Síraksbók 13 - Biblían (2007)

1Hver sem snertir bik mun flekkast

og sá sem umgengst drambsaman dregur dám af honum.

2Tak eigi upp byrði sem er þér um megn

og legg eigi lag við þér voldugri og auðugri.

Hvernig farnast leirkeri hjá járnpotti?

Rekist það í hann brotnar kerið.

3Auðmaðurinn beitir rangindum

og er auk þess óskammfeilinn.

Fátæklingnum er gert rangt til

og má auk þess biðja velvirðingar.

4Geti auðmaður haft not af þér þá mun hann nota sér þig

en sért þú í nauð snýr hann baki við þér.

5Eigir þú eitthvað til þá unir hann hjá þér,

gerir eign þína að engu og fæst eigi um það.

6Þarfnist hann þín mun hann villa um fyrir þér,

vera hýr í bragði og uppörvandi,

blíðmáll mun hann segja: „Þarfnast þú einhvers?“

7Hann verður svo örlátur að þú blygðast þín

uns hann hefur haft allt af þér tvö- og þrefalt

og hefur þig að lokum að háði.

Sjái hann þig síðar forðast hann þig

og skekur höfuðið yfir þér.

8Gæt þess að láta ei blekkjast,

lát fávísi þína ekki verða þér til niðurlægingar.

9Bjóði valdamaður þér heim vertu þá ekki óðfús,

þá mun hann leggja enn harðar að þér.

10Trana þér ekki fram svo að þér verði ekki stjakað frá,

vertu ekki óframfærinn því að þá gleymist þú.

11Gerðu þér eigi dælt við valdamann,

treystu ekki heldur skrafi hans.

Í löngum viðræðum er hann að reyna þig

og rannsakar þig á meðan hann brosir við þér.

12Óvæginn er sá sem hleypur með það sem honum er sagt

og hlífir þér hvorki við harðræði né helsi.

13Gæt vel að og ver varkár,

þér er hætt við hrösun í hverju skrefi.

14Heyrir þú þetta í svefni þá skaltu vakna.

Elska Drottin svo lengi sem þú lifir,

bið til hans svo að þér verði bjargað.

15Sérhver dýrategund ann sínum líkum,

hver og einn maður sér nánum.

16Allar verur halda sig að sinni tegund,

sérhver maður laðast að sínum líka.

17Ekki leggur úlfur lag sitt við lamb

né heldur guðlaus við guðrækinn.

18Ekki geta hýena og hundur setið á sárs höfði

og aldrei munu ríkur og fátækur halda frið.

19Villiasnar í auðninni verða ljónum að bráð

og eins leita auðugir bráðar hjá fátækum.

20Auðmýkt er drambsömum andstyggð,

eins fyrirlítur auðugur fátækan.

21Hnjóti auðmaður styðja hann vinir

en falli fátækur stjaka vinir jafnvel við honum.

22Verði auðugum á reynast margir til varnar,

fari hann með firru er það lagt út á betri veg.

Verði fátækum á mun hann fyrirlitinn

og enginn hlýðir á viturleg orð hans.

23Er auðugur mælir þegja allir

og hefja orð hans til skýjanna.

Er fátækur talar er sagt: „Hver er nú þetta?“

Hnjóti hann er honum hrundið um koll.

24Góður er auður sem vel er fenginn

en fátækt er böl að mati guðlausra.

25Það sem hjarta manns geymir breytir ásjónu hans

ýmist til góðs eða þá ills.

26Hýr svipur ber vott um hamingju í hjarta.

Að semja dæmisögur krefst djúprar umhugsunar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help