Fyrri konungabók 19 - Biblían (2007)

Elía á Hóreb

1Akab sagði Jesebel frá öllu sem Elía hafði gert og að hann hefði drepið alla spámennina með sverði.

2Jesebel sendi þá mann til Elía með þessi skilaboð: „Guðirnir geri mér hvað sem þeir vilja, nú og héðan í frá, hafi ég ekki um þetta leyti á morgun farið með líf þitt líkt og líf eins af spámönnunum.“

3Elía varð hræddur, bjó sig til ferðar og flýði til að bjarga lífi sínu. Er hann kom til Beerseba í Júda skildi hann þjón sinn þar eftir.

4Sjálfur hélt hann eina dagleið inn í eyðimörkina. Þar settist hann undir einiberjarunna og óskaði þess eins að deyja og mælti. „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt því að ég er engu betri en feður mínir.“

5Síðan lagðist hann þar fyrir og sofnaði. En skyndilega kom engill, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast.“

6Hann litaðist um og sá þá glóðarbakað brauð og vatnskrukku við höfðalag sitt. Hann át og drakk og lagðist síðan fyrir aftur.

7Þá kom engill Drottins öðru sinni, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast. Annars reynist þér leiðin of löng.“

8Hann reis upp, át og drakk. Endurnærður af máltíðinni gekk hann í fjörutíu daga og fjörutíu nætur þar til hann kom að Hóreb, fjalli Guðs.

9Þar kom hann að helli og svaf þar um nóttina. Allt í einu kom orð Drottins til hans: „Hvað ertu að gera hér, Elía?“

10Hann svaraði: „Af brennandi ákafa hef ég lagt mig fram vegna málefnis Drottins, Guðs hersveitanna, því að Ísraelsmenn hafa snúið frá sáttmálanum við þig. Þeir hafa rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“

11Drottinn svaraði: „Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.“ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum.

12Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ.

13Þegar Elía heyrði hann huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og tók sér stöðu við hellismunnann. Þá barst honum rödd sem spurði: „Hvað ert þú að gera hér, Elía?“

14Hann svaraði: „Af brennandi ákafa hef ég lagt mig fram vegna Drottins, Guðs hersveitanna, því að Ísraelsmenn hafa snúið frá sáttmálanum við þig. Þeir hafa rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“

15Drottinn svaraði honum: „Snúðu aftur til Damaskus, farðu sömu leið og þú komst um eyðimörkina. Er þangað kemur skaltu smyrja Hasael til konungs yfir Aram.

16Þú skalt einnig smyrja Jehú Nimsíson til konungs yfir Ísrael og Elísa Safatsson frá Abel-Mehóla skaltu smyrja til spámanns í þinn stað.

17Hvern þann sem kemst undan sverði Hasaels skal Jehú drepa og þann sem kemst undan sverði Jehú skal Elísa drepa.

18En ég mun skilja sjö þúsund eftir í Ísrael, hvert kné sem ekki hefur beygt sig fyrir Baal og hvern munn sem ekki hefur kysst hann.“

Elísa spámaður

19Þegar Elía fór þaðan hitti hann Elísa Safatsson sem var að plægja. Tólf sameyki fóru á undan honum en sjálfur plægði hann með því tólfta. Um leið og Elía gekk fram hjá kastaði hann skikkju sinni yfir hann.

20Elísa yfirgaf nautin þegar í stað, hljóp á eftir Elía og sagði: „Leyfðu mér fyrst að minnast við föður minn og móður. Síðan kem ég og fylgi þér.“ Elía svaraði: „Farðu heim en mundu hvað ég hef gert þér.“

21Elísa sneri við, tók nautin í sameykinu, slátraði þeim og sauð kjötið við eld og hafði aktygi nautanna að eldsneyti. Hann gaf fólkinu kjötið og það neytti þess. Síðan bjó hann sig til ferðar, hélt á eftir Elía og gerðist þjónn hans.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help