Fyrri kroníkubók 12 - Biblían (2007)

Stuðningsmenn Davíðs í Siklag

1Þetta eru þeir sem komu til Davíðs í Siklag þegar hann var enn útilokaður frá þjónustu við Sál Kísson. Voru þeir meðal þeirra kappa sem studdu hann í bardögum.

2Þeir voru vopnaðir bogum í hægri hendi og gátu kastað grjóti og skotið ör af boga jafnt með hægri hendi sem vinstri.

Af ættmennum Sáls komu eftirtaldir frá Benjamín:

3Ahíeser, höfðingi þeirra, einnig Jóas Semaasson frá Gíbeu, Jesíel og Pelet Asmavetssynir, Beraka og Jehú frá Anatót,

4Jismaja frá Gíbeon, einn hinna þrjátíu kappa og foringi þeirra,

5Jeremía, Jehasíel, Jóhanan og Jósabad frá Gedera,

6Elúsaí, Jerímót, Baalja, Semarja og Sefatja frá Haríf,

7Elkana, Jissía, Asareel, Jóeser og Jasóbeam, sem voru Kóraítar,

8Jóela og Sebadja Jeróhamssynir frá Gedór.

9Einnig gengu til liðs við Davíð hraustir kappar af ættbálki Gaðs og komu í virki hans í eyðimörkinni. Þeir voru þjálfaðir hermenn, vopnaðir skjöldum og spjótum. Þeir líktust ljónum og voru fljótir í förum eins og skógargeitur í fjöllum.

10Eser var foringi þeirra, Óbadía var annar, Elíab þriðji,

11Mismanna fjórði, Jeremía fimmti,

12Attaí sjötti, Elíel sjöundi,

13Jóhanan áttundi, Elsabad níundi,

14Jeremía tíundi og Makbannaí var sá ellefti.

15Þessir menn af ættbálki Gaðs voru foringjar hersins. Sá aumasti þeirra var hundrað manna maki en sá sterkasti þúsund manna maki.

16Það voru þeir sem fóru yfir Jórdan í fyrsta mánuðinum þegar hún flæddi yfir bakka sína og hafði einangrað dalina í austri og vestri.

17Einnig komu menn úr ættbálkum Benjamíns og Júda til Davíðs í virkinu.

18Davíð gekk út til þeirra, ávarpaði þá og sagði: „Ef þið komið til mín með friði og ætlið að styðja mig er ég fús til samstarfs við ykkur. En ef þið ætlið að svíkja mig í hendur fjandmanna minna þó að ég hafi ekkert illvirki framið, þá sér Guð feðra okkar það og refsar ykkur.“

19Þá kom andi yfir Amasaí, foringja hinna þrjátíu, og hann svaraði:

Þínir erum við, Davíð.

Með þér erum við, sonur Ísaí.

Heill, heill sé þér.

Heill þeim sem styður þig

því að Guð þinn styður þig.

Þá tók Davíð við þeim og setti þá meðal foringja liðs síns.

20Nokkrir menn úr ættbálki Manasse gengu einnig til liðs við Davíð þegar hann átti að fara með Filisteum í orrustu gegn Sál. Hann varð þeim þó ekki að neinu liði því að höfðingjar Filistea sendu hann burt þegar þeir höfðu ráðið ráðum sínum og komist að þessari niðurstöðu: „Hann mun að nýju ganga í lið með Sál, húsbónda sínum, og það mun kosta okkur höfuðið.“

21Þegar hann kom aftur til Siklag gengu þessir menn úr ættbálki Manasse í lið með honum: Adna, Jósabad, Jedíael, Mikael, Jósabad, Elíhú og Silletaí. Þeir voru foringjar þúsund manna liða sem komu frá Manasse

22og studdu Davíð gegn ránsflokknum því að þeir voru allir miklir bardagamenn og urðu foringjar í hernum.

23Á hverjum degi komu menn til Davíðs til að styðja hann þannig að herbúðir hans urðu mjög fjölmennar.

Stríðsmenn Davíðs í Hebron

24Þetta er skrá yfir þá hermenn sem komu til Davíðs í Hebron með alvæpni til þess að fela honum konungdóm Sáls eftir boði Drottins:

25Af ættbálki Júda komu 6800 menn sem báru skildi og spjót, allt menn með alvæpni,

26af ættbálki Símeons komu 7100 hraustir hermenn

27og af ættbálki Leví 4600 menn.

28Auk þess kom Jójada, höfðingi ættar Arons, ásamt

293700 mönnum og Sadók, ungur og hraustur stríðsmaður, ásamt 22 foringjum úr fjölskyldu hans.

30Af ættbálki Benjamíns, frændum Sáls, komu 3000 en meirihluti þeirra hélt þá enn trúnaði við ætt Sáls.

31Af ættbálki Efraíms komu 20.800 hraustir hermenn, mikils metnir í fjölskyldum sínum,

32og af hálfum ættbálki Manasse komu 18.000 menn sem höfðu verið kallaðir saman með nafnakalli til þess að koma og taka Davíð til konungs.

33Af öllum ættbálki Íssakars, sem kunni skil á sérhverri tíð og vissi hvað Ísrael bar að gera, komu 200 foringjar ásamt öllum þeim ættmennum sínum sem voru undir þeirra stjórn,

34af Sebúlon kom 50.000 manna her, fullbúinn til orrustu og skipaði sér heils hugar í fylkinguna,

35af Naftalí komu þúsund höfðingjar ásamt 37.000 mönnum vopnuðum skjöldum og spjótum,

36af Dan komu 28.600 menn albúnir til orrustu,

37af Asser kom 40.000 manna her, einnig búinn til bardaga,

38af ættbálkunum handan við Jórdan, af ættbálkum Rúbens, Gaðs og hálfum ættbálki Manasse, kom 120.000 manna her með alvæpni, búinn til bardaga.

39Allir þessir hermenn skipuðu sér heils hugar í fylkinguna og komu til Hebron til að gera Davíð að konungi yfir öllum Ísrael og aðrir Ísraelsmenn voru einnig einhuga um að gera Davíð að konungi.

40Þeir dvöldust nú þrjá daga hjá Davíð og neyttu matar og drykkjar því að ættmenn þeirra sáu þeim fyrir vistum.

41Jafnvel nágrannar þeirra, sem komu alla leið frá Íssakar, Sebúlon og Naftalí, færðu þeim mat á ösnum, úlföldum, múldýrum og nautum. Þeir færðu þeim mjöl, fíkjukökur og rúsínukökur, vín, olíu og mikinn fjölda nauta og fjár því að gleði ríkti í Ísrael.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help