Bréf Jeremía 1 - Biblían (2007)

FormáliHér fer á eftir afrit af bréfi frá Jeremía til fanga sem Babýloníukonungur lét flytja í útlegð til Babýlon. Það færir þeim boðskap sem Guð fól Jeremía að flytja.Löng herleiðing í vændum

1Sakir þess að þið syndguðuð gegn Guði verðið þið nú fluttir í útlegð til Babýlonar af Nebúkadnesari Babýloníukonungi.

2Þegar þið komið til Babýlon munuð þið verða þar langa hríð, árafjöld, allt að sjö mannsöldrum. Síðan mun ég leiða ykkur þaðan í friði.

3Nú munuð þið sjá í Babýlon guði úr silfri, gulli og tré, sem menn bera á herðum sér, og vekja þeir heiðingjunum lotningu.

4Gætið þess að ykkur farist ekki eins og heiðingjunum og þið fyllist sömu lotningu fyrir þessum goðum

5þegar þið sjáið mannfjöldann, sem fyrir þeim fer og á eftir þeim gengur, tilbiðja þau. Segið heldur við sjálf ykkur: „Þig ber að tilbiðja, Drottinn.“

6Enda fylgir engill minn ykkur og hann verndar ykkur.

Fánýti skurðgoðanna

7Tunga goðanna er sniðin til af trésmið og sjálf eru goðin þakin gulli og silfri. En ekki mega þau mæla og þau eru tál.

8-9 Menn taka gull og gera kórónur og setja á höfuð goða sinna eins og þau væru skartgjörn mey. Svo ber við að prestarnir ræna goð sín gulli og silfri og nota í eigin þágu

10og greiða jafnvel musterisskækjum með hluta þess. Þeir búa goðin klæðum eins og þessi goð úr gulli, silfri og tré séu menn.

11En sjálf geta þau ekki varist ryði og maðki. Þótt þau beri purpuraklæði

12verður samt að þurrka framan úr þeim rykið úr hofinu sem leggst þykkt á þau.

13Goðið ber veldissprota líkt og landshöfðingi en getur ekki eytt þeim sem brýtur gegn því.

14Það hefur rýting í hægri hendi og öxi en getur hvorki varist ófriði né ræningjum. Af þessu er augljóst að ekki eru þetta guðir. Óttist því ekki goðin.

15Eins og áhald ónýtist við að brotna er því og farið um goð þeirra.

16Þau eru sett upp í hofunum og augu þeirra fyllast ryki undan fótum þeirra sem inn ganga.

17Hafi einhver brotið gegn konunginum er höllin læst eftir að sá hefur verið færður þangað til aftöku. Á sama hátt loka prestarnir hofum sínum með hurðum, lásum og slám svo að ræningjar láti ekki greipar sópa um þau.

18Þeir tendra fleiri ljós fyrir goðin en sjálfa sig þó að goðin geti ekki séð nokkurn skapaðan hlut.

19Goðin eru lík rafti í húsi. Svokölluð innyfli þeirra eru nöguð af smákvikindum sem skríða úr jörðu og éta þau sjálf upp og klæði þeirra án þess að þau verði þess vör.

20Reykurinn í hofinu svertir þau í framan.

21Leðurblökur, svölur og aðrir fuglar setjast á líkama þeirra og höfuð og þá ekki síður kettir.

22Af þessu megið þið ráða að ekki eru þetta guðir. Óttist því ekki goðin.

23Þau hafa verið gyllt til skrauts en þau skína ekki nema einhver fægi þau. Þau fundu ekki einu sinni fyrir því að vera brædd í móti.

24Fyrir þau er goldið of fjár en enginn er þó í þeim andinn.

25Þar sem þau eru fótalaus verður að bera þau á herðum. Það sýnir mönnum að þau eru einskis nýt. Þjónar þeirra blygðast sín jafnvel

26fyrir það að þurfa að styðja þau svo að þau falli ekki. Hafi einhver stillt goðinu réttu upp fær það sig ekki hrært af sjálfsdáðum og standi það hallt getur það ekki rétt sig við. Það að færa goðunum fórn er líkt og að gefa dauðum mönnum gjöf.

27Það sem goðunum er fært að fórn nota prestar þeirra sjálfir. Þeir selja sumt til eigin ábata og annað salta konur þeirra niður. Þær miðla hvorki sjúkum né fátækum neinu.

28Konur, sem hafa á klæðum eða eru nýstignar upp af sæng, fara höndum um fórnargjafirnar. Þar sem þið sjáið af þessu að þetta eru ekki guðir skuluð þið ekki óttast goðin.

29Hví skyldi kalla þetta guði? Það eru konur sem bera fram fórnir fyrir þessi goð af silfri, gulli og tré.

30Í hofum þeirra sitja prestarnir í rifnum klæðum, berhöfðaðir með rakað hár og skegg.

31Þeir kveina og orga frammi fyrir goðum sínum eins og sumra er háttur við erfidrykkjur.

32Af klæðum goðanna taka prestarnir í föt á konur sínar og börn.

33Hvort svo sem þessum goðum er gert gott eða illt geta þau ekki endurgoldið neinum. Þau geta hvorki sett konung til valda né heldur steypt honum af stóli.

34Þau geta ekki heldur veitt neinum gæði eða gull. Sé þeim heitið einhverju og það ekki efnt geta þau aldrei gengið eftir því.

35Aldrei geta þau bjargað manni frá dauða og aldrei hrifið veikan úr hendi annars sterkari.

36Þau munu aldrei geta gefið blindum manni sjónina aftur og manni í nauðum bjarga þau aldrei.

37Aldrei miskunna þau sig yfir ekkjur og munaðarleysingjum gera þau aldrei gott.

38Þessir gull- og silfurbúnu drumbar eru líkastir steinum sem teknir eru úr fjalli. Þeir sem þjóna þeim munu verða til skammar.

39Hvernig má þá álíta þetta guði eða kalla þetta guði?

Fásinna sú að tilbiðja skurðgoð

40Auk þessa vanvirða Kaldearnir sjálfir goðin. Sjái þeir mállausan mann koma þeir með Bel og biðja hann að veita hinum mállausa málið rétt eins og Bel geti skilið nokkuð.

41Jafnvel þótt þeir sjálfir komist að raun um að goðin eru einskis megnug geta þeir ekki snúið baki við þeim. Slíkir heimskingjar eru þeir.

42Einnig sitja konur á götum úti og hafa hnýtt um sig linda og brenna klíð sem reykelsi.

43Þegar vegfarandi hefur leitt einhverja þeirra á brott og lagst með henni hæðir hún konuna næst sér fyrir að hafa ekki gengið eins í augu mannsins og hún sjálf og fengið linda sinn slitinn af.

44Allt sem gert er í þágu þessara goða er tál. Hvernig má þá álíta þau guði eða kalla þetta guði?

45Trésmiðir og gullsmiðir smíðuðu goðin og aldrei verða þau neitt annað en það sem smiðirnir vildu að þau yrðu.

46Jafnvel þeir sem smíða þau lifa skamma hríð.

47Hvernig á þá það sem þeir láta eftir sig af handaverkum að vera guðir? Þeir láta niðjum sínum eftir tál og smán.

48Beri svo ófrið eða voða að höndum velta prestarnir því fyrir sér hvar þeir geti falið sig og goðin.

49Hvernig getur þá hjá því farið að menn skilji að ekki eru þetta guðir sem geta ekki bjargað sjálfum sér frá styrjöld eða voða?

50Þar sem goðin eru úr silfur- og gullbúnu tré mun það einhvern tíma opinberast að þetta er tál. Öllum þjóðum og konungum mun verða augljóst að ekki eru þetta guðir heldur handaverk manna sem hafa engan guðlegan kraft.

51Ætti þá ekki öllum að skiljast að ekki eru þetta guðir?

52Ekki koma þau konungi til valda né heldur gefa þau mönnunum regn.

53Enn síður skera þau úr málum manna eða vernda þann sem misrétti er beittur enda máttvana með öllu.

54Þau eru líkust krákum sem flögra milli himins og jarðar. Þegar eldur brýst út í hofi þessara gull- og silfurbúnu tréguða þá bjarga prestar þeirra sér á flótta. Sjálfir brenna þeir upp í miðju eins og raftar.

55Goðin geta hvorki reist rönd við konungi né óvinum.

56Hvernig má þá álíta eða staðhæfa að þetta séu guðir?

Ekki geta þessir gylltu og silfruðu tréguðir heldur varið sig fyrir þjófum og ræningjum.

57Sá sem nær þeim á sitt vald getur tekið gullið og silfrið utan af þeim og klæðin sem þeir voru sveipaðir og haft á brott með sér án þess að goðin geti gert neitt sjálfum sér til bjargar.

58Konungur, sem sýnir dug sinn, eða húsgagn, sem er nytsamt eiganda sínum, eru því gagnlegri en þessir falsguðir. Hurð á húsi, sem verndar það sem er innan stokks, er nýtari þessum falsguðum og trésúla í konungshöll er hagnýtari en þessir falsguðir.

59Sól, máni og stjörnur, sem skína, hlýða þegar þær eru sendar til að gera gagn.

60Sama máli gegnir um eldinguna, sem víða sér til þegar hún leiftrar, og vindinn sem blæs um öll lönd.

61Einnig halda skýin um heimsbyggð alla þegar Guð býður þeim það.

62Svo er og um eldinn sem að ofan er sendur til að eyða fjöllum og skógum. Hann gerir það sem boðið er. Ekki jafnast falsguðirnir á við þetta, hvorki að útliti né mætti.

63Þess vegna skyldi hvorki telja þá né heldur kalla þá guði, svo máttvana sem þeir eru að fella dóma eða gera mönnum gott.

64Þar sem ykkur er nú ljóst orðið að þeir eru ekki guðir skuluð þið ekki óttast þá.

65Goðin geta hvorki bannfært konunga né blessað.

66Þau geta ekki heldur birt þjóðum tákn á himni. Þau skína hvorki sem sólin né heldur lýsa þau sem máninn.

67Villidýrin eru þeim fremri því að þau geta flúið í fylgsni sér til bjargar.

68Af engu verður séð að goðin séu guðir. Óttist því ekki goðin.

69Þessir gull- og silfurbúnu tréguðir Kaldea verja ekkert fremur en fuglahræða í melónugarði.

70Þeir líkjast þyrnirunna í aldingarði, sem allir fuglar setjast í, þessir gylltu og silfurslegnu tréguðir þeirra og minna á lík sem varpað er út í myrkur.

71Þið munuð sjá að þeir eru ekki guðir þegar purpuralit línklæðin, sem þeir bera, fúna. Að lokum verða þeir sjálfir étnir upp öllu landinu til skammar.

72Sá sem er réttlátur og aðhyllist ekki hjáguði er meira verður en goðin og honum verður ekki álasað.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help