Esekíel 31 - Biblían (2007)

Lífstréð og faraó

1Á fyrsta degi þriðja mánaðar í ellefta árinu kom orð Drottins til mín:

2Mannssonur, segðu við faraó, konung Egyptalands, og fylgdarlið hans:

Hverjum líkist þú í veldi þínu?

3Mikill meiður, sedrusviður, óx á Líbanon.

Fagrar greinar gerðu skóginn skuggsælan,

stofninn óx hátt og króna hans

gnæfði hátt meðal skýjanna.

4Vatnið jók vöxt hans,

frumdjúpið hæð hans.

Það lét ár sínar flæða

umhverfis gróðurreit hans

og veitti lækjum sínum til allra trjáa á sléttlendinu.

5Hann varð því hærri vexti

en öll trén á sléttunni.

Greinunum fjölgaði,

limið breiddi úr sér

af öllu vatninu

sem rann til hans.

6Í greinum hans gerðu allir fuglar himins sér hreiður

og undir liminu

ólu öll dýr merkurinnar afkvæmi

og allar stórþjóðir bjuggu í skugga þess.

7Sedrusviðurinn varð mikilfenglegur og fagur

vegna hinna löngu greina

því að rót hans

náði til mikilla vatna.

8Enginn sedrusviður líktist honum

í garði Guðs,

kýprustréð hafði ekki jafn miklar greinar

og lim platanviðarins líktist ekki limi hans.

Ekkert tré í garði Guðs

var jafn fagurt og hann.

9Ég gerði hann fagran

með sínu mikla limi.

Öll Edenstré í garði Guðs

hlutu að öfunda hann.

10Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Þar sem hann varð hávaxinn og teygði krónu sína upp á milli skýjanna gerðist hann hrokafullur vegna hæðar sinnar.

11Því seldi ég hann hinum voldugasta leiðtoga þjóðanna í hendur. Hann fór með hann eins og hann átti skilið fyrir guðleysi sitt og ég hafnaði honum.

12Framandi menn úr hópi grimmustu þjóða hjuggu hann niður og fleygðu honum í burt. Lim hans féll á fjöllin og alla dali og greinar hans brotnuðu í öllum gljúfrum landsins. Allar þjóðir heims flýðu úr skugga hans og létu hann eiga sig.

13Allir fuglar himinsins bjuggu um sig á föllnum stofninum og öll dýr merkurinnar komu sér fyrir í limi hans.

14Þess vegna skulu engin tré við vatnið verða hávaxin framar og teygja krónur sínar upp á milli skýjanna. Engin tré, sem drekka vatn, skulu ná hæð þeirra því að þau verða öll ofurseld dauðanum. Þau munu fara niður til undirheimanna, til þeirra manna sem grafnir hafa verið.

15Svo segir Drottinn Guð: Daginn sem sedrusviðurinn fór niður til ríkis hinna dauðu lét ég frumdjúpið harma hann og hylja. Ég hélt aftur af kvíslum þess og hinum miklu vötnum var haldið í skefjum. Vegna hans klæddi ég Líbanon í sorgarbúning og öll trén á sléttlendinu visnuðu.

16Ég lét þjóðirnar nötra við dynkinn af falli hans þegar ég sendi hann til ríkis hinna dauðu ásamt þeim sem fara niður í gryfjuna. En í undirheimum létu öll Edenstré huggast, ágætustu tré Líbanons, öll trén sem drekka vatn.

17Þau fóru ásamt sedrusviðnum til undirheima, til þeirra sem féllu fyrir sverði, ásamt niðjum sínum, og bjuggu áður meðal þjóðanna í skugga hans.

18Hvaða Edenstré varð jafnað við þig að stærð og glæsileika? Þér verður steypt ásamt Edenstrjánum til undirheima. Þú munt liggja innan um óumskorna og vopnbitna.

Þannig fer fyrir faraó og allri hans dýrð, segir Drottinn Guð.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help