Jesaja 40 - Biblían (2007)

Annar hlutiJerúsalem hughreyst

1Huggið, huggið lýð minn,

segir Guð yðar.

2Hughreystið Jerúsalem

og boðið henni

að áþján hennar sé á enda,

að sekt hennar sé goldin,

að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins

fyrir allar syndir sínar.

3Heyr, kallað er:

„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,

ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,

4sérhver dalur skal hækka,

hvert fjall og háls lækka.

Hólar verði að jafnsléttu

og hamrar að dalagrundum.

5Þá mun dýrð Drottins birtast

og allt hold sjá það samtímis

því að Drottinn hefur boðað það.“

6Einhver segir: „Kalla þú,“

og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“

„Allt hold er gras

og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.

7Grasið visnar, blómin fölna

þegar Drottinn andar á þau.

Sannlega eru mennirnir gras.

8Grasið visnar, blómin fölna

en orð Guðs vors varir að eilífu.“

9Stíg upp á hátt fjall, Síon, fagnaðarboði.

Hef upp raust þína kröftuglega, Jerúsalem, fagnaðarboði.

Hef upp raustina og óttast eigi,

seg borgunum í Júda:

10Sjá, Guð yðar kemur í mætti

og ríkir með máttugum armi.

Sjá, sigurlaun hans eru með honum

og fengur hans fer fyrir honum.

11Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,

taka unglömbin í faðm sér

og bera þau í fangi sínu

en leiða mæðurnar.

Enginn er Guði líkur

12Hver mældi vötnin í lófa sínum

og afmarkaði himininn með spönn sinni?

Hver mældi duft jarðar í mælikeri,

vó fjöllin á reislu

og hæðirnar á vogarskálum?

13Hver getur stýrt anda Drottins,

hver ráðlagt honum og kennt?

14Hvern spurði hann ráða sér til skilningsauka,

hver fræddi hann um leið réttvísinnar,

veitti honum þekkingu,

vísaði honum veginn til skilnings?

15Þjóðirnar eru sem dropi úr fötu

og eru metnar sem ryk á vogarskálum,

hann vegur eyjarnar sem sandkorn væru.

16Líbanonsskógur nægir ekki til eldiviðar

og dýrin í honum ekki til brennifórnar.

17Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum,

hann metur þær einskis, minna en ekkert.

18Við hvern ætlið þér að líkja Guði

og hvað viljið þér taka til jafns við hann?

19Hagleiksmaður steypir skurðgoð,

gullsmiður slær það gulli

og býr það silfurfestum.

20Hinn fátæki velur í helgigjöf

við sem fúnar ekki.

Hann finnur hagan smið

til að reisa líkneski sem haggast ekki.

21Vitið þér ekkert, hafið þér ekki heyrt það,

var yður ekki sagt það frá öndverðu,

hefur yður ekki skilist þetta frá grundvöllun jarðar?

22Það er hann sem situr hátt yfir jarðarkringlunni

en íbúar hennar líkjast engisprettum,

hann þenur himininn út eins og voð

og slær honum sundur eins og tjaldi til að búa í.

23Hann gerir höfðingja að engu,

sviptir þjóðhöfðingja völdum.

24Þeir eru varla gróðursettir, varla sánir,

stofn þeirra hefur varla fest rætur í jörð,

fyrr en hann andar á þá og þeir skrælna

og stormurinn feykir þeim burt eins og hismi.

25Við hvern ætlið þér að líkja mér,

hver er jafningi minn? spyr Hinn heilagi.

26Hefjið upp augun og horfið til himins.

Hver hefur skapað allt þetta?

Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu,

nefnir þær allar með nafni.

Þar sem hann er mikill að mætti og voldugur að afli

verður engrar vant.

27Hvers vegna segir þú, Jakob,

hvers vegna talar þú svona, Ísrael:

„Vegur minn er hulinn Drottni,

Guð minn skeytir ekki um rétt minn.“

28Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt

að Drottinn er eilífur Guð

sem skapaði endimörk jarðar?

Hann þreytist ekki, hann lýist ekki,

viska hans er órannsakanleg.

29Hann veitir kraft hinum þreytta

og þróttlausum eykur hann mátt.

30Ungir menn þreytast og lýjast,

æskumenn hnjóta og falla

31en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,

þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,

þeir hlaupa og lýjast ekki,

þeir ganga og þreytast ekki.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help