Esekíel 17 - Biblían (2007)

Örninn, sedrustréð og vínviðurinn

1Orð Drottins kom til mín:

2Mannssonur, farðu með gátu fyrir Ísraelsmenn, flyttu þeim líkingu

3og segðu: Svo segir Drottinn Guð:

Stór örn með vítt vænghaf,

mikla vængi og þéttan, marglitan fjaðurham

kom til Líbanons og svipti toppnum af sedrustrénu.

4Hann reif af hæsta sprotann

og fór með hann til lands kaupahéðna,

gróðursetti hann í borg prangaranna.

5Þá tók hann einnig fræ úr landinu

og sáði því í frjóa jörð

þar sem nóg var af vatni.

6Fræið dafnaði, varð að vínviði

sem þroskaðist, lágur vexti.

Hann teygði greinar sínar til arnarins

en ræturnar uxu niður.

Hann varð að vínviði,

myndaði rótarskot og bar greinar.

7Þá bar að annan örn, stóran,

með mikið vænghaf og þéttar fjaðrir

og vínviðurinn sneri rótum sínum til hans

og teygði greinar sínar til hans

svo að hann fengi vökvun,

meiri en reiturinn

sem hann var gróðursettur í.

8Samt var hann gróðursettur í frjóa jörð

þar sem nóg var af vatni

svo að hann fengi greinar,

bæri ávöxt

og yrði gróskumikill vínviður.

9Segðu: Svo segir Drottinn Guð:

Mun hann dafna?

Verður hann ekki rifinn upp með rótum,

ávextirnir slitnir af honum

svo að safaríkur vaxtarbroddurinn visnar?

Þá þarf hvorki sterkan handlegg

né marga menn

til að slíta hann af rót sinni.

10Hann var að vísu gróðursettur

en mun hann dafna?

Hlýtur hann ekki að skrælna

þegar brennheitt austanrokið blæs á hann?

Hann mun visna í reitnum þar sem hann óx.

11Orð Drottins kom til mín:

12Segðu nú við hina þverúðugu þjóð: Skiljið þið þetta ekki? Segðu: Konungurinn í Babýlon kom til Jerúsalem og tók konung hennar og höfðingja og flutti þá heim með sér til Babýlonar.

13Því næst valdi hann mann af konungsættinni, gerði við hann samning og tók eið af honum. Hann tók einnig með sér leiðtoga landsins

14til að veikja konungsvaldið svo að það gæti ekki eflst að nýju en konungurinn héldi samninginn við konunginn í Babýlon og að samningurinn stæði í fullu gildi.

15En konungurinn í Jerúsalem gerði uppreisn gegn konunginum í Babýlon er hann sendi menn til Egyptalands eftir hestum og miklu liði. Getur þeim sem gerir slíkt tekist það? Getur sá sem rýfur samning bjargast?

16Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skal hann deyja í borg konungsins, sem veitti honum konungdóm, þar sem hann lítilsvirti eiðinn, sem hann vann honum, og rauf samninginn við hann.

17Faraó mun ekki hjálpa honum í stríðinu, hvorki með öflugum her né fjölmennu liði, þegar árásarvirki verða hlaðin og turnar reistir til að eyða mörgum mönnum.

18Hann hefur lítilsvirt eið með því að rjúfa samning sem hann meira að segja handsalaði. Allt þetta hefur hann gert og mun ekki bjargast.

19Þess vegna segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi mun ég láta eið minn, sem hann lítilsvirti, og samning minn, sem hann braut, koma honum í koll.

20Ég mun þenja net mitt yfir hann og hann mun festast í veiðarfæri mínu. Síðan mun ég flytja hann til Babýlonar. Þar mun ég koma fyrir rétt ásamt honum vegna sviksemi hans við mig.

21Allar úrvalssveitir hans munu falla fyrir sverði og aðrar hersveitir hans. Þeim af liði hans sem af komast mun dreift í vindinn. Þá munuð þið skilja að ég, Drottinn, hef talað.

22Svo segir Drottinn Guð: Ég mun sjálfur svipta burt efstu greinunum á hinu háa sedrustré. Ég mun brjóta af efsta brumkvistinum og sjálfur gróðursetja hann á háu og gnæfandi fjalli.

23Ég mun gróðursetja hann á hæsta fjalli Ísraels og hann mun skjóta greinum og bera ávöxt og verða voldugt sedrustré. Hvers kyns fuglar munu setjast að í því og alls kyns vængjuð dýr finna sér skjól í skugga greina þess.

24Þá munu öll trén á sléttlendinu komast að raun um að ég er Drottinn:

Ég lækka hið háa tré,

hækka hið lága.

Ég læt hið græna tré þorna,

hið visna læt ég blómgast.

Ég, Drottinn, hef talað og mun gera það sem ég sagði.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help