1Drottinn, faðir, hertogi lífs míns,
gef mig ekki lausmælgi á vald,
lát mig ei lenda í ógæfu vegna tungu og vara.
2Ó, að einhver legði svipu á lund mína
og hirtingarvönd á hjarta mitt
svo að eigi verði þyrmt syndum þeirra
né aumkaðar yfirsjónir þeirra.
3Ella mun yfirsjónum mínum fjölga
og syndir mínar hlaðast upp
uns fall mitt blasir við andstæðingum mínum
og fjendur mínir hlakka yfir falli mínu.
4Drottinn, faðir, lífs míns Guð,
haltu mér frá hroka,
5vernda mig gegn girndum.
6Veit að græðgi og losti nái eigi tökum á mér,
gef að óskammfeilni fái ekki vald á sálu minni.
Um að stjórna tungunni7Hlýðið, börn, á orð mín um taumhald á tungu,
sá sem þess gætir fellur eigi í gildru.
Af orðum sínum
8er syndarinn fangaður
og hrokafullum lastara verða þau til falls.
9Tem þér ei að sverja
né að hafa nafn Hins heilaga títt á vörum.
10Því að sá þræll sem stöðugt eru gefnar gætur
kemst vart hjá sárum af svipuhöggum.
Eins mun sá vart komast hjá að syndga
sem sífellt sver við nafn Drottins.
11Sá sem svardaga iðkar mun syndga stórum,
hús hans mun eigi við hegningu sleppa.
Rjúfi hann eið verður hann sekur
og syndgar tvöfalt sé það viljandi gert.
Ef eiðurinn var orðin tóm mun honum ekki fyrirgefið
og ógæfa dynur á heimili hans.
Um ljótan munnsöfnuð12Til eru orð sem varða dauða,
megi þau aldrei heyrast í arfleifð Jakobs.
Allt slíkt er fjarri guðhræddum,
þeir munu eigi ánetjast syndum.
13Tem þér eigi gróft og léttúðugt tal
því að í slíkum orðum er syndin.
14Minnstu föður þíns og móður
er þú situr meðal áhrifamanna
svo að þú gleymir þér ekki í augsýn þeirra
og gerir þig að fífli með slæmum vana.
Þá munt þú óska að þú hefðir aldrei orðið til
og formæla þínum fæðingardegi.
15Sá maður sem temur sér slæman munnsöfnuð
verður ósiðaður ævina á enda.
Um syndir holdsins16Tvær gerðir manna syndga stórum,
sú þriðja bakar sér bræði Guðs.
Brennandi girnd er sem blossandi bál,
slokknar eigi fyrr en út er brunnin.
Sá maður sem gefur líkama sinn að óskírlífi
mun því ekki hætta fyrr en hann brennur upp.
17Allt er flagaranum fullgott,
hann verður að til æviloka.
18Sá maður sem vanvirðir hjónasæng sína
segir við sjálfan sig: „Hver sér mig?
Það er myrkur kringum mig, veggir hylja mig,
enginn sér mig, hvað hef ég að óttast?
Ekki minnist Hinn æðsti synda minna.“
19Hann óttast aðeins augu manna
en skilur ekki að augu Drottins
eru tíu þúsund sinnum bjartari en sólin.
Þau sjá alla vegu mannsins,
líta inn í leyndustu fylgsni.
20Drottinn þekkti alheim áður en hann skóp hann,
einnig eftir að hann varð til.
21Þvílíkum manni mun hegnt á borgarstrætum,
hann mun gripinn þar sem hann síst varir.
22Svo er og um konu sem er manni sínum ótrú
og lýsir barn annars manns erfingja hans.
23Í fyrsta lagi brýtur hún lögmál Hins hæsta,
í öðru lagi svíkur hún mann sinn,
í því þriðja hefur hún í hórdómi og lausung
alið manni sínum barn sem annar á.
24Hún mun færð fram fyrir söfnuðinn
og sök hennar mun bitna á börnum hennar.
25Börn hennar munu rótlaus verða,
greinar hennar ekki ávöxt bera.
26Hún lætur eftir sig minningu er bölvað mun,
smán hennar mun aldrei afmáð verða.
27Þeim sem hana lifa mun lærast
að ekkert er betra en að óttast Drottin,
né neitt ljúfara en að hlýða boðorðum hans.
28Það er mikil vegsemd að fylgja Guði
og langlífi að vera honum þekkur.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.