Sálmarnir 80 - Biblían (2007)

1Til söngstjórans. Liljulag. Asafsvitnisburður. Sálmur.

2Hirðir Ísraels, hlýð á,

þú, sem leiðir Jósef eins og hjörð.

Þú, sem ríkir yfir kerúbunum,

birst þú í geisladýrð

3fyrir Efraím, Benjamín og Manasse.

Vek upp kraft þinn

og skunda oss til hjálpar.

4Guð, reis oss að nýju,

lát ásjónu þína lýsa, að vér frelsumst.

5Drottinn, Guð hersveitanna,

hve lengi varir reiði þín

meðan lýður þinn biður?

6Þú gafst þeim tárabrauð að eta,

færðir þeim gnægð tára að drekka.

7Þú gerðir oss að þrætuefni granna vorra

og fjandmenn vorir smánuðu oss.

8Guð hersveitanna, reis oss að nýju,

lát ásjónu þína lýsa, að vér frelsumst.

9Þú reifst upp vínvið í Egyptalandi,

stökktir burt þjóðum og gróðursettir hann,

10þú rýmdir til fyrir honum,

hann festi rætur og fyllti landið.

11Fjöllin huldust í skugga hans

og sedrustré Guðs af greinum hans.

12Hann breiddi út álmur sínar til hafsins

og teinunga sína til fljótsins.

13Hví braustu varnarvegginn um hann

svo að allir vegfarendur gátu tínt ávextina?

14Skógargeltir nöguðu hann

og dýr merkurinnar bitu hann.

15Guð hersveitanna, snúðu aftur,

lít af himni ofan og sjá,

verndaðu þennan vínvið,

16þennan teinung sem hægri hönd þín gróðursetti.

17Þeir brenndu hann og hjuggu,

lát þá farast fyrir ógnandi augliti þínu.

18Hönd þín hvíli yfir manninum þér til hægri handar,

mannssyninum sem óx að styrk hjá þér.

19En vér munum ekki víkja frá þér.

Gef oss líf og vér munum ákalla nafn þitt.

20Drottinn, Guð hersveitanna, reis oss að nýju,

lát ásjónu þína lýsa, að vér frelsumst.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help