Síraksbók 21 - Biblían (2007)

Varist syndina

1Barnið mitt, hafir þú syndgað, ger það eigi framar,

bið fyrirgefningar á því sem henti þig áður.

2Forðastu syndina eins og höggorm,

hún bítur þig ef þú hættir þér nærri.

Tennur hennar eru ljónstennur,

þær svipta mennina lífi.

3Hvert lögbrot er sem tvíeggjað sverð,

áverkar þess verða ekki græddir.

4Ógn og hroki sóa auði,

hús oflátungs mun í eyði leggjast.

5Bæn fátæks manns nær jafnskjótt eyra Drottins,

skjótlega réttir hann hlut hans.

6Sá er hatar áminningu fetar slóð syndara

en sá sem óttast Drottin iðrast af heilu hjarta.

7Orð fer víða af mælskumönnum,

hygginn maður skynjar er þeir mæla um hug sér.

8Sá sem reisir sér hús fyrir lánsfé

safnar steinum í eigin gröf.

9Samkoma guðlausra er eins og spónahrúga,

endalok hennar er brennandi bál.

10Gata guðleysingja er lögð sléttum hellum

en við endi hennar er gap heljar.

Speki og heimska

11Sá sem heldur lögmálið hefur vald á hneigðum sínum

og ótti Drottins leiðir til speki.

12Óhygginn tekur engum aga

en til er sú greind sem á gremju eykur.

13Þekking viturs manns streymir fram sem fljót,

ráð hans eru sem lifandi lind.

14Hugur heimskingjans er sem brotið ker,

honum helst ekki á neinni þekking.

15Heyri vitur maður hyggilegt orð

hælir hann því og eykur við öðru.

Heyri heimskinginn þau lætur hann sér fátt um finnast

og skellir við þeim skollaeyrum.

16Orðræður heimskingja lýja eins og klyfjar á langferð

en yndi er að hlýða á viturra orð.

17Ráða hyggins manns er leitað á samkomum

og gaumur gefinn að orðum hans.

18Spekin er heimskingjanum líkust húsi í rústum,

þekking er flóninu sem sundurlaus orð.

19Fræðsla er fávísum sem fótakefli,

líkust hlekk á hægri hendi.

20Heimskinginn hlær hrossahlátri

en hygginn brosir hóglátlega.

21Greindum manni er uppfræðsla sem gulldjásn,

lík armbandi á hægri handlegg.

22Heimskinginn flanar inn í húsið

en reyndur maður er hæverskur og dokar utan dyra.

23Fávís maður gægist inn um gáttir

en agaður staldrar við úti.

24Að liggja á hleri er háttur siðlausra,

hyggnum manni væri það óbærileg hneisa.

25Óskammfeilinn lætur dæluna ganga

en hygginn hefur taumhald á tungu sinni.

26Í munni heimskingja er hugur hans uppi

en hygginn hugsar áður en hann talar.

27Þegar guðleysinginn formælir Satan

er hann að bölva sjálfum sér.

28Rógberinn flekkar eigin sál,

hann mun hataður af grönnum sínum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help