Esterarbók (með viðaukum) 9 - Biblían (2007)

Gyðingar eyða óvinum sínum

1Á þrettánda degi tólfta mánaðar, það er adarmánaðar, höfðu bréf konungs náð fram.

2Þann dag var óvinum Gyðinga eytt enda þorði enginn að veita Gyðingum mótspyrnu.

3Skattlandsstjórar, furstar og ritarar konungs sýndu Gyðingum virðingu því að allir óttuðust þeir Mardokaí.

4Að fyrirmælum konungs bar að hafa nafn hans í heiðri í öllu ríkinu.

6Í borginni Súsa felldu Gyðingar fimm hundruð menn,

7þeirra á meðal Farsannestan, Delfón, Fasga,

8Fardata, Barea, Sarbaka,

9Marmasim, Arúfaios og Sabúteus.

10Auk þess felldu þeir tíu syni Búgajans Hamans Hamadatssonar, óvinar Gyðinga. Einnig fóru þeir um ránshendi

11þann dag.

Konungi var tilkynnt um tölu fallinna í Súsa.

12Sagði konungur þá við Ester: „Gyðingar hafa fellt fimm hundruð menn hér í Súsaborg. Hvað ætli þeir hafi gert úti í skattlöndunum? Óskir þú einhvers frekar þá skaltu einnig fá það.“

13Ester svaraði konungi: „Gefðu Gyðingunum leyfi til að halda áfram með sama hætti á morgun svo að þeir geti hengt upp Hamanssynina tíu.“

14Þetta heimilaði konungur og afhenti Gyðingum í borginni lík Hamanssona til upphengingar.

15Komu síðan Gyðingarnir í Súsa saman á fjórtánda degi adar og deyddu þrjú hundruð menn en rændu engu.

16Aðrir Gyðingar í ríkinu söfnuðust einnig saman til að verja sig og fengu frið fyrir óvinum sínum. Deyddu þeir fimmtán þúsund þeirra á þrettánda adar en rændu engu.

17Fjórtánda dag sama mánaðar hvíldust þeir og héldu upp á daginn eins og hvíldardag með fögnuði og glaðværð.

18En Gyðingarnir í Súsa komu einnig saman á fjórtánda deginum, en þeir hvíldust ekki. Hins vegar héldu þeir fimmtánda daginn hátíðlegan með fögnuði og glaðværð.

19Þetta er ástæðan fyrir því að Gyðingar þeir sem búa strjált víðs vegar úti í skattlöndunum halda fjórtánda daginn í adar hátíðlegan með veislum og fögnuði og færa hver öðrum matargjafir. Hinir aftur á móti, sem búa í stórborgunum, halda fimmtánda daginn hátíðlegan með fögnuði og senda nágrönnum sínum gjafir þann dag.

Púrímhátíðin

20Mardokaí skráði frásögn af þessum atburðum á bók sem hann sendi öllum Gyðingum í ríki Artaxerxesar nær og fjær.

21Bað hann þá að halda fjórtánda og fimmtánda daginn í adar hátíðlegan

22því að þá daga veittist Gyðingum friður fyrir óvinum sínum. Allan þann mánuð, það er adarmánuð, skyldu þeir halda brúðkaupsgleði og fagnaðarveislur og senda vinum og fátækum matargjafir því að það var í þeim mánuði sem sorg þeirra snerist í gleði og kvöl í veislufagnað.

23Gyðingarnir veittu því viðtöku sem Mardokaí skrifaði þeim

24um það hvernig Makedóníumaðurinn Haman Hamadatsson hafði barist gegn þeim. Hafði hann dregið hlut og varpað hlutkesti um að útrýma þeim.

25Sagði þar líka frá því er hann fór til konungs til að biðja hann að hengja Mardokaí. En þau vélráð sem hann hafði bruggað Gyðingum hittu hann sjálfan fyrir og voru bæði hann og synir hans hengdir.

26Sökum þessa kallast dagar þessir púrím. Er það heiti dregið af hlutkestunum sem á tungu þeirra kallast púrím. Þeir kallast einnig púrím vegna þeirra atburða sem greint er frá í þessu riti um allar þjáningarnar sem þetta olli og allt sem síðan varð.

27Gyðingar hlýddu boði Mardokaí og gerðu þetta að föstum sið sínum sem aldrei verður aflagður og sið afkomenda sinna og þeirra sem hafa gengið gyðingdómi á hönd. Daga þessa ber að halda hátíðlega sem minningardaga, kynslóð af kynslóð í sérhverri borg og fjölskyldu og landi.

28Þessir púrímdagar skulu haldnir hátíðlegir um alla framtíð og minning þeirra mun aldrei fyrnast með komandi kynslóðum.

29Ester drottning, dóttir Aminadabs, og Gyðingurinn Mardokaí skrifuðu niður allt sem þau gerðu og sendu bréfið til staðfestingar bréfinu um púrímhátíðina.

30Mardokaí og Ester drottning fyrirskipuðu þetta að eigin frumkvæði og framkvæmdu vilja sinn á eigin ábyrgð.

32Þetta ákvarðaði Ester fyrir framtíð alla og var það skráð svo að það gleymdist ekki.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help