ákafar.
29Því að sá hinn sami og leiddi ógæfuna yfir yður
mun senda yður frelsun og eilífa gleði.“
Jerúsalem fullvissuð um hjálp30Vertu hughraust, Jerúsalem.
Sá mun hugga þig sem gaf þér nafn.
31Vei þeim sem léku þig illa
og fögnuðu yfir falli þínu.
32Vei þeim borgum sem þrælkuðu börn þín.
Vei borginni sem tók syni þína.
33Eins og hún fagnaði yfir falli þínu
og hlakkaði yfir hruni þínu,
þannig mun hún hryggjast yfir eyðingu sjálfrar sín.
34Ég mun svipta hana stolti af íbúafjölda sínum
og snúa hroka hennar í hryggð.
35Eldur frá Hinum eilífa mun brenna hana langa hríð
og hún mun byggð illum öndum um langt skeið.
36Lít til austurs, Jerúsalem,
sjáðu fögnuðinn sem kemur til þín frá Guði.
37Þar koma synir þínir sem þú þurftir að senda burt,
þeir koma úr austri og vestri
í fylkingu að boði Hins heilaga
og fagnandi yfir dýrð Guðs.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.