1Í sjöunda mánuðinum bar það til að Ísmael Netanjason, Elísamasonar, sem var skyldur konungsættinni, kom til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, í Mispa og tíu menn með honum. Þegar þeir snæddu með honum í Mispa
2reis Ísmael Netanjason á fætur, ásamt þeim tíu mönnum sem komið höfðu með honum, og hjó Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, banahögg. Þannig drap hann þann mann sem Babýloníukonungur hafði skipað landstjóra.
3Hann drap einnig alla þá Júdamenn sem voru hjá Gedalja í Mispa. Ísmael drap enn fremur hermennina frá Kaldeu sem þar voru.
4Daginn eftir að Gedalja var myrtur, áður en nokkuð hafði frést um það,
5komu áttatíu menn frá Síkem, Síló og Samaríu. Höfðu þeir rakað af sér skeggið, rifið föt sín og rist á sig skinnsprettur. Þeir höfðu með sér korn til fórnar og reykelsi sem þeir ætluðu að fara með til húss Drottins.
6Ísmael Netanjason gekk út úr Mispa til móts við þá. Hann grét á göngunni og þegar hann mætti þeim sagði hann: „Komið til Gedalja Ahíkamssonar.“
7Þegar þeir voru komnir inn í miðja borgina hjó Ísmael Netanjason og þeir sem með honum voru mennina og fleygðu þeim í gryfju.
8En meðal þeirra voru tíu menn sem sögðu við Ísmael: „Dreptu oss ekki. Vér eigum matarbirgðir sem eru faldar úti á akri, hveiti, bygg, olíu og hunang.“ Þá hætti hann við að drepa þá mitt á meðal skyldmenna þeirra.
9En gryfjan sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna er hann drap var stóra gryfjan sem Asa konungur hafði látið gera til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum.
10Því næst fór Ísmael Netanjason burt með allt fólkið sem eftir var í Mispa. Hann fór bæði með dætur konungsins og alla aðra sem eftir voru í Mispa og Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, hafði sett Gedalja Ahíkamsson landstjóra yfir. Ísmael Netanjason tók fólkið með sér og hélt svo af stað til að komast yfir til Ammóníta.
11Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir, sem með honum voru, fréttu nú um öll illvirkin sem Ísmael Netanjason hafði framið.
12Þeir héldu því af stað ásamt öllum mönnum sínum til að ráðast á Ísmael Netanjason. Þeir fundu hann við stóra vatnið í Gíbeon.
13Þegar allt fólkið, sem var með Ísmael, kom auga á Jóhanan Kareason og alla herforingjana, sem voru með honum, gladdist það.
14Allt fólkið, sem Ísmael hafði flutt með sér frá Mispa, yfirgaf hann nú og fór yfir til Jóhanans Kareasonar
15en Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan ásamt átta mönnum og flýði yfir til Ammóníta.
16Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir, sem voru með honum, fóru því næst frá Gíbeon með alla þá sem eftir voru af fólkinu og Ísmael Netanjason hafði tekið með sér frá Mispa eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson. Þeir tóku með sér hermenn, konur, börn og hirðmenn,
17héldu af stað og námu svo staðar við gistihús Kimhams sem er við Betlehem. Þeir hugðust flýja til Egyptalands
18undan Kaldeum því að þeir voru hræddir við þá þar sem Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson sem konungurinn í Babýlon hafði skipað landstjóra.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.