Jesaja 49 - Biblían (2007)

Þjónn Drottins

1Hlýðið á mig, eylönd,

hyggið að, fjarlægu þjóðir.

Drottinn hefur kallað mig allt frá móðurlífi,

nefnt mig með nafni frá því ég var í móðurkviði.

2Hann gerði munn minn sem beitt sverð

og huldi mig í skugga handar sinnar.

Hann gerði mig að hvassri ör

og faldi mig í örvamæli sínum.

3Hann sagði við mig: „Þú ert þjónn minn,

Ísrael, ég læt þig birta dýrð mína.“

4En ég svaraði: „Ég hef erfiðað til ónýtis,

sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn

en réttur minn er hjá Drottni

og laun mín hjá Guði mínum.“

5En nú segir Drottinn,

hann sem myndaði mig í móðurlífi

til að vera þjónn sinn,

til að ég sneri Jakobi aftur til sín

og til að Ísrael yrði safnað saman hjá honum.

Ég er dýrmætur í augum Drottins

og Guð minn varð minn styrkur.

6Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn

til að endurreisa ættbálka Jakobs

og leiða þá aftur heim

sem varðveist hafa af Ísrael.

Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar

svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.

7Svo segir Drottinn, lausnari Ísraels, hans heilagi,

við hinn fyrirlitna

sem fólk hefur andstyggð á,

við þjón harðstjóranna:

Konungar munu sjá þetta og rísa upp,

höfðingjar falla fram

vegna Drottins sem er trúr,

vegna Hins heilaga Ísraels sem valdi þig.

Fagnaðarrík heimför

8Svo segir Drottinn:

Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig,

á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér,

ég myndaði þig og gerði þig að sáttmála fyrir þjóðina

til þess að reisa við landið

og úthluta eyddum erfðalöndum,

9til að segja við hina fjötruðu: „Gangið út,“

og við þá sem í myrkri sitja: „Komið fram í dagsbirtuna.“

Á öllum fjöllum verða þeir á beit

og finna haglendi á hverri gróðurvana hæð.

10Þá mun hvorki hungra né þyrsta

og hvorki mun breyskja né sólarhiti vinna þeim mein

því að hann sem miskunnar þeim vísar þeim veg

og leiðir þá að uppsprettulindum.

11Ég mun ryðja veg um öll mín fjöll

og breiðstræti munu liggja um hæðirnar.

12Sjáið, þeir koma langt að,

ýmist úr norðri eða vestri

eða frá landi Seveníta.

13Lofsyngið himnar, fagna þú jörð,

þér fjöll, hefjið gleðisöng

því að Drottinn hughreystir þjóð sína

og sýnir miskunn sínum þjáðu.

14En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,

Guð hefur gleymt mér.“

15Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu

að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?

Og þó að þær gætu gleymt

þá gleymi ég þér samt ekki.

16Ég hef rist þig í lófa mér,

múra þína hef ég sífellt fyrir augum.

17Þeir sem endurreisa þig koma í skyndi

en þeir sem rifu þig niður og eyddu þér hurfu á braut.

18Hef upp augu þín og litast um,

allir safnast þeir saman og koma til þín.

Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn:

Þú munt bera þá alla sem skart

og skreyta þig með þeim sem brúður.

19Rústir þínar, tóftir og eydda landið

verður nú of þröngt fyrir íbúana,

þeir sem ætluðu að gereyða þér eru víðs fjarri.

20Börnin, sem þú eignaðist,

munu segja við þig:

„Hér er of þröngt um mig,

færðu þig svo að ég geti komið mér fyrir.“

21Þú spyrð sjálfa þig: „Hver ól mér þessi börn?

Sjálf var ég barnlaus og óbyrja,

útlæg og brottrekin.

Hver fóstraði þessi börn?

Ég var ein eftir,

hvaðan koma þau?“

22Svo segir Drottinn Guð:

Ég bendi þjóðunum með hendi minni,

reisi gunnfána minn fyrir lýðina

og þeir koma með syni þína í fanginu

og bera dætur þínar á öxlum sér.

23Konungar munu gæta barna þinna

og drottningar þeirra fóstra þau fyrir þig.

Þau munu falla jarðar, fram á ásjónur sínar fyrir þér

og sleikja rykið af fótum þér.

Þá muntu komast að raun um að ég er Drottinn

og að þeir sem á mig vona verða ekki til skammar.

24Verður hetja svipt herfangi

eða fanga bjargað frá ofbeldismanni?

25Svo segir Drottinn:

Jafnvel hetja verður svipt fanga sínum

og ofbeldismaðurinn herfangi.

Ég mun sjálfur berjast gegn þeim sem berst gegn þér

og sjálfur mun ég frelsa syni þína.

26Ég mun láta þá sem kúga þig eta eigið hold

og þeir munu verða ölvaðir af eigin blóði eins og af víni.

Allt hold mun þá komast að raun um að ég er Drottinn, frelsari þinn,

og Hinn voldugi Jakobs er lausnari þinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help