Síðari kroníkubók 33 - Biblían (2007)

Manasse konungur Júda

1Manasse var tólf ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem fimmtíu og fimm ár.

2Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann fylgdi andstyggilegum siðum þeirra þjóða sem Drottinn hafði hrakið burt fyrir augum Ísraelsmanna.

3Hann endurreisti fórnarhæðirnar sem Hiskía, faðir hans, hafði rifið niður og reisti ölturu handa Baölum, gerði Asérustólpa og dýrkaði allan himinsins her og þjónaði honum.

4Hann reisti einnig ölturu í húsi Drottins sem Drottinn hafði sagt um: „Nafn mitt skal ævinlega vera í Jerúsalem.“

5Hann reisti ölturu handa öllum himinsins her í báðum forgörðum húss Drottins.

6Hann lét syni sína ganga gegnum eldinn í Hinnomssonardal, stundaði galdur, spákukl og seið og réð sér miðil og spásagnamann. Hann gerði margt sem illt var í augum Drottins og vakti reiði hans.

7Í húsi Guðs kom hann fyrir líkneski sem hann hafði látið gera en um það hafði Guð sagt við Davíð og Salómon, son hans: „Ég mun ævinlega leggja nafn mitt yfir þetta hús og yfir Jerúsalem sem ég hef útvalið af öllum ættbálkum Ísraels.

8Ég mun aldrei framar hrekja Ísrael frá landinu sem ég lét feður ykkar eignast, svo framarlega sem þeir gæta þess að hlýða öllu sem ég hef lagt fyrir þá í öllu lögmálinu, ákvæðunum og boðunum sem opinberuð voru af Móse.“

9Manasse leiddi Júdamenn og íbúa Jerúsalem afvega svo að þeir unnu verri verk en þjóðirnar sem Drottinn hafði tortímt fyrir augum Ísraelsmanna.

10Þegar Drottinn talaði við Manasse og þjóð hans gáfu þeir því engan gaum.

Manasse iðrast

11Þá sendi Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs gegn þeim. Þeir náðu Manasse með krókum, lögðu hann í eirhlekki og sendu hann til Babýlonar.

12Í þessum þrengingum ákallaði hann Drottin, Guð sinn. Hann auðmýkti sig mjög frammi fyrir Guði feðra sinna

13og bað til hans. Drottinn hlýddi á hann, bænheyrði hann og lét hann snúa aftur til Jerúsalem og taka við konungdómi sínum. Þannig komst Manasse að raun um að Drottinn er hinn sanni Guð.

14Eftir þetta lét Manasse reisa ytri múr við borg Davíðs í dalnum vestan við Gíhónlind, sem sneri að Fiskhliðinu, og umhverfis Ófel. Hann lét gera múrinn mjög háan. Hann setti einnig herforingja yfir allar víggirtar borgir í Júda.

15Þá lét hann fjarlægja hina framandi guði ásamt líkneskinu úr húsi Drottins. Hann lét einnig fjarlægja öll ölturun, sem hann hafði látið reisa á fjallinu sem hús Drottins stóð á og annars staðar í Jerúsalem, og fleygja þeim út fyrir borgina.

16Hann lét lagfæra altari Drottins og færði á því heillafórn og þakkarfórn. Því næst bauð hann Júdamönnum að þjóna Drottni, Guði Ísraels.

17Eigi að síður hélt fólkið áfram að færa fórnir á fórnarhæðunum, þó aðeins Drottni, Guði sínum.

Dauði Manasse

18Það sem ósagt er af sögu Manasse og bæn hans til Guðs síns, svo og orð sjáendanna sem töluðu til hans í nafni Drottins, Guðs Ísraels, er skráð í sögu Ísraelskonunga.

19Í sögu sjáenda hans er bæn hans og bænheyrsla skráð, svo og allar syndir hans og svik hans, staðirnir sem hann lét reisa fórnarhæðir á og Asérustólpa og líkneski sem hann auðmýkti sig frammi fyrir.

20Manasse var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum, grafinn í húsi sínu. Amón, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Amón konungur Júda

21Amón var tuttugu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti tvö ár í Jerúsalem.

22Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Manasse, faðir hans. Amón færði fórnir öllum skurðgoðunum sem Manasse, faðir hans, hafði látið gera og hann þjónaði þeim.

23En hann auðmýkti sig ekki fyrir Drottni eins og Manasse, faðir hans, heldur jók sök sína.

24Þá gerðu hirðmenn Amóns samsæri gegn honum og drápu hann í höll sinni.

25En fólkið drap alla þá sem gert höfðu samsæri gegn Amón konungi og tók Jósía, son hans, til konungs eftir hann.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help