Esterarbók (með viðaukum) 4 - Biblían (2007)

Mardokaí biður Ester um hjálp

1Þegar Mardokaí komst að raun um það sem orðið var reif hann klæði sín, bjó sig hærusekk og stráði yfir sig ösku. Hann hljóp út og eftir aðalgötu borgarinnar og hrópaði hástöfum: „Þeir ætla að eyða saklausri þjóð.“

2Hann hélt allt að hliði konungs en staðnæmdist þar því að enginn, sem klæddur er sekk og ösku, má ganga inn í höllina.

3Í öllum skattlöndunum, þar sem boð konungs voru kunngjörð, varð grátur, kvein og mikill harmur meðal allra Gyðinga og klæddust þeir sekk og ösku.

4Þernur og geldingar drottningar komu til Esterar og sögðu henni frá. Þegar hún heyrði um það sem orðið var skelfdist hún og sendi Mardokaí föt til að klæðast í stað hærusekksins en hann skeytti því engu.

5Síðan kallaði Ester Akraþaius fyrir sig, en hann var einn þeirra geldinga sem þjónuðu henni, og sendi hann til að fá nánari upplýsingar hjá Mardokaí.

7Mardokaí sagði honum frá því sem gerst hafði og að Haman hefði heitið konungi tíu þúsund talentum í fjárhirsluna fyrir að fá að eyða Gyðingum.

8Hann lét Akraþaius einnig fá afrit af tilskipuninni um eyðingu Gyðinga sem birt hafði verið í Súsa svo að hann gæti sýnt Ester hana. Bað Mardokaí hann að segja henni að fara bónarveg að konungi og biðja hann að þyrma þjóðinni. „Minnstu þeirra daga er þú bjóst við alþýðukjör og ég sá fyrir þér,“ sagði hann. „Haman, sem gengur konungi næst að tign, hefur rægt okkur og krefst dauða okkar. Ákalla þú Drottin og talaðu máli okkar við konung og bjarga okkur frá dauða.“

9Akraþaius fór og bar Ester þetta allt.

10Sagði hún þá við hann: „Farðu aftur til Mardokaí og segðu:

11Allir menn í ríkinu vita að hver sá karl eða kona sem fer ótilkvaddur inn í innri hallargarð konungs er glataður. Aðeins sá sem konungur réttir gullsprotann að mun lífi halda. Sjálf hef ég ekki verið kölluð inn til konungs í þrjátíu daga.“

12Akraþaius greindi Mardokaí frá öllu sem Ester hafði sagt.

13Þá sagði Mardokaí við hann: „Farðu og segðu við Ester: Ímyndaðu þér ekki að þú ein af öllum Gyðingum í ríkinu munir bjargast.

14Ef þú bregst á þessari stundu munu Gyðingar fá hjálp og vernd annars staðar frá. Þú og ætt föður þíns munuð hins vegar farast. En hver veit nema það hafi verið sakir þessarar stundar sem þú varðst drottning?“

15Þá sendi Ester sendiboðann aftur til Mardokaí með þessi boð:

16„Kveddu alla Gyðinga í Súsa saman án tafar og fastið mín vegna. Þið skuluð hvorki eta né drekka í þrjá sólarhringa. Við þernur mínar munum einnig fasta. Síðan skal ég fara til konungsins þótt það sé gegn lögunum og þó svo að það kunni að kosta mig lífið.“

17Mardokaí hraðaði sér og gerði það sem Ester hafði fyrir lagt.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help