Fyrri konungabók 20 - Biblían (2007)

Stríð við Aram

1Benhadad, konungur Arams, dró saman allan her sinn. Með honum voru þrjátíu og tveir konungar með hesta og hervagna. Hann hélt upp eftir, settist um Samaríu og gerði áhlaup á hana.

2Því næst sendi hann menn inn í borgina til Akabs Ísraelskonungs

3með þessi skilaboð: „Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt. Þær konur þínar og synir, sem mér líst best á, eru einnig mín eign.“

4Ísraelskonungur svaraði og sagði: „Það skal verða eins og þú hefur sagt, herra minn og konungur. Ég og allt, sem ég á, er þitt.“

5En sendimennirnir komu aftur og sögðu: „Svo segir Benhadad: Ég hef skipað þér að afhenda silfur þitt og gull, konur þínar og syni.

6Um þetta leyti á morgun sendi ég þjóna mína til þín til þess að leita í húsi þínu og húsum hirðmanna þinna. Allt sem þér er kært skulu þeir taka og flytja burt með sér.“

7Ísraelskonungur kallaði þá saman alla öldunga landsins og sagði: „Hyggið að og sjáið að þessi maður reynir að koma illu til leiðar. Hann hefur sent menn til mín og heimtað að ég afhendi honum konur mínar og syni, silfur mitt og gull, og ég lét undan honum.“

8Öldungarnir og allt fólkið svaraði honum: „Hlýð honum ekki, lát ekki undan honum.“

9Akab sagði þá við sendimenn Benhadads: „Tilkynnið herra mínum, konunginum: Allt sem þú krafðist af þjóni þínum í fyrra skiptið mun ég gera en við þessari kröfu get ég ekki orðið.“ Sendimennirnir sneru þá aftur og færðu Benhadad svarið.

10Hann sendi enn menn og lét segja: „Guðirnir geri mér hvað sem er nú og héðan í frá ef ryk Samaríu nægir til að fylla hendur allra þeirra sem með mér eru.“

11Ísraelskonungur svaraði og sagði: „Tilkynnið honum: Ekki skyldi sá sem gyrðir sig sverði hrósa sér eins og hinn sem leggur það frá sér.“

12Þegar Benhadad fékk þessa orðsendingu sat hann að drykkju með konungunum í tjöldunum. Hann skipaði mönnum sínum að búast til áhlaups og þeir bjuggu sig til að gera árás á borgina.

13Þá bar svo við að spámaður nokkur kom til Akabs Ísraelskonungs og mælti: „Svo segir Drottinn: Sérðu þennan mikla liðsafnað? Ég sel hann þér í hendur, nú í dag, svo að þú viðurkennir að ég er Drottinn.“

14Akab spurði: „Með hjálp hvers?“ En spámaðurinn svaraði: „Svo segir Drottinn: Með hjálp hermanna héraðsstjóranna.“ „Hver á að hefja orrustuna?“ spurði Akab þá. „Þú,“ svaraði spámaðurinn.

15Akab kannaði þá liðstyrk héraðsstjóranna og reyndust menn þeirra vera tvö hundruð þrjátíu og tveir. Því næst kannaði hann allan herinn, alla Ísraelsmenn. Voru þeir sjö þúsund.

16Um hádegisbil réðust þeir út úr borginni en þá sátu Benhadad og konungarnir þrjátíu og tveir, bandamenn hans, ölvaðir að drykkju í tjöldunum.

17Hermenn héraðsstjóranna fóru fyrstir og þegar boð voru send til Benhadads um að útrás væri hafin úr Samaríu

18sagði hann: „Hafi þeir komið til að biðjast friðar, grípið þá lifandi. En náið þeim einnig lifandi þótt þeir séu komnir til að berjast.“

19Þá höfðu hermenn héraðsstjóranna og herinn, sem fylgdi þeim, ráðist út úr borginni

20og sérhver þeirra hjó þann niður sem á vegi hans varð. Aramearnir urðu þá að flýja en Ísrael rak flóttann. Benhadad, konungur Arams, bjargaðist á hesti ásamt nokkrum riddurum.

21Ísraelskonungur réðst þannig fram, tók hesta og vagna herfangi og biðu Aramear mikinn ósigur.

22Þá gekk spámaðurinn aftur fyrir konung Ísraels og sagði: „Þú skalt vígbúast. Nú verður þú að skilja og sjá hvað þú átt að gera því að um áramót mun konungur Arams halda gegn þér.“

23En ráðgjafar konungsins í Aram höfðu sagt við hann: „Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna sigruðu þeir okkur. Ef við berjumst við þá á jafnsléttu munum við örugglega fara með sigur af hólmi.

24Þetta skaltu gera: Sviptu konungana embættum sínum og skipa landstjóra í þeirra stað.

25Safna síðan að þér her, jafnfjölmennum og þeim sem þú misstir og jafnmörgum hestum og vögnum. Síðan ráðumst við á Ísraelsmenn á sléttunni og sigrum þá áreiðanlega.“ Benhadad hlustaði á ráð þeirra og fór eftir þeim.

26Um áramót kannaði Benhadad Arameana og hélt upp til Afek til þess að herja á Ísrael.

27Liðskönnun hafði einnig verið gerð meðal Ísraelsmanna og þeir birgðir upp af vistum og fóru þeir á móti Arameum. Ísraelsmenn tjölduðu gegnt þeim og voru eins og tvær litlar geitahjarðir en Aramearnir þöktu landið.

28Þá gekk guðsmaðurinn fyrir Ísraelskonung og sagði: „Svo segir Drottinn: Af því að Aramear segja að Drottinn sé fjallaguð en ekki sléttuguð mun ég selja þér allan þennan mikla her í hendur svo að þið viðurkennið að ég er Drottinn.“

29Þeir höfðust nú við í herbúðunum hvorir gegnt öðrum í sjö daga en á sjöunda degi kom til orrustu. Ísraelsmenn felldu hundrað þúsund fótgönguliða Aramea á einum degi.

30Þeir sem af komust flýðu til Afek, inn í Afekborg, en múrinn hrundi þá yfir þá tuttugu og sjö þúsund menn sem eftir voru.

Benhadad hafði einnig flúið inn í borgina og fór hús úr húsi.

31Ráðgjafar hans sögðu þá við hann: „Við höfum heyrt að Ísraelskonungar séu miskunnsamir konungar. Við skulum því gyrðast hærusekk um lendar okkar og binda reipi um hálsinn og ganga fyrir Ísraelskonung. Ef til vill þyrmir hann lífi þínu.“

32Þeir gyrtust síðan hærusekk um lendar sér og bundu reipi um háls sér og gengu fyrir konung Ísraels og sögðu: „Benhadad, þjónn þinn, biður þig að þyrma lífi sínu.“ Akab svaraði: „Er hann enn lifandi? Hann er bróðir minn.“

33Mennirnir töldu þetta góðs vita, samsinntu honum og sögðu: „Já, Benhadad er bróðir þinn.“ „Farið og sækið hann,“ skipaði Ísraelskonungur. Þegar Benhadad kom út lét konungur hann stíga upp í vagninn til sín.

34Benhadad sagði við hann: „Ég skal skila aftur borgunum sem faðir minn tók af föður þínum og þú mátt koma þér upp verslunargötum í Damaskus eins og faðir minn gerði í Samaríu.“ Ísraelskonungur sagði: „Með þessum skilyrðum gef ég þér frelsi.“ Hann gerði síðan samning við Benhadad og lét hann lausan.

35Maður nokkur, sem var einn af lærisveinum spámannanna, sagði við félaga sinn samkvæmt boði Drottins: „Sláðu mig.“ En þegar hann neitaði að slá hann

36sagði hann: „Vegna þess að þú hlýddir ekki skipun Drottins mun ljón drepa þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér.“ Um leið og maðurinn gekk burt frá honum kom ljón á móti honum og drap hann.

37Síðan mætti lærisveinninn öðrum manni og sagði við hann: „Sláðu mig.“ Maðurinn sló hann svo að sá á honum.

38Spámaðurinn fór þá í veg fyrir konunginn en hafði áður gert sig óþekkjanlegan með því að binda fyrir augun.

39Þegar konungurinn fór fram hjá hrópaði spámaðurinn til hans og sagði: „Þjónn þinn fór í bardaga. Þá kom allt í einu einhver maður til mín, færði mér fanga og sagði: Gættu þessa manns. Ef hann sleppur áður en hans verður vitjað skaltu gjalda líf hans með þínu eða greiða eina talentu silfurs.

40Þar sem ég, þjónn þinn, þurfti að snúast í ýmsu, slapp fanginn.“ Ísraelskonungur sagði: „Þú hefur sjálfur kveðið upp dóminn yfir þér.“

41Þá svipti spámaðurinn bindinu skyndilega frá augum sér og Ísraelskonungur þekkti þar einn af spámönnunum.

42En hann sagði við konung: „Svo segir Drottinn: Þar sem þú slepptir manni, sem ég hafði ákveðið að skyldi rutt úr vegi, skal líf þitt koma fyrir líf hans og þjóð þín fyrir þjóð hans.“

43Ísraelskonungur hélt gramur og reiður heim á leið og kom til Samaríu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help