1Á fyrsta ári Daríusar, sem var sonur Xerxesar, medískur að ætt og orðinn konungur í ríki Kaldea,
2á fyrsta stjórnarári hans leitaði ég, Daníel, í ritningunum að því hve mörg ár Jerúsalem skyldi liggja í rústum samkvæmt orði Drottins, sem vitraðist Jeremía spámanni, og reyndust þau sjötíu.
3Þá sneri ég ásjónu minni til Drottins Guðs í bæn og ákalli og fastaði í sekk og ösku.
4Ég bað til Drottins, Guðs míns, og gerði þessa játningu:
„Ó, Drottinn, mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann dyggilega við þá sem elska hann og varðveita boðorð hans.
5Vér höfum syndgað, vér höfum farið villir vegar, vér höfum breytt illa, verið mótþróafullir og vikið frá boðorðum þínum og fyrirmælum.
6Vér höfum ekki hlýtt á þjóna þína, spámennina, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og landslýðsins alls.
7Þitt er réttlætið, Drottinn, en vér berum smán vora allt til þessa dags, Júdamenn, Jerúsalembúar og öll Ísraelsþjóð nær og fjær, í öllum löndum sem þú hefur gert þá útlæga til vegna misgjörða þeirra við þig.
8Ó, Drottinn, smánin er vor, konunga vorra, höfðingja og feðra því að vér höfum syndgað gegn þér.
9Hjá Drottni, Guði vorum, er miskunn og fyrirgefning en vér höfum sýnt honum mótþróa
10og ekki hlýtt Drottni, Guði vorum, og breytt eftir boðorðum hans sem hann gerði oss ljós fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.
11Öll Ísraelsþjóð hefur brotið lögmál þitt, villst af leið og óhlýðnast þér svo að allar bölvanir og eiðar, sem skráðir eru í lögmáli Móse, þjóns Guðs, hafa komið yfir oss því að vér höfum syndgað gegn honum.
12Hann efndi orð sín sem hann hafði hótað oss og leiðtogunum sem stjórnuðu oss, að hann skyldi senda yfir oss mikla ógæfu svo að hvergi undir himninum hafa slík ósköp orðið sem í Jerúsalem.
13Öll þau ósköp, sem skráð eru í lögmáli Móse, eru komin yfir oss. Og ekki höfum vér friðmælst við Drottin, Guð vorn, með því að hverfa frá misgjörðum og öðlast visku af þínum sannleika.
14Því einsetti Drottinn sér að láta ógæfuna koma yfir oss því að Drottinn, Guð vor, hefur unnið öll sín verk af réttlæti en vér höfum óhlýðnast honum.
15Drottinn, Guð vor, sem leiddir þjóð þína frá Egyptalandi með máttugum armi og ert af þeim sökum nafntogaður allt til þessa dags, vér höfum syndgað, vér höfum breytt illa.
16Ó, Drottinn, gerðu eins og sæmir þinni ríkulegu náð, snúðu heift þinni og reiði frá borg þinni Jerúsalem, þínu helga fjalli, því að vegna synda vorra og misgjörða feðra vorra er Jerúsalem og þjóð þín orðin að athlægi allra grannþjóða vorra.
17Heyrðu nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og láttu ásjónu þína lýsa yfir hinn yfirgefna helgidóm þinn sjálfs þín vegna.
18Leggðu við hlustir, Guð minn, og hlýddu á, ljúktu upp augum þínum og líttu umkomuleysi vort og borgarinnar sem við þig er kennd. Vér biðjum þig í auðmýkt, ekki vegna verðskuldunar vor sjálfra, heldur í trausti mikillar miskunnar þinnar.
19Drottinn, heyr. Drottinn, fyrirgef. Drottinn, hygg að og framkvæm. Tef eigi fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn.“
Vikurnar sjötíu20Meðan ég talaði, baðst fyrir og játaði synd mína og synd þjóðar minnar, Ísraels, og bar bæn mína fram fyrir Drottin, Guð minn, fyrir hinu heilaga fjalli hans,
21meðan ég var að biðjast fyrir hóf maðurinn Gabríel sig til flugs en hann hafði ég áður séð í sýninni. Hann kom til mín um kvöldfórnartíma.
22Hann fræddi mig og sagði:
„Daníel, hingað er ég kominn til að veita þér glöggan skilning.
23Þegar þú byrjaðir bænir þínar barst orð og ég er hér til að greina þér frá því enda nýtur þú náðar. Hyggðu því að orðinu og öðlastu skilning á sýninni.
24Sjötíu vikur eru útmældar þjóð þinni og hinni heilögu borg þinni þar til mælir misgjörða þinna er fullur og syndirnar afplánaðar, þar til friðþægt verður fyrir ranglætið og eilíft réttlæti kemst á, sýnir spámannanna rætast og hið háheilaga hlýtur smurningu.
25Vita skaltu og skilja að frá því að orð barst um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem, allt til komu hins smurða, líða sjö vikur og á sextíu og tveim vikum verður hún endurreist, torg hennar og síki. Það verður erfiður tími.
26Að þessum sextíu og tveimur vikum liðnum mun hinn smurði afmáður með öllu. Her leiðtoga nokkurs, sem koma skal, mun eyða borginni og helgidómnum en hann mun farast í flóði. Tortíming er fyrirhuguð uns hernaðinum lýkur.
27Hann mun gera traustan sáttmála við marga í eina viku, frá miðri viku mun hann afnema sláturfórn og matfórn. Við horn altarisins verður viðurstyggð eyðingarinnar uns hin fyrirhugaða tortíming steypist yfir viðurstyggðina.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.