Fyrri konungabók 18 - Biblían (2007)

Elía og spámenn Baals á Karmel

1Löngu síðar eða á þriðja ári eftir þetta kom orð Drottins til Elía:

„Farðu og láttu Akab sjá þig en ég ætla að láta rigna á jörðina.“

2Þá fór Elía til Akabs til þess að láta hann sjá sig.

Þegar mikil hungursneyð var orðin í Samaríu

3kallaði Akab hallarráðsmanninn Óbadía á sinn fund en Óbadía var mjög guðhræddur maður.

4Þegar Jesebel var að tortíma spámönnum Drottins hafði Óbadía komið hundrað spámönnum undan, falið þá í tveimur hellum, fimmtíu í hvorum, og séð þeim fyrir mat og drykk.

5Nú sagði Akab við Óbadía: „Farðu að öllum uppsprettum og lækjum í landinu. Ef til vill er þar nóg gras að finna til að halda lífi í hestum og múldýrum og ekki þarf að fella neitt af búfénu.“

6Þeir skiptu síðan landinu með sér til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina en Óbadía einn í hina.

7Þegar Óbadía var lagður af stað kom Elía óvænt á móti honum. Óbadía þekkti hann þegar, féll fram á ásjónu sína og sagði: „Ert þetta þú sjálfur, Elía, herra minn?“

8„Já, það er ég,“ svaraði hann. „Farðu og tilkynntu herra þínum að Elía sé kominn.“

9„Hvað hef ég til saka unnið,“ spurði Óbadía, „að þú seljir þjón þinn í hendur Akabs? Hann lætur drepa mig.

10Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir: Sú þjóð er ekki til né það konungsríki að herra minn hafi ekki sent þangað menn til þess að leita að þér. Og hvert sinn er svarað var: Hann er ekki hér, lét Akab konungsríkið eða þjóðina sverja að þín hefði ekki orðið vart.

11Nú skipar þú mér að fara og kunngjöra herra mínum að Elía sé kominn.

12Ekki veit ég hvert andi Drottins kann að flytja þig þegar ég fer frá þér. Þegar ég svo kem til Akabs og segi honum þetta og hann finnur þig ekki, þá lætur hann drepa mig. Þó hefur þjónn þinn verið guðhræddur allt frá barnæsku.

13Hefur þér, herra minn, ekki verið sagt frá því sem ég gerði þegar Jesebel var að drepa spámenn Drottins? Ég faldi hundrað af spámönnum Drottins í tveimur hellum, fimmtíu í hvorum, og sá þeim fyrir mat og drykk.

14Og nú skipar þú mér: Farðu og segðu herra þínum að Elía sé kominn. Hann lætur drepa mig.“

15Elía svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn herskaranna, sem ég þjóna, lifir mun ég þegar í dag láta konung sjá mig.“

16Óbadía fór til Akabs og sagði honum þetta. Akab hélt þá til móts við Elía

17og þegar hann sá Elía sagði hann við hann: „Ert þetta þú, skaðvaldur Ísraels?“

18En Elía svaraði: „Það er ekki ég sem hef skaðað Ísrael heldur þú og ætt föður þíns með því að þið hafið hafnað boðum Drottins og þú sjálfur fylgt Baölum.

19Sendu nú menn og stefndu öllum Ísrael til mín á Karmelfjall ásamt þeim fjögur hundruð og fimmtíu spámönnum Baals og þeim fjögur hundruð spámönnum Aséru sem snæða við borð Jesebelar.“

20Akab sendi boð til allra Ísraelsmanna og safnaði spámönnunum saman á Karmelfjalli.

21Þá gekk Elía fram fyrir allt fólkið og hrópaði: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða? Ef Drottinn er Guð, fylgið honum. En ef Baal er Guð, þá fylgið honum.“ En fólkið svaraði honum ekki einu orði.

22Þá sagði Elía við fólkið: „Ég er eini spámaður Drottins, sem eftir er, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu.

23Færið okkur nú tvö naut. Þeir skulu velja annað nautið handa sér, lima það sundur og leggja á viðinn án þess að kveikja eld. Ég mun síðan búa hitt nautið til fórnar og leggja það á viðinn en ekki kveikja eld.

24Þið skuluð ákalla nafn guðs ykkar en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð sem svarar með eldi, hann einn er Guð.“ Allt fólkið svaraði og sagði: „Þetta er vel mælt.“

25Því næst sagði Elía við spámenn Baals: „Veljið annað nautið handa ykkur og búið það fyrst til fórnar því að þið eruð svo margir. Ákallið síðan nafn guðs ykkar en kveikið ekki eld.“

26Þeir tóku við nautinu, sem þeim var fengið, og undirbjuggu það. Að svo búnu ákölluðu þeir nafn Baals frá morgni til hádegis og hrópuðu: „Baal, bænheyrðu okkur.“ En engin rödd heyrðist, enginn svaraði. Þeir dönsuðu haltrandi umhverfis altarið sem þeir höfðu gert.

27Þegar leið að hádegi tók Elía að spotta þá og sagði: „Hrópið hærra. Víst er hann guð. Hann er kannski í þungum þönkum eða í önnum eða hefur þurft að bregða sér frá. Ef til vill sefur hann og þá þarf að vekja hann.“

28Baalsspámennirnir hrópuðu nú hástöfum og tóku að særa sig með sverðum og spjótum samkvæmt siðvenju sinni þar til þeir urðu alblóðugir.

29Þegar komið var fram yfir hádegi fylltust þeir guðmóði. Stóð það yfir allt til þess að tími var kominn til að færa kvöldfórn. En engin rödd heyrðist, ekkert svar, engin viðbrögð.

30Þá sagði Elía við allt fólkið: „Komið hingað til mín.“ Það kom allt til hans og hann tók að endurreisa altari Drottins sem hafði verið rifið niður.

31Elía tók tólf steina, jafnmarga sonum Jakobs sem Drottinn hafði sagt við: „Nafn þitt skal verða Ísrael.“

32Úr steinunum reisti hann nafni Drottins altari og umhverfis altarið gróf hann vatnsrennu sem gat tekið tvær seur sáðkorns.

33Síðan kom hann viðnum fyrir, hlutaði nautið sundur og lagði það ofan á viðinn.

34Því næst sagði hann: „Fyllið fjórar krukkur af vatni og hellið því yfir brennifórnina og viðinn.“ Síðan sagði hann: „Gerið þetta öðru sinni,“ og þeir gerðu það. Loks sagði hann: „Gerið það í þriðja sinn.“ Og þeir gerðu það í þriðja sinn

35svo að vatnið flæddi umhverfis altarið. Vatnsrennuna fyllti hann einnig af vatni.

36Þegar tími var kominn til að færa kvöldfórn gekk spámaðurinn Elía fram og bað: „Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels. Í dag skal það kunngjört að þú sért Guð í Ísrael og að ég sé þjónn þinn og geri allt þetta samkvæmt boði þínu.

37Bænheyr mig, Drottinn, bænheyr mig. Þá mun þetta fólk komast að raun um að þú, Drottinn, ert Guð og að þú snýrð hjörtum þeirra til þín á ný.“

38Þá féll eldur Drottins niður og gleypti brennifórnina, viðinn, steinana og moldina og sleikti jafnvel upp vatnið í rennunni.

39Þegar fólkið sá þetta féll það fram á ásjónu sína og hrópaði: „Drottinn einn er Guð. Drottinn einn er Guð.“

40En Elía skipaði þeim: „Grípið spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan.“ Þeir voru gripnir og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og tók þá þar af lífi.

41Að svo búnu sagði Elía við Akab: „Farðu upp eftir, et og drekk, því að ég heyri dyn af regni.“

42Akab fór upp eftir til þess að eta og drekka en Elía kleif tind Karmelfjalls og hnipraði sig saman á jörðinni með höfuðið á milli hnjánna.

43Hann sagði við þjón sinn: „Farðu upp og horfðu til hafs.“ Hann fór upp eftir, litaðist um og tilkynnti síðan að ekkert væri að sjá. Þetta endurtók sig sjö sinnum.

44Í sjöunda skiptið sagði þjónninn: „Nú rís lítið ský, svo sem hnefastórt, upp úr hafinu.“ Þá sagði Elía: „Farðu og segðu við Akab: Láttu spenna fyrir vagninn og aktu niður eftir áður en regnið lokar veginum fyrir þér.“

45Ekki leið á löngu áður en himinninn myrkvaðist af óveðursskýjum og það gerði úrhellisrigningu. Akab steig í vagninn og ók til Jesreel.

46Hönd Drottins kom yfir Elía, hann batt upp kyrtil sinn og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help