Síraksbók 48 - Biblían (2007)

Elía

1Þá kom Elía fram, eldlegur spámaður,

orð hans brunnu eins og kyndill.

2Hann lét hungursneyð koma yfir þjóðina

og fækkaði henni með ákefð sinni.

3Hann hélt himninum luktum með orði Drottins

og kallaði þrívegis eld að ofan.

4Hversu dáður varstu, Elía, fyrir þau undur er þú gerðir,

hver fær stært sig af að vera þinn jafni?

5Þú vaktir látinn mann til lífsins,

hreifst hann úr helju með orði Hins hæsta.

6Þú steyptir konungum í glötun

og lést dáða menn deyja á sóttarsæng.

7Á Sínaí heyrðir þú ávíturnar,

á Hóreb orð um dóm og endurgjald.

8Þú smurðir konunga til að koma fram hefndum

og spámenn til að feta í fótspor þín.

9Þú varst hrifinn til himins í eldsveip,

í vagni sem eldhestar drógu.

10Ritað er að þú sért reiðubúinn

að koma og sefa reiði Drottins áður en hún blossar upp,

sætta föður við son

og endurreisa ættkvíslir Jakobs.

11Sælir eru þeir sem fá að sjá þig,

eins þeir sem sofnaðir eru í kærleika,

því að einnig vér munum lifa.

Elísa

12Þegar hvirfilvindurinn huldi Elía

fylltist Elísa anda hans.

Hann lét eigi hlut sinn fyrir höfðingjum alla ævi

og lét engan ná valdi á sér.

13Ekkert var honum ofvaxið,

jafnvel í gröfinni spáði hann.

14Hann gerði máttarverk í lifanda lífi

og eftir dauðann voru verk hans undraverð.

15Þrátt fyrir allt þetta iðraðist þjóðin ekki

og lét eigi af syndum sínum

uns hún var hrakin sem herfang úr landi sínu

og henni dreift um alla jörð.

Einungis örfáir voru af þjóðinni eftir skildir

ásamt leiðtoga af ætt Davíðs.

16Sumir þeirra gerðu það sem Drottni þóknaðist

en aðrir syndguðu í æ ríkari mæli.

Hiskía og Jesaja

17Hiskía víggirti borg sína

og leiddi vatn inn í hana.

Hann hjó sig gegnum björg með járnfleyg

og hlóð þró fyrir vatnið.

18Á dögum hans gerði Sanheríb innrás,

sendi Rabsake gegn Hiskía og fór burt.

Rabsake hóf upp arm sinn gegn Síon

og var gífuryrtur í hroka sínum.

19Þá féllst Júdamönnum hugur, hendur þeirra skulfu

og þeir engdust líkt og konur í barnsnauð.

20Þeir ákölluðu miskunnsaman Drottin

og fórnuðu til hans höndum.

Jafnskjótt heyrði Hinn heilagi á himni bæn þeirra

og sendi Jesaja til að frelsa þá.

21Drottinn laust herbúðir Assýríumanna

og engill hans gereyddi þær.

22Enda gerði Hiskía það sem Drottni er geðfellt,

fylgdi staðfastur vegi forföður síns, Davíðs,

eins og Jesaja spámaður bauð honum.

Jesaja var mikill spámaður og sýnir hans sannar.

23Á dögum hans færðist sólin aftur

og hann lengdi líf konungs.

24Af mikilli andagift sá hann endalok alls

og huggaði þá sem harmþrungnir voru á Síon.

25Hann sagði fyrir um allt sem verða mun um alla framtíð,

hulda atburði sem enn eru eigi orðnir.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help