Síraksbók 43 - Biblían (2007)

1Heiðskír festingin er prýði upphæða,

undursamlegt er að horfa á himininn.

2Er sólin rís þá kunngjörir hún á leið sinni

hve undravert tæki Hinn hæsti hefur skapað.

3Á hádegi svíður hún jörðina,

hver fær afborið hita hennar?

4Sá sem kyndir aflinn með físibelg stritar í hita

en þrefalt heitar brennur sól á bergi.

Hún andar frá sér glóandi blæstri,

sendir leiftrandi geisla sem blinda augun.

5Mikill er Drottinn sem skapaði hana,

að boði hans skundar hún sína braut.

6Hann leiðir mánann fram á settum tímum,

eilíft tákn til að kunngjöra tíðir.

7Við mánann miðast komur hátíða,

þetta ljós er þverr um leið og það er fullt.

8Mánuðir hafa þegið nöfn af mána,

undursamleg eru ný hans og nið.

Hann er hæstu hersveitum viti

þar sem hann ljómar á himinhvolfi.

9Leiftur stjarna er skart himins,

ljómandi djásn í upphæðum Drottins.

10Þær taka sér stöðu að boði Hins heilaga

og þreytast aldrei á að halda vörð.

11Sjáið regnbogann og lofið þann sem skóp hann,

dásamlegt er að líta ljóma hans.

12Hann umlykur himininn með ljóma sínum,

hendur Hins hæsta þöndu þann boga.

13Að boði Drottins tekur snjór að falla,

ör eldingaleiftur sendir hann til að hegna.

14Sakir þessa ljúkast upp forðabúr himins,

skýin fljúga fram líkt og fuglar.

15Með máttugum krafti eykur hann styrk skýja,

þau bresta og senda grjóthörð höglin.

Fyrir þrumuraust Drottins engist jörðin

16og fjöllin skjálfa þegar þau sjá hann.

Að vilja hans þýtur sunnanvindurinn

17og norðanstormur og hvirfilvindur.

Hann feykir snjókornum sem fuglahópum,

líkustum engisprettum er létta flugi.

18Hin hvíta fegurð gerir augun agndofa

og skæðadrífan hrífur hjartað.

19Hann dreifir hrími um jörð líkt og salti,

þegar það kristallast minnir það á þyrna.

20Þegar svalur norðanvindur næðir

verða vötnin þakin ísi,

hann leggst yfir hvert vatnsból

og vötnin verða sem búin brynju.

21Hann eyðir gróðri fjalla, brennir auðnina

og svíður engin eins og eldur.

22Vætan býr því öllu skjóta bót,

eins og dögg hressir eftir hita.

23Drottinn náði valdi á djúpi hafsins með visku sinni

og lét eyjar rísa þar.

24Sæfarar kunna að segja frá ógnum hafsins

og vér undrumst það er eyru vor heyra.

25Þar má líta undarleg furðuverk,

furðuheim lífvera og ferlegar skepnur.

26Sakir Drottins farnast þjónum hans vel,

fyrir orð hans standast allir hlutir.

27Margt má segja frekar en aldrei fullnóg

en álykta má af því sem þegar er sagt: Hann er allt.

28Hver megnar að dásama Drottin sem skyldi?

Voldugur er hann, meiri öllu því sem hann skóp.

29Óttalegur er Drottinn, mikilfenglegur mjög,

og undursamlegt er veldi hans.

30Lofið Drottin og dásamið hann

af öllum mætti, þó mun á skorta.

Syngið honum lof af fremsta megni,

þreytist eigi, það verður aldrei fullnóg.

31Hver hefur séð hann, hver fær lýst honum?

Hver fær tignað hann svo sem hæfir?

32Margt er hulið sem er meira en það sem nefnt var,

vér höfum minnst séð af verkum hans.

33Því að Drottinn hefur skapað allt,

hann hefur gefið guðhræddum spekina.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help