Þriðja Mósebók 21 - Biblían (2007)

Heilagleiki presta

1Drottinn sagði við Móse:

„Ávarpaðu prestana, syni Arons, og segðu:

2Prestur skal ekki saurga sig á líki einhvers ættingja sinna nema það sé af nánustu skyldmennum: móður hans, föður, syni, dóttur eða bróður.

3Hann má saurga sig á líki ógiftrar systur sinnar; hún er honum nákomin af því að hún hefur ekki verið gefin manni.

4En hann má ekki saurga sig á systur sinni sem gift er einhverjum ættingja hans. Hann mundi vanhelga sig.

5Prestar skulu hvorki krúnuraka sig, jafna skegg sitt né rista sár í hörund sitt.

6Þeir skulu vera helgaðir Guði sínum og mega ekki vanhelga nafn Guðs síns. Af því að þeim ber að færa fram eldfórnir Drottins, sem er matur handa Guði þeirra, eiga þeir að vera heilagir.

7Prestar skulu hvorki taka sér skækju fyrir eiginkonu né spjallaða konu né konu sem eiginmaður hennar hefur skilið við því að prestur er vígður Guði sínum.

8Hann skal vera þér heilagur því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur því að ég er heilagur, Drottinn, sem helgar ykkur.

9Þegar dóttir prests vanhelgar sig með skækjulifnaði vanhelgar hún föður sinn. Hún skal brennd í eldi.

10Sá prestur, sem er æðstur bræðra sinna og hefur verið smurður olíu á höfuð sitt og verið settur í embætti með því að skrýða hann klæðum embættis síns, skal hvorki láta hár sitt hanga laust né rífa klæði sín.

11Hann má ekki saurga sig með því að snerta lík, ekki einu sinni lík föður síns eða móður.

12Hann má ekki yfirgefa helgidóminn svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns því að helgi smurningarolíu Guðs hans er á höfði hans. Ég er Drottinn.

13Æðsti presturinn skal taka óspjallaða mey sér fyrir eiginkonu.

14Hann má ekki kvænast ekkju, fráskilinni konu, spjallaðri mey eða skækju heldur skal hann taka sér óspjallaða mey af þjóð sinni fyrir eiginkonu.

15Hann má ekki vanhelga niðja sína á meðal ættbræðra sinna því að ég, Drottinn, helga hann.“

16Drottinn talaði við Móse og sagði:

17„Ávarpaðu Aron og segðu: Enginn niðja þinna, sem hefur líkamslýti, má ganga fram til að bera fram mat Guðs síns.

18Enginn má ganga fram sem hefur líkamslýti, hvorki blindur maður né haltur, maður með klofna vör eða misvöxt,

19fótbrotinn eða handleggsbrotinn,

20krypplingur eða dvergur, maður með vagl á auga, með geitur eða útbrot eða kramin eistu.

21Enginn niðja Arons með líkamslýti má ganga fram til að bera fram eldfórnir Drottins. Af því að hann hefur líkamslýti má hann ekki ganga fram til að bera fram mat Guðs síns.

22En hann má samt eta af mat Guðs síns, hann má eta bæði af hinu háheilaga og af helgigjöfunum.

23Hins vegar má hann hvorki ganga að fortjaldinu né nálgast altarið því að hann hefur líkamslýti. Hann má ekki vanhelga helgidóm minn því að ég, Drottinn, helga hann.“

24Þetta sagði Móse við Aron og syni hans og alla Ísraelsmenn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help